Skoðun

Að umgangast báða foreldra

Forsjá barna - Helga Dögg Sverrisdóttir, sjúkraliði Í grein sem Ottó Sverrisson skrifar í blaðið þann 14. júlí sl. kemur fram að ekki sé tekið á máli þeirra barna sem ekki njóta nægilegrar samvista við báða foreldra. Ég tek heils hugar undir skrif Ottós og undra það að ekki skuli koma víðtækari þrýstingur frá þjóðfélaginu, börnum til hjálpar. Hér er að sjálfsögðu átt við þegar báðir aðilar eru hæfir til að hugsa um börn sín. Á þingi Bandalags starfsmanna ríkis og bæja var fyrir sjö árum samþykkt ályktun um forsjár- og umgengismál og hefur tvívegis verið hnykkt á henni. Ályktunin sem samþykkt var á 40. þingi bandalagsins árið 2003 hljóðar svo: "Fertugasta þing BSRB hvetur yfirvöld til þess að hraða afgreiðslu í forsjár- og umgengnisréttarmálum og hafa ætíð hagsmuni barnanna í fyrirrúmi. Börnum skal tryggður réttur samkvæmt íslenskum barnalögum, lögum um vernd barna og ungmenna og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um samvistir við báða foreldra". Hér er um að ræða nauðsynlegan gjörning, en galli er á gjöf Njarðar. Þessari ályktun hefur á engan hátt verið fylgt eftir hvorki fyrr né nú. Það er mín skoðun að hafi svo stór samtök virkilegan áhuga á því sem ályktunin fjallar um væru íslensk börn kannski farin að sjá fram á að samneyti við báða foreldra yrðu raunveruleg. Í það minnsta gætu slík samtök komið málinu á hreyfingu. Það er deginum ljósara að börn geta ekki barist óstudd við þau öfl sem hamla þeim að umgangast báða foreldra eins og lög kveða á um eða mannsæmandi þykir. Við erum aftarlega á merinni hvað þetta varðar og eigum langt í land með að geta sagt að slíkt bjóða Íslendingar ekki börnum sínum. Innan þingsins hefur það verið Samfylkingin sem hefur tekið á málinu, en að mínu viti ekki af nægilegum sannfæringarkrafti. Það er tími til kominn að þjóðfélagið í heild mótmæli þessari meðferð á saklausum börnum sem óvart hafa lent í deilu foreldra og eru aðalskotmark reiðinnar. Leyfum hamingjusömum börnum að vaxa úr grasi og njóta beggja foreldra þar sem þess er kostur, nóg er af hinu.



Skoðun

Sjá meira


×