Skoðun

Lögin komin til þjóðarinnar

Fjölmiðlalögin - Jónas Jóhannsson héraðsdómari Síðastliðinn föstudag var birtur í Fréttablaðinu greinarstúfur, frá mér kominn, þar sem ég fjallaði vítt og breitt um rúðuþurrkur. Það eitt væri ekki í frásögur færandi ef ekki væri fyrir þá tilviljun, að svo virðist sem þeir, sem greininni var þó beint til, hafi ekki lesið hana. Er það miður. Af því tilefni og einnig í ljósi þjóðfélagslegrar umræðu, sem farið hefur fram undanfarna daga, um 26. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, vil ég leyfa mér að koma hér að viðauka við fyrri blaðagrein. Svo sem þá var rakið, en hefur líklega ekki komið nægilega skýrt fram af minni hálfu, þá dregur Alþingi vald sitt frá íslensku þjóðinni, þ.e. borgurum þessa lands, sem fyrrum voru ranglega nefndir "þegnar". Má því eflaust um kenna þegar hér bjó þjóð, sem var kúguð af yfirvaldi og vissi ekki betur en að hún væri fædd til að þóknast ríkisvaldi, í stað þess sem rétt er, að ríkisvald er leitt af þjóð. Sagan sýnir að þjóðfélög hafa þrifist án ríkisvalds, en ekki veit ég dæmi þess að ríkisvald hafi komið til án þjóðar. Glöggskyggn maður myndi nú spyrja: "Hvernig má þetta vera?" Svarið er einfalt. Valdið er komið frá borgurunum. Þaðan er það runnið og þangað mun það ávallt hverfa. Án borgara er ekki til Alþingi. Alþingi mitt er annars vegar gamalt hús, sem stendur nú við Austurvöll og hins vegar ákveðið valdatæki, sem þjóðin býr yfir og kýs á fjögurra ára fresti 63 samborgara mína til að fara með "á daglegum basis" eins og sumir segja. Ég tók þátt í síðustu alþingiskosningum. Þess vegna get ég ekki skorast undan ábyrgð. Ábyrgð mín, sem borgara þessa lands, felst meðal annars í því að láta heyra í mér þegar kjörnir fulltrúar mínir hafa brugðist þeim skyldum og þeirri ábyrgð, sem þeir leiða frá mér. Eins og sakir standa get ég því miður ekki beðið fram að næstu alþingis-kosningum með að láta rödd mína heyrast. Líkur nú formála eða "prologus"eins og ég og allir hinir lögfræðingarnir lærðu á sínum tíma í lagadeild og gætu eflaust slett fram á latínu í opinberri umræðu, í þeim veikburða tilgangi að þyrla ryki í augu upplýstrar þjóðar. Til að forðast þann stimpil samborgara minna að vera álitinn lýðskrumari eða á annan hátt að vera tengdur við "keypt" álit stjórnmálaflokka eða annarra ráðandi afla þessa lands mun ég hér á eftir gæta þess að fara ekki með neitt, sem ekki stenst skoðun hvers sjálf hugsandi manns. Ég viðurkenni, að Alþingi hafi lagasetningarvald, í umboði borgara þessa lands. Ég viðurkenni, að alþingismenn hafi "rétt til að flytja frumvörp til laga" samkvæmt 38. gr. stjórnarskrárinnar, í mínu umboði. Hitt viðurkenni ég ekki, frekar en þið ágætu samborgarar mínir, að vald Alþingis sé engum takmörkunum háð, eins og nú er haldið fram af hálfu stjórnarherranna. Framsóknarmenn virðast þó vera að átta sig smátt og smátt á þessari augljósu staðreynd. Til upprifjunar. Þegar forseti Íslands synjaði um staðfestingu laga nr. 48/2004 (fjölmiðlalaga) hratt hann af stað ferli samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar, í skjóli valds síns samkvæmt 2. gr. hennar. Það ferli verður ekki stöðvað af Alþingi, hvorki með því að "afturkalla" lögin né heldur með því að breyta þeim eða fella úr gildi með nýjum lögum. Tilvitnuð 38. gr. stjórnarskrárinnar, sem nú er haldið á lofti, kemur þessu máli ekkert við. "Uss og bamm", þið sem reynið að plata borgarana með slíku bulli. Valdið er núna komið til þjóðarinnar. Það er farið úr höndum Alþingis og það er farið úr höndum forseta. Um gildi fjölmiðlalaganna til frambúðar fer nú einungis eftir því hvort þjóðin samþykki í þjóðar­atkvæða­greiðslu, sem boðað skal til eftir 26. gr. stjórnarskrárinnar, að lögin skuli halda gildi sínu. Ella falla þau niður dauð og ómerk. Fyrir því eru þau einföldu rök, að frá þeim tímapunkti, til góðs eða ills fyrir okkur borgarana, þegar forseti synjaði um staðfestingu laganna, þá missti Alþingi forræði yfir lögunum. Umboð þess til að fjalla um lögin hefur verið afturkallað. Þeir sem þykjast vera í vafa um þetta skulu hafa hugfast, að ef vafi leikur á því hvernig túlka beri skýrt ákvæði 26. gr. stjórnarskrárinnar, þá nýtur þjóðin vafans, en ekki einhver ríkisstjórn úti í bæ. Stjórnarskráin er jú okkar eign, en ekki ríkisstjórnarinnar. Það veldur mér vissum vonbrigðum að hæstvirtir prófessorar í lögum, Eiríkur Tómasson og Sigurður Líndal, skuli af kurteisi við ríkisstjórnina gefa henni ranglega undir fótinn, að til sé leið til að "sleppa billega" undan þeirri skömm, sem ríkisstjórnin hefur valdið mér og mínum samborgurum, með því að hleypa þeirri hugsun að í kolli ráðherra, að með því að "afturkalla" fjölmiðlalögin eða fella þau sjálfstætt úr gildi með nýjum lögum, sem lúti þá eingöngu að þeim ólögmæta tilgangi, þá sé ef til vill allt í lagi. Það er nú barasta aldeilis ekki svo. Hin umþrættu lög eru komin til umsagnar þjóðarinnar, í kjölfar synjunar forseta um staðfestingu þeirra og það vald okkar borgaranna til að ákveða hvort lögin skuli halda gildi eður ei verður aldrei, já ég segi aldrei úr höndum okkar tekið. Ég skora á hvern þann lögspeking, sem ríkisstjórnin getur teflt fram, að hnekkja þessu áliti mínu og þjóðarinnar, með rökum sem standast skoðun. Þá er ég ekki að tala um órökstuddar fullyrðingar í gagnstæða átt og/eða tilvísanir til annarra ákvæða stjórnarskrárinnar, settar fram "á flottan hátt" í fjölmiðlum. Gefið þjóðinni nú tækifæri til að svara mótrökum. Þau hafa engin komið fram til þessa. Þegar herra Ólafur Ragnar Grímsson var fyrst kjörinn réttmætur forseti þessa lands kaus ég, eins og fleiri dyggir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins, annan frambjóðanda en þann sem kjörinn var. Svo heitt var mér í hamsi á umræddum tíma, að á heimili mínu var ekki rætt um annað á tímabili en hvað tæki við ef "Óli grís" kæmist til valda. Börnin fóru því miður ekki varhluta af neikvæðu umtali mínu í garð forseta míns. Skömmu eftir kjör hans hélt fjölskyldan í sumarfrí til Spánar. Einhvers staðar yfir miðju Atlantshafi gall þá við í fjögurra ára dóttur minni: "Það er eins gott pabbi, að við erum að fara til Spánar, fyrst að Óli svín er orðinn forseti." Sælir eru saklausir. Ég vil biðja þig, herra forseti, þótt seint sé fram komið, afsökunar á fyrrum illmælgi í yðar garð. Þér eruð forseti minn. Ég treysti á yður. Höfundur er borgari og héraðsdómari.



Skoðun

Sjá meira


×