Skoðun

Frá degi til dags

Þegiðu! Teljist stjórnsemi til kosta í fari forsætisráðherra geta menn fagnað því að Halldór Ásgrímsson er búinn að tileinka sér hana tímanlega fyrir 15. september. Á síðu einni á netinu, sem kennd er við auðvaldið, er eftirfarandi frásögn í gær undir fyrirsögninni Sigurði Kára sagt að þegja!: "Sigurður Kári Kristjánsson og Halldór Ásgrímsson voru staddir í matarboði í Sviss. Er Sigur[ður] Kári fer að fara með ræðu um ógagn Evrópusambandsins ku Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra hafa barið í borð og sagt þegiðu! Ég sel þessa sögu nokkuð dýrt. Ég fékk skriflegt leyfi fyrir að skúbba henni". Ekki er hægt að skilja frásögnina öðru vísi en svo að Sigurður Kári hafi þagnað við þessa skipun utanríkisráðherra. Það bendir kannski til þess að sjálfstæðismenn ætli að vera jafn þægir nýjum forsætisráðherra og framsóknarmenn hafa verið fráfarandi leiðtoga ríkisstjórnarinnar. Moggi bendir á skírlífi Leiðarahöfundum dagblaðanna er ekkert mannlegt óviðkomandi. Í gær gerir Morgunblaðið viðbrögð við alnæmisvandanum að umræðuefni í forystugrein. Fram kemur að Bandaríkjamenn ætli á næstu fimm árum að verja fimmtán milljörðum króna til baráttunnar en liggi undir ámæli fyrir að eyrnamerkja þriðjung fjárins samtökum sem "byggja á trúarlegum grunni og leggja áherslu á skírlífi". Leiðarahöfundur blaðsins er ekki viss um hvort þetta er sanngjörn gagnrýni: "Bent hefur verið á að í Úganda hafi verið lögð áhersla á skírlífi og hvergi hafi náðst betri árangur í baráttunni gegn alnæmi en þar". Til að gæta allrar sanngirni er þessu svo bætt við: "Gagnrýnendur segja hins vegar að það muni litlu skila að predika skírlífi og mun vænlegra til árangurs sé að reka áróður fyrir notkun smokka". Nú bíðum við spennt eftir frekari hugleiðingum Morgunblaðsmanna um þessi efni. Smokkar eða skírlífi, þar liggur efinn!



Skoðun

Sjá meira


×