Skoðun

Felds er þörf

Þjóðaratkvæðagreiðslan - Örlygur Hnefill Jónsson Þingheimur þjóðar hefur áður staðið frammi fyrir vanda um hvaða lög skyldu vera í landi voru. Keypti þá Síðu Hallur að Þorgeiri lögsögumanni og Ljósvetningagoða að hann skyldi upp segja lögin, en Þorgeir var þá enn heiðinn. Þorgeir flaustraði ekki að mikilvægu máli og lagðist undir feld og að morgni hins næsta dags flutti hann örlagaríkustu ræðu sem flutt hefur verið á Íslandi , til þessa. "En nú þykir mér það ráð að vér látim og eigi þá ráða, er mest vilja í gegn gangast, og miðlum svo mál á milli þeirra, að hvorirtveggju hafi nokkuð til sins máls, og höfum allir ein lög og einn sið. Það mun verða satt, er vér slítum í sundur lögin, að vér munum slíta og friðinn." Á fögrum vor- og sumardögum hefur íslensk þjóð verið að móta grundvallarreglur stjórnskipunar sinnar og ber að vanda þá vinnu og skiptir hvert skref sem tekið er miklu um túlkun til framtíðar. Þá er það og nokkuð nýmæli og fagnaðarefni að til sjávar og sveita, á sjúkrahúsum og pizzustöðum, í líkamsræktarstöðvum og sultugerðum ræðir íslensk þjóð nú grunnreglur stjórnskipunar sinnar. Það hefur mikið skort á slíka umræðu. Þannig hefi ég í flutt á Alþingi grundvallarmál sem varðar eftirlit Alþingis með því mikla reglugerðaverki sem sett er með framsali Alþingis á löggjafarvaldi. Það mál fékk ekki framgang enda áhugi til þessa að ræða grundvallarreglur horfið í dægurþrasið, en nú er öldin önnur sem betur fer. Forseti synjar lögum staðfestingar. Skiptar skoðanir voru hin fyrstu viðbrögð stjórnvalda, en þegar utanríkisráðherra tók yfirvegað af skarið um að farið yrði í þjóðaratkvæðagreiðslu hafði málinu miðað nokkuð og synjunarrétturinn orðinn lifandi og viðurkenndur með þeim athöfnum að vinna að þjóðaratkvæðagreiðslunni. Mín skoðun er sú að einföld niðurstaða ráði úrslitum slíkrar kosningar og gildir það bæði fyrir þá sem greiddu atkvæði með lögunum eða í mót. Benda má á að hið háa Alþingi er kosið án þátttökuskilyrða og því gæti fræðilega séð eitt atkvæði í hverju kjördæmi ráðið úrslitum og samsetningu þingsins. Enginn hefur nefnt að setja þurfi þátttökuþröskulda þar og hugmyndir um tengingu í þjóðaratkvæðagreiðslu við fjölda þeirra sem kusu til þings yrðu þá síbreytilegar og í raun bull. Mál þetta var komið til þjóðarinnar og því var ég öldungis ósammála að æfingar með að fella lög úr gildi gætu komið til, því máli þessu hefur með stjórnarskrárbundinni heimild verið vísað til þjóðarinnar. Þetta helga ákvæði er ekki einhver æfingaferill ríkisstjórnar og forseta, þar sem t.d.er hægt að senda lítt breytt lög 20 sinnum til forseta og hækka t.d. 5 % þröskuld um 1 % í senn til þess að sjá hvenær nóg væri að gert. Alþingi og forseti lýðveldisins Íslands fara saman með löggjafarvaldið og til þess mikilvæga starfs verða menn að ganga óhræddir og engu bundnir, nema sannfæringu sinni. Það tókst Þorgeiri sveitunga mínum farsællega og hafði af því þann sóma sem enn stafar ljómi um. Því er ráð að menn höndli nú nokkuð grávöruna hjá Rammagerðinni og dragi svo á sig feldinn næturlangt, því felds er þörf og skynsamrar lausnar, þar sem hvorirtveggju hafa nokkuð til sins máls og sem þjóðin er sátt við.



Skoðun

Sjá meira


×