Skoðun

Hugleiðingar dómara um rúðuþurrkur

Ég er einn af mörgum borgurum þessa lands, sem sækja sína vinnu og fara að henni lokinni heim og una vel í faðmi fjölskyldunnar, áhyggjulitlir af því sem er að gerast úti í þjóðfélaginu, enda höfum við kjörið 63 samborgara okkar til að bera þær áhyggjur á herðum sér. Eitt hefur þó lengi valdið mér hugarangri og það eru rúðu­þurrkurnar á bifreið fjölskyldunnar, sem eru orðnar lúnar eftir margra ára þjónustu. Í stað þess að endurnýja rúðuþurrkurnar hef ég einatt krosslagt fingur og beðið til Guðs að það hætti að rigna. En ég bý á Íslandi og hér rignir árið um kring. Á meðan ég hef áhyggjur af ástandi rúðuþurrknanna sitja þeir sveittir á Alþingi, sem þjóðin hefur treyst til að fara með löggjafarvaldið fyrir sína hönd. Tilefnið er ærið; að setja lög um breytingu á útvarpslögum nr. 53/2000, samkeppnislögum nr. 8/1993 o.fl., sem meðal annars miða að því að fella úr gildi lög nr. 48/2004 um breytingu á útvarpslögum nr. 53/2000 og samkeppnislögum nr. 8/1993. Þetta hljómar ef til vill skringilega, ágætu samborgarar, en þetta er dagsatt. Því megið þið trúa. Eins og þjóðinni er kunnugt tók forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, nýlega þá ákvörðun að synja um staðfestingu laga nr. 48/2004. Við þá ákvörðun vaknaði samstundis til lífsins 60 ára gamalt ákvæði í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33 frá 17. júní 1944, sem hafði aldrei áður verið beitt, enda um "öryggisventil" að ræða í helgasta sáttmála þjóðarinnar; sáttmála sem leysti hana endanlega undan erlendu yfirvaldi eftir áratugalanga sjálfstæðisbaráttu. Sáttmálinn er eign þjóðarinnar og kom í stað annars eldri frá 1874, sem danskur kóngur færði þjóðinni þegar hann hafði uppgötvað að hér byggi vitiborið fólk, sem hefði sjálfstæðar skoðanir og sjálf­stæða hugsun. Í dag er kóngurinn íslenskur. Hann drottnar yfir þjóðinni allri og virðist hafa numið stjórnarskrá okkar úr gildi. Til þess hefur hann þó ekki vald, því eins og fyrr segir er stjórnarskráin sameign borgaranna og hinsta vörn þeirra gegn ofríki kónga og annarra handhafa ríkisvalds. Í 26. gr. stjórnarskrárinnar segir, að ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skuli það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar og veitir staðfestingin því lagagildi. Því næst segir orðrétt: "Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu". Ákvæði 26. gr. felur, eins og flest önnur ákvæði stjórnarskrárinnar, í sér ófrávíkjan­lega réttarreglu og skal því beitt óháð því hvort þeir, sem því þurfa að sæta, uni því eður ei. Þetta lærði ég í lagadeild. Þar var mér einnig kennt, að þegar stæði í lagaákvæði orðið "skal" þá þýði hvorki fyrir laganema né lögfræðinga að halda því fram að orðið megi allt eins skýra sem "má". Í starfi mínu sem héraðsdómari undanfarin 13 ár hef ég sannreynt þessi orð lærimeistara minna og aldrei hefur hvarflað að mér fyrr en nú, að orðið "skal" kveði ekki á um skyldu eins manns eða fleiri til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert. Er hætt við því að ég væri ekki í núverandi starfi ef þetta atriði hefði vafist fyrir mér. Vík ég nú tali mínu aftur að nefndri 26. gr. stjórnarskrárinnar, en þar segir í raun, að leggja skuli lög nr. 48/2004 undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu, til samþykktar eða synjunar. Þetta ákvæði þolir ekki flókna túlkun, svo einfalt er það samkvæmt orðanna hljóðan. Synjun forseta á staðfestingu laganna hafði þau einföldu réttaráhrif í för með sér að Alþingi missti forræði á lögunum. Frá þeim tíma hefur Alþingi ekki heimild til að fjalla um breytingar á lagatextanum, hvað þá að fella hann úr gildi, eins og nú er uppi á teningnum. Nú er svo komið, að Alþingi skortir lagaheimild. Stjórnarskráin og skýrt ákvæði 26. gr. hennar hefur gripið í taumana og hún gengur framar almennum lögum. Alþingismenn, bæði stjórn og stjórnarandstaða, geta því sparað sér vinnustundirnar á miðju sumri og farið í frí eða heim í hérað til kjósenda sinna, þar sem þeir geta þó gert gagn. Ef sú "steypa" verður að lögum, sem rætt er um í sölum Alþingis, geta örlög þeirra vart orðið önnur en að forseti þjóðarinnar synji um staðfestingu þeirra, svo sem honum ber skylda til gagnvart þjóðinni. Efni hins nýja lagafrumvarps og ágreiningur um það og mikilvægi lagasetningar um starfsemi fjölmiðla kemur þessu máli ekkert við. Lög nr. 48/2004 verða ekki numin úr gildi af hinum almenna löggjafa. Hann er ekki til þess bær, heldur aðeins þjóðin, svo sem skýrt er kveðið á um í 26. gr. stjórnar­skrárinnar. Máli mínu til staðfestingar þori ég vart að nefna nokkurn fræðimann á nafn, því hætt er við að sá hinn sami fengi fyrir vikið á sig "kúkalabbastimpilinn" frá einhverjum ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Einn er þó maður, sem sömu herrar virðast enn treysta að hafi haft eitthvert vit í kollinum, en það er Ólafur Jóhannesson fyrrverandi prófessor og ráðherra, sem nú er látinn. Í ljósi þess leyfi ég mér að vísa til rits Ólafs "Stjórnskipun Íslands", bls. 298, sem út kom árið 1960. Þar segir fræðimaðurinn: "Þegar lagafrumvarp er endanlega samþykkt af Alþingi, er það þar með komið úr höndum þingsins, og verður eigi afturkallað af því". Á öðrum stað segir fræðimaðurinn, bls. 300, að í því tilviki er forseti synjar um staðfestingu lagafrumvarps frá Alþingi þá "verða lögin þó að ganga í gegnum hreinsunareld, og fer þá um gildi laganna eftir vilja meiri hluta kjósenda". Ég gæti eflaust útskýrt mál mitt betur ef ég hefði meiri tíma, en tími minn og samborgara minna er á þrotum. Þegar sú skoðun er uppi, sem virðist gegnsýra heilbrigða hugsun nánast allra þingmanna stjórnarflokkanna hér á landi, að fólkið sé fyrir Alþingi en þingið ekki fyrir fólkið, þá er eins gott að bregðast hart við. Nú bíð ég ekki lengur eftir því að Guð láti hætta að rigna; nú er lag að skipta um rúðuþurrkur.



Skoðun

Sjá meira


×