Skoðun

Svikamyllur og fórnarlömb

Ríkislögreglustjóra hefur borist fyrsta kæra Íslendings á hendur Nígeríumanni vegna þess að sá fyrrnefndi telur þann síðarnefnda hafa haft af sér fjórar milljónir króna með blekkingum sem hófust með ævintýralegu tilboði í tölvubréfi. Samkvæmt fréttum af þessu máli liggur við að Íslendingurinn megi hrósa happi fyrir að halda þó lífi eftir að hafa gert tilraun til að endurheimta á eigin vegum það sem af honum var haft. Einsýnt er að Íslendingurinn á ekki að lyfta svo mikið sem litla fingri í öðrum tilgangi en að láta sér þetta ævintýri að kenningu verða. Hann lét blekkjast af einu óteljendi gylliboða sem hafa streymt um heiminn árum saman, fyrst í póstbréfum, nú í tölvubréfum, lengst og mest frá Nígeríu en einnig frá Pakistan og fleiri löndum. Þetta er útgerð svikahrappa á mið þar sem líkleg veiði er fégirnd hrekklausra og beitan hjartnæmar lygasögur. Sem sagt, þessi tilboð um aðstoð við að flytja stórfé gegn vænni þóknun eru alltaf sama blekkingin, fjöldasendingar í von um að einn og einn bíti á agnið. Dæmin um þá sem láta blekkjast halda svikamyllunum gangandi. Minnsta refsing fyrir að bíta á er fjártjón, mesta að enda í eigin útför. Um þann endi eru því miður ýmis dæmi.Ef þessi falstilboð kitla einhvern verulega, þrátt fyrir allt, er þekkingin á uppruna þeirra og eðli hjá Ríkislögreglustjóra. En jafnframt hjá Verslunarráði Íslands, sem tengist Alþjóða verslunarráðinu. Það rekur sérstaka upplýsingaskrifstofu í London um glæpastarfsemi í viðskiptum, ICC Commercial Crime Servises, sem forvitnilegt er að kynna sér á netinu. Svikahrappar í peningaleit sækja að andvaralausum með mörgum öðrum aðferðum. Þekkt hafa verið fyrirtæki í Suður-Evrópu með tilkynningar til rekstraraðila út um allt, sem eiga að hafa verið valdir verðlaunahafar vegna sérstaks árangurs. Til þess að taka á móti verðlaununum þarf að mæta í lúxusuppákomur gegn ærlegu gjaldi. Markmiðið er það sama, að nógu margir láti blekkjast til þess að svikamyllurnar borgi sig og haldi áfram. Nákvæmlega núna á sumarleyfistímanum er vertíð gerviútgefenda sem athafna sig í Mið-Evrópu og víðar. Þeir fara gjarnan um hvert landið af öðru með falsanir og fagurgala, í þeim tilgangi að ná samningum um skráningar og auglýsingar í gervirit og -handbækur, þess vegna til allt að fimm ára í senn. Stólandi á að landinn taki útlendinginn pottþéttan og láti hann jafnvel njóta yfirburða í tungumálakunnáttu. Á sama tíma berast fyrirtækjum víða um heim, ekki aðeins hér, reikningar frá þessum eða sams konar gervifyrirtækjum vegna skráninga eða auglýsinga, í trausti þess að afleysingagjaldkerar gái ekki að sér og greiði óáritaða en sannfærandi reikninga. Það er aðeins ein leið til þess að lenda ekki í gapastokkum af ofangreindum toga. Sú, að taka öllum tilboðum, atgangi og kröfum með þeim fyrirvara að samþykkja ekkert nema að fenginni fullri vissu um það sem í húfi er.



Skoðun

Sjá meira


×