Skoðun

Fátækir skuldarar

Skuldir - Sigrún Á. Reynisdóttir, formaður Samtaka gegn fátækt. Þann 30. júní síðastliðinn segir Rúnar Guðjónsson sýslumaður í Reykjavík í viðtali við Fréttablaðið að skuldarar mæti ekki til fyrirtöku mála og bendir á þrjár leiðir í þessum efnum. Í fyrsta lagi að gera lagabreytingu þannig að gera megi fjárnám að skuldara fjarstöddum, önnur leiðin er sú að leita aðstoðar lögreglu og sú þriðja að fara oftar í fjárnám út í bæ. Það eru ýmsar ástæður fyrir því að fólk lendir í svona hremmingum, ein af ástæðunum er sú að fátækt hefur aukist gífurlega undanfarin ár. Þeir sem lenda í fátækragildrum eiga ekki auðvelt með að losna úr þeim. Oft getur þetta fólk ekki staðið við sínar skuldbindingar og þegar krafan er svo send til lögfræðings er kostnaðurinn orðinn svo mikill að skuldarinn ræður ekki við neitt. Þegar svona er komið brotna sumir undan álaginu, verða jafnvel þunglyndir og treysta sér ekki til að mæta hjá sýslumanni. Ég veit um dæmi þar sem innheimtulögfræðingar hafa gengið hart að fólki sem er bæði andlega og líkamlega veikt og hótað því lögreglu. Það er oft talað um að lögreglan sé fáliðuð svo varla hefur hún mikinn mannskap til að sinna svona hlutum. Sýslumaður segir líka að ekki takist alltaf að hafa uppi á skuldurunum. Eflaust eru ýmsar ástæður fyrir því en sumt fátækt fólk er á hrakhólum með húsnæði og á hvergi heima. Þriðja leiðin sem sýslumaður talar um er að gera fjárnám út í bæ. Hvaða áhrif getur það haft á sálarlíf fólks og barna þeirra sem ekki á fyrir mat eða reikningum og fær slíkar heimsóknir? Stjórnvöld þurfa að finna leiðir og hjálpa þessu fólki úr gildru fátæktar, því hertar aðgerðir leysa ekki vanda þessa fólks. Oftast er það vilji þessa fólks að borga skuldir sínar en það verður að hafa nóg til þess að geta það.



Skoðun

Sjá meira


×