Skoðun

Páskapeningar komnir í gagnið

Hjálparstarf kirkjunnar - Anna M. Þ. Ólafsdóttir, fræðslu- og upplýsingafulltrúi. Páskasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar er þegar farin að skila sér meðal 600 sjálfsþurftarbænda og fjölskyldna þeirra í Malaví. Markmið verkefnisins miða öll að því að útvega hreint vatn til fjölbreyttari nota en áður. Aðeins 37% íbúa Malaví hafa aðgang að hreinu drykkjarvatni í innan við kílómetra fjarlægð frá heimili sínu. Af því leiðir einhæfur landbúnaður, fábreytt fæði og grasserandi sjúkdómar. Markmið Hjálparstarfsins í Malaví eru sex. Fólki er kennt hvernig sjá megi til þess að meira vatn safnist í vatnsból og hvernig er hægt að vernda þau m.a með skógrækt sem bindur vatn í jarðvegi. 225 manns taka þátt í því að planta 45.000 græðlingum þegar rigningartími hefst. 480 fjölskyldum af 600 sem ekki höfðu aðgang að hreinu vatni verður kennt að grafa góða brunna. Verkfærum hefur verið dreift til sérkjörinna umsjónarmanna að óskum íbúanna. Umsjónarmennirnir fylgjast með því að þau séu í lagi og þeim sé skilað. Ákveðið hefur verið hvar skuli grafa eftir vatni og svæðin undirbúin. Hafist verður handa í ágúst þegar efri jarðvegslög eru þurr. Þá sést betur hversu djúpt þarf að grafa til að ná vatni á mestu þurrkatímum og einnig er hætta á að brunnarnir falli saman ef grafið er of snemma. Vatnsöflun fylgir alltaf fræðsla um nauðsyn hreinlætis. 50 heimili taka þátt í fyrsta áfanga þess hluta verkefnisins sem er að reisa kamra. Víða er búið að gera holur og fólkið lærir að steypa stæði ofan á. Yfirbyggingin þarf að vera þannig að vel lofti út úr kamrinum annars verða skordýr innlyksa og auka á smithættu. Lögð er áhersla á þátt kvenna í öllum þessum verkefnum, ekki síst þann að sjá til þess að þær hafi meira um það að segja hvernig vatni á svæðinu er ráðstafað. Í mars var haldið sérstakt kvennanámskeið og samtímis hófst almenn upplýsingaherferð um vatn í héruðunum þremur sem taka þátt í verkefninu. Hún stóð fram í maí. Í apríl höfðu níu þorp sem ákveðið var að myndu koma á áveitum á fyrsta ári verkefnisins fengið kennslu og lokið var við að gera áveituskurði. Vatnsdælum hefur verið komið fyrir og um þessar mundir er verið að veita vatni um skurðina. Í apríl og maí var borinn á lífrænn áburður sem fólkið hafði fengið þjálfun í að höndla og maís og grænmetisfræjum deilt út. Af 30 þorpum hafa 15 fengið geitur og hænur til að rækta. Undanfari þess var að fólkið reisti kofa yfir skepnurnar. Stóð á að fá svín en þau sem henta best við smábúskap hafa einnig verið nokkuð næm fyrir sjúkdómum og beðið er eftir því að fá heilbrigð dýr. Það er einmitt hluti af verkefninu að kenna fólkinu að fást við dýrasjúkdóma, velja rétt fóður og búa vel að skepnunum. Um 70 fjölskyldur eru að búa til aðstöðu til að rækta fisk í tjörnum. Það eykur fjölbreytni í mat, eflir heilsu og jafnar afkomu fjölskyldunnar yfir árið. Áður en verkefnið hófst sá Lútherska heimssambandið, sem er framkvæmdaraðili verkefnisins, um að stofnað væri félag í hverju þeirra 30 þorpa sem verkefnið nær til. Um leið var frætt um lýðræðislega starfshætti. Kosnir leiðtogar sóttu stjórnunarnámskeið. Í samvinnu við þessi félög voru þær 600 fjölskyldur valdar til að taka þátt í umbótunum. Allar lifðu þær á innan við einum hektara lands, höfðu glímt við náttúruhamfarir eða HIV/alnæmi eða höfðu ekki aðgang að drykkjarhæfu vatni. Munaðarlaus börn sem reka heimili ein, einstæðar mæður, fatlaðir og aldraðir nutu forgangs. Engin hjálparsamtök höfðu áður starfað í þessum þorpum. Verkefnið í Malaví er unnið í samvinnu við Lútherska heimssambandið sem Hjálparstarf kirkjunnar er aðili að. Lútherska heimssambandið er framkvæmdaraðili. Þróunarsamvinnustofnun Íslands kostar verkefni með Hjálparstarfinu og deila stofnanirnar með sér kostnaði. Hjálparstarf kirkjunnar þakkar öllum þeim sem studdu páskasöfnunina og fjármögnuðu þannig hluta þess í verkefninu.



Skoðun

Sjá meira


×