Skoðun

Hverfavæðing torveldar sérhæfingu

Hverfavæðing - Hugrún Sigurjónsdóttir, skólasálfræðingur í Miðgarði. Þá hefur enn ein grein um hverfavæðingu litið dagsins ljós frá Degi B. Eggertsyni, borgarfulltrúa Reykjavíkurlistans (Fréttablaðið 26.06). Þarna stiklar Dagur á stóru um ágæti hverfavæðingarinnar. Í stuttu máli mætti segja að hverfavæðing feli í sér að Fræðslumiðstöð, leikskólar og félagsþjónusta Reykjavíkur flytji starfsemi sína út í hverfin. Undirrituð hefur síðustu fjögur ár starfað sem skólasálfræðingur í Miðgarði þar sem vinnur gott fólk í þverfaglegu teymi að lausn ýmissa vandamála. Ég hef verið svo gæfusöm að vinna í frjálsu umhverfi þar sem ég stýri eigin verkefnum og hef til þess fullt traust yfirmanna. Í grein Dags eru hins vegar nokkrir punktar sem mig langar til að vekja máls á. Dagur minnist á að 9 af 10 Reykvíkingum styðji hverfavæðingu. Þá er forvitnilegt að spyrja sig hve stór hluti borgaranna þurfi að notfæra sér þessa þjónustu. Reiknað er með að um 5% barna þurfi á einhverjum tíma sálfræðiaðstoð eða greiningu. Fjárhagsaðstoð og barnaverndarmál gætu verið um 5 til 10% hvort. Lauslega áætlað er þetta að hámarki um 15 til 20% fólks. Svo bætist við önnur þjónusta s.s. umsókn um viðbótarlán til húsnæðiskaupa, en breytingar eru reyndar fyrirhugaðar á því kerfi og ekki útilokað að í framtíðinni muni fólk fá þessa þjónustu í gegnum bankakerfið. Dagur talar um að hverfamiðstöðvar veiti "ráðgjöf sem lítur að daglegu lífi." Ég tel framtíðarsýn ansi dapra hjá Degi ef hann telur að daglegt líf fólks eigi eftir að snúast um fjárhagsaðstoð, sálfræðilegar greiningar á börnum og barnaverndarmál. Kannski er hann að tala um annars konar ráðgjöf sem lítur að daglegu lífi, en almennt held ég að fólk sé það sjálfstætt að það geti tekið daglegar ákvarðanir án aðstoðar. Dagur virðist telja hverfamiðstöðvar ámóta nauðsyn og matvörubúðir og talar um óþægindi þess að "rekast á milli staða" eins og hann orðar það í greininni. Greinarhöfundur er alin upp út á landi. Þar var áfengisverslunin í einu bæjarfélagi, sýslumaðurinn í öðru, augnlæknirinn kom í heimsókn tvisvar á ári og krabbameinsleit var auglýst endrum og eins. Um árabil þurfti greinarhöfundur að "rekast á milli landshluta" til tannréttinga. Þrátt fyrir þetta man ég ekki eftir að fólk hafi mæðst yfir þessu. En nú er öldin önnur og guð forði okkur frá því að þurfa að hreyfa bílinn hvað þá að þurfa að leita að bílastæði niður í bæ þegar við þurfum að reka erindi í miðlægar þjónustustöðvar borgarinnar. Batnandi samgöngur gera það að verkum að auðveldara er að komast á milli staða. Þannig hafa stærri kjarnar eins og Kringlan og Smáralind tekið við af kaupmanninum á horninu, og kann hver að hafa sína skoðun á þessari þróun en svona er nútíminn. Talað hefur verið um að hverfavæðing borgarinnar sé í fararbroddi fyrir hverfavæðingu almennt og að ríkið muni fylgja í kjölfarið. Já mikið væri nú ljúft að þurfa ekki að "rekast" niður í bæ einu sinni á ári til að nöldra yfir álagningarseðlinum. Því segi ég: Hverfavæðum skattstofuna. Skattstofuna í Grímsbæ, já takk!!! Miðgarður í Grafarvogi er kominn til að vera. Í Grafarvogi búa um 18 þúsund manns og finnst mér sjálfsagt að þetta fólk fái þjónustu í sínu hverfi, ekki síst þar sem Grafarvogurinn er landfræðilega út úr kjarna borgarinnar. Ég veit hins vegar að miðlægar stofnanir í borginni hafa verið reknar með miklum sóma og verið í stöðugri framþróun undanfarin ár og áratugi. Í þeim hefur einnig átt sér stað ákveðin sérhæfing þar sem sálfræðingar skipta með sér verkum eftir eðli þeirra. Þetta verður nokkuð erfiðara ef hverfavæðing verður innleidd, því erfitt er að sérhæfa sig á stofnunum þar sem þjónusta þarf breiðari aldurshóp barna. Vegna þessa og margs annars finnst mér mikilvægt að staldra við áður en lengra er gengið í átt til hverfavæðingar.



Skoðun

Sjá meira


×