Skoðun

Baldur á Bessastaði!

Forsetakosningarnar - Hrafnhildur Proppé Lengi vel leit út fyrir að við væntanlegar forsetakosningar væru ekki margir raunhæfir kostir í boði. Ég er því mjög ánægð með framboð Baldurs Ágústssonar og fagna því, að aðili sem ekki tengist neinum stjórnmálaflokki skuli hafa ákveðið að bjóða sig fram til embættisins. Ég hef alltaf haft þá trú, að á stóli forseta Íslands eigi að vera hlutlaus aðili, ópólitískur, sem geti verið sameiningartákn þjóðarinnar og allir geti flykkt sér um, en þannig finnst mér það ekki hafa verið undanfarin ár. Eins og málum hefur verið háttað virðist mér sem eilífir árekstrar hafi verið milli forseta og ríkisstjórnar, og kann ég því afar illa. Ég er viss um að ef á Bessastöðum hefði setið ópólitískur aðili undanfarin ár, væri ekki búin að vera slík spenna milli forseta og ríkisstjórnar sem raun ber vitni. Mér finnst með atburðum undanfarinna daga koma berlega í ljós, hve illa það þjónar hagsmunum okkar landsmanna að hafa fyrrverandi stjórnmálamann í embætti forseta Íslands. Að mínu mati hefur t.d. oft verið meiri ástæða til að nota neitunarvald forsetans en núna. Ég nefni sem dæmi öryrkjamálið, Kárahnjúkavirkjun og þátttöku okkar í Schengen-samstarfinu. Þegar lýðveldið Ísland var stofnað 1944, var ákveðið að þjóðhöfðingi landsins væri forseti, þannig að allir hefðu sömu möguleika og leyfi til að bjóða sig fram til embættisins að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Með framboði Baldurs Ágústssonar til embættis forseta Íslands er kominn fram raunverulegur valkostur fyrir þá sem vilja mann, sem ekki er tengdur stjórnmálum og hefur aldrei verið. Baldur er einlægur, traustur og mannlegur og vill hefja forsetaembættið aftur til aukinnar virðingar, sem honum hefur þótt skorta þó nokkuð á undanfarin ár og er ég sammála honum um það. Baldur kostar sína kosningabaráttu sjálfur og er því öllum óháður. Það er kominn tími til breytinga. - Baldur á Bessastaði!



Skoðun

Sjá meira


×