Erlent

20 manns létust í Írak í dag

Hátt í 20 manns létust í sex sprengjuárásum í Bagdad og Mósúl í Írak í dag. Flestar þeirra voru sjálfsmorðsárásir fyrir utan kristnar kirkjur. Í það minnsta tólf létust í einni sprengjunni en uppreisnarmaður lagði bíl sínum fullum af sprengiefni fyrir utan armenska kirkju í miðborg Bagdads í þann mund sem guðþjónusta var að hefjast. Önnur sprengja sprakk tíu mínútum síðar við kaþólska kirkju um 400 metra frá fyrri kirkjunni og þar létust tveir og fjölmargir særðust. Skömmu seinna bárust fregnir af því að tvær sprengjur hefðu sprungið með sama hætti fyrir utan tvær kirkjur í borginni Mósúl í Norður-Írak, þar lést að minnsta kosti einn. Þá höfðu þegar fjórir látið lífið og yfir fimmtíu særst í Mósúl í sprengiárás á lögreglustöð í morgun. Herlest í Bagdad slapp í dag naumlega við mannsfall þegar sprengja sprakk úti í vegkanti rétt eftir að bílalestin fór fram hjá en nokkrir særðust, þar á meðal myndatökumaður frá BBC. Tveimur Tyrkjum og tveimur Líbönum var rænt í morgun. Tyrkirnir eru bílstjórar fyrir tyrkneskt fyrirtæki sem starfar fyrir Bandaríkjaher. Bílstjórarnir sjö sem setið hafa í haldi í yfir tvær vikur eru enn á lífi, en mannræningjar hafa tvisvar framlengt dauðadómi yfir þeim. Yfir 70 útlendingum hefur verið rænt í Írak síðustu mánuði. Líbana sem rænt var fyrir tveimur dögum var reyndar sleppt úr haldi í morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×