Erlent

Ánægja með sýknuna

Sýknudómur yfir Morgan Tsvangirai leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Zimbabwe hefur endurnýjað trú manna á lýðræðið þar í landi. Robert Mugabe hefur farið með völd í landinu síðasta aldarfjórðung og voru réttarhöldin yfir helsta andstæðingi hans talin enn eitt dæmið um einræðistilburði hans. Fyrirfram höfðu margir búist við að Tsvangirai yrði sekur fundinn, en hann er helsta ógn Roberts Mugabes forseta í embætti. Árið 2002 munaði afar litlu að Tsvangarai næði kosningu en framkvæmd kosninganna var harðlega gagnrýnd. Bæði Bandaríkjastjórn og Evrópusambandið sökuðu Mugabe um að stela kosningunum og hafa beitt stjórn landsins refsiaðgerðum vegna þess. Efnahagsástandið í Zimbabwe er afar slæmt, þar er meira en helmingur fullorðinna íbúa án atvinnu, viðvarandi skortur er á matvælum og verðbólga á ársgrundvelli mælist yfir þrjú hundruð prósent. Kosningar verða haldnar þar á næsta ári en hreyfing Tsvangirais hefur hótað því að hunsa þær verði leikreglur ekki tryggðar. Tsvangirai verður að teljast hugrakkur maður, því hann þessi fyrrverandi námaverkamaður hefur ekki látið bugast þrátt fyrir að hafa verið ítrekað beittur ofbeldi, kallaður föðurlandsvikari og þrisvar ákærður fyrir landráð. Mugabe kallar hann vitleysing vegna þess hve litla formlega menntun hann hefur en stuðningsmenn hans segja persónutöfra hans og sannfæringu einstæða. Réttarhöldin snerust að miklu leyti um umdeilda myndbandsupptöku sem kom í leitirnar skömmu eftir kosningar og talin var sýna Tsvangirai leggja á ráðin með kanadískum ráðgjöfum um að myrða Mugabe. Hefði hann verið fundinn sekur mátti búast við dauðadómi og voru öryggissveitir í viðbragðsstöðu fyrir dómsuppkvaðninguna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×