Skoðun

Gengi krónunnar og hamborgaraverð

Þjóðarbúskapurinn - Katrín Ólafsdóttir Gengi krónunnar hefur verið nokkuð stöðugt síðustu mánuði á sama tíma og viðskiptajöfnuður verður stöðugt óhagstæðari. Búast mætti við að með óhagstæðari viðskiptajöfnuði myndi gengi krónunnar veikjast. Með því drægi úr innflutningi og útflutningur væntanlega glæðast á móti og halli á viðskiptajöfnuði myndi minnka. Það hefur ekki gerst undanfarna mánuði sem væntanlega má að hluta rekja til innflutnings vegna stóriðju. Ein kenning hagfræðinnar er kenningin um jafnvirðisgildi (e. purchasing power parity), en samkvæmt þessari kenningu ætti að vera hægt að kaupa sömu vörur fyrir sömu peningaupphæð hvar sem er í heiminum. Til lengri tíma litið ætti gengi gjaldmiðla að aðlagast svo sama vara kosti það sama hvar sem er. Þessi kenning liggur að baki könnun sem tímaritið Economist tekur reglulega saman um verð á Big Mac í hinum ýmsu löndum. Samkvæmt kenningunni ætti þessi gerð hamborgara að kosta það sama alls staðar. Þannig fæst einfaldur mælikvarði á það hvort gengi gjaldmiðla sé "rétt" skráð miðað við verð á hamborgara. Þarna er verið að beita kenningunni í sinni einföldustu mynd. Grunnur könnunarinnar er verð á Big Mac í Bandaríkjunum, sem var að meðaltali 2,90 dollarar í maí sl. Samkvæmt samanburði the Economist, þá er gjaldmiðill Kína vanmetinn gagnvart dollar um 57%, þ.e. ef kenningin um jafnvirðisgildi héldi, þá ætti gjaldmiðill Kína að vera 57% meira virði miðað við verð á Big Mac í þessum tveimur löndum. Á hinum endanum er Sviss. Miðað við verð á Big Mac í Sviss, ætti gjaldmiðillinn að vera 69% minna virði gagnvart dollar til að jafna verð á hamborgaranum í þessum löndum, enda er verð á Big Mac í Sviss 4,90 dalir. Ísland er ekki með í þessum samanburði, en einfalt er að bæta úr því. Á Íslandi er verð á Big Mac (samkvæmt gengisskráningu Seðlabanka og heimasíðu McDonald’s, 13. júlí) 6,15 mælt í dollurum og því það hæsta meðal þeirra ríkja sem eru í könnun the Economist. Samkvæmt þessu er virði krónunnar ofmetið um 112,4% gagnvart Bandaríkjadal og til að kenningin um jafnvirðisgildi gilti um krónu gagnvart dollar, þá þyrfti gengi krónunnar að vera 151,3 krónur á hvern dollar í stað 71,22 krónur samkvæmt gengisskráningu Seðlabankans 13. júlí. Ef krónan veiktist sem þessu nemur þá væri verð á Big Mac það sama hér á landi og í Bandaríkjunum. Ég er að sjálfsögðu ekki að spá svona mikilli veikingu á gengi krónunnar, aðeins að benda á það að það væri ekki óeðlilegt að sjá einhverja veikingu krónunnar á næstunni í ljósi mikils innflutnings, ekki síst á neysluvörum.



Skoðun

Sjá meira


×