Erlent

Yfirlýsing Annans veldur úlfaþyt

Yfirlýsing Kofis Annans, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, um að árásin á Írak hafi verið ólögleg, hefur valdið úlfaþyt meðal innrásarþjóðanna. „Svívirðileg pólitísk afskipti,“ segja sumir. „Loksins talar einhver hreint út,“ segja aðrir. Kofi Annan hefur, hingað til, haldið sig nokkuð til hlés og forðast að taka afgerandi afstöðu í þessu deilumáli. Yfirlýsing hans í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC hefur því vakið mikla athygli. Þar sagði Annan að það hefði klárlega verið ólöglegt að fara í stríð við Írak án samþykkis Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Stríðið hafi reynst heiminum erfið lexía en vonandi hafi allir dregið þann lærdóm af að í framtíðinni færi best á því að vinna saman í gegnum Sameinuðu þjóðirnar. Þessi yfirlýsing hefur hleypt illu blóði í ráðamenn þeirra þjóða sem helst studdu stríðið. Í Bandaríkjunum er Annan jafnvel sakaður um að reyna að hafa áhrif á forsetakosningarnar með þessu tali. Og ráðamenn í Bretlandi, Japan og Ástralíu vísa ásökun Annans alfarið á bug. John Howard, forsætisráðherra Ástralíu, segir sjónarmið Annans vera ólíkt því lögfræðiáliti sem yfirvöld í Ástralíu hafi fengið og einnig, eftir því sem hann best vissi, þeim lögfræðiálitum sem ríkisstjórnir Bretlands og Bandaríkjanna fengu.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×