Erlent

Mesta mannfall á friðartímum

Laila Freivalds, utanríkisráðherra Svíþjóðar, hitti slasaða sænska konu á gangi sjúkrahúss á Phuket. Þær þekktust ekki neitt en féllust í faðma og fóru báðar að gráta. Skömmu áður hafði Freivalds setið og spjallað við föður sem hafði misst tvö börn. "Það er hræðilegt þegar maður hefur misst börnin sín," sagði hún. Dóttir mannsins hafði lifað af og sjálfur var maðurinn í hjólastól. Móðir barnanna var einnig á lífi en lá í öðrum sal. Þröng hefur verið á flugvöllum á hamfarasvæðinu og slasaðir Norðurlandabúar bíða á flugvellinum eftir flutningi heim. Lena Kullberg-Boman er alvarlega slösuð og hefur þurft að bíða klukkutímunum saman á flugvellinum á Phuket með manni sínum, Johnny, og dóttur sinni, Hönnu. Þau vita ekkert hversu lengi þau þurfa að bíða. Joel, níu ára sonar þeirra, er ennþá saknað. Tommy Jonsson og dóttir hans, Linn, höfðu ákveðið að fara um borð í flugvélina og fara heim til Svíþjóðar án þess að hin dóttirin Mio hefði fundist eða móðir þeirra. Á flugvellinum rétt áður en þau áttu að fara í loftið heyrðu þau kunnuglega kvenrödd tala um að hún væri frá Vesturlöndum. Móðirin var fundin og það urðu miklir fagnaðarfundir. Mio hefur ekki fundist og Tommy telur rétt að segja eins og er: hún sé látin. Pia Johansson, 54 ára, bjargaðist úr flóðinu á Srí Lanka. Pia hafði lent í bílslysi fyrir nokkru og gekk við hækjur. Hún bjó á svæðinu á Srí Lanka sem varð einna verst úti. Ættingjar hennar voru mjög áhyggjufullir og sumir höfðu jafnvel sætt sig við að hún væri látin. En það breyttist í einu vetfangi. Í fyrrakvöld tókst Piu að fá lánaðan farsíma og hringja til að láta vita af sér. Hún hafði verið á hótelinu þegar flóðið kom og ekkert slasast. Eftir að hafa aðstoðað við björgunarstörf var hún flutt í bænahús þar sem hún var í nokkra daga án þess að geta haft samband við umheiminn eða þar til hún fékk far til Colombo, höfuðborgar Srí Lanka. Niklas Svensson sá pabba sinn fljóta burt með flóðbylgjunum, hoppaði út í og bjargaði honum. Christer bjó ásamt konu sinni Evu og tveimur sonum, Niklas og Andreas, á jarðhæð hótels á Srí Lanka. "Íbúðin fylltist allt í einu af vatni. Ég lá og synti uppi í loftinu. Ég hélt að ég myndi ekki bjargast og var gripinn ótta." Eiginkonu hans og sonum hafði tekist að flýja upp á næstu hæð en Niklas hoppaði út í þegar þau sáu Christer skolast út. Honum tókst að draga pabba sinn á þurrt. Gert var að sárum Christers á sjúkrahúsi við lélegar aðstæður; ljóstýra undir þaki og engin deyfing. Engir veggir voru á sjúkrahúsinu og fuglarnir flugu í gegnum bygginguna. Sjötug norsk kona, Else-Karin Eidsvåg, bjargaðist á dýnu. Hún var orðin góð eftir að hafa veikst af krabbameini í vor. Hún og dóttir hennar, Cecilie Schübeler Mogstad, lágu á dýnum á ströndinni þegar flóðbylgjan kom. Þær misstu hvor af annarri en lifðu báðar af og enduðu með því að liggja aftur saman á dýnum - á ganginum á sjúkrahúsinu í nokkra daga. Mæðgurnar eru meðal 15 slasaðra Norðmanna sem komu með sjúkraflugi frá Phuket til Noregs í gær. Morten Aanstad fann 11 ára son sinn, Martin, eftir þrjá sólarhringa. Fjölskyldan bjó í fjölskylduhverfi í Blue Village í Khao Lak. Fjölskyldan tvístraðist en foreldrarnir fundu fljótlega hvor annan. Sonanna, Mariusar og Martins, var saknað en Marius fannst einum sólarhringi síðar á hersjúkrahúsi í Bangkok. Vonin lifði en tveimur sólarhringum síðar fann Morten Martin liggjandi í nafnlausri kistu á meðal hundruð annarra sem hvorki er vitað um nafn né þjóðerni á. Líkin liggja úti undir beru lofti í 30 stiga hita, undir laki eða í poka. Fáir liggja í kistu. Fimm manna fjölskylda frá Rogalandi í Noregi var í jólafríi í Taílandi þegar flóðbylgjan kom. Yngstu börnin, Sindre og Karoline, slösuðust lítið og voru flutt heim á þriðjudag. Þegar þau voru á leiðinni heim fannst eldri systir þeirra, Charlotte Bottolfsen Arntsen, á sjúkrahúsi í Bangkok og í gær kom hún heim til systkina sinna. Börnin búa hjá afa og ömmu meðan foreldra þeirra er leitað. Ekkert hefur heyrst frá þeim. Föðurbróðir systkinanna segir að enn sé von um að foreldrarnir hafi bjargast en hún sé farin að dvína. Ýmsar aðrar sögur má finna af Norðmönnunum. Þannig segir einn vefmiðillinn frá því að norsk fjölskylda búi í tjaldi í garðinum við norska sendiráðið á Srí Lanka því að öll hótel sem eftir eru séu full. Hildegunn Thiese og Øystein Aasen frá Stafangri höfðu selt allar sínar eigur til að kaupa og reka hótel á suðurströnd Srí Lanka. Þau höfðu boðið fjölskyldunni til sín um jólin. Þau höfðu verið á ströndinni fyrr um daginn og borðað morgunverð þegar flóðbylgjan kom. Hótelið er eyðilagt og reksturinn úti. Í bili að minnsta kosti. En fjölskyldan er heil á húfi. Byggt á sænskum og norskum vefmiðlum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×