Erlent

7 enn í haldi

Mannræningjar halda enn sjö gíslum í rútu í Aþenu en hafa sleppt sextán. Þeir krefjast einnar milljónar evra í lausnargjald fyrir klukkan sex í nótt og að fá að komast með flugi til Rússlands. Það var um klukkan fjögur í nótt að íslenskum tíma að tveir menn stigu upp í rútuna í úthverfi Aþenu. Stuttu seinna skutu þeir í gegnum þakið og kröfðust þess að rútan yrði stöðvuð, og drógu fyrir alla glugga. Bílstjóri rútunnar slapp út, ásamt einum farþega og miðaeftirlitsmanni. Engin hefur særst eftir því sem best er vitað. Einn af þeim sem látinn var laus segir að auk skotvopna, séu ræningjarnir með sprengjur á sér, og að þeir séu afskaplega taugaveiklaðir.  Mennirnir vilja komast til Rússlands með flugi, og segjast munu frelsa allar konur um borð ef nýr bílstjóri kemur í rútuna til að keyra hana á flugvöllinn í Aþenu. Ekki er vitað hversvegna þeir vilja komast til Rússlands. Auk þess krefjast þeir einnar milljónar evra, eða sem svarar áttatíu og fimm milljónum íslenskra króna. Fjölmennt sjúkralið er í viðbragðsstöðu á vettvangi. Talsmaður ríkisstjórnar Grikkja segir stjórnvöld harmi slegin vegna ástandsins, en allt verði gert til þess að leysa hana á farsælan hátt. Að öðru leyti sé ekki tímabært að tjá sig, þar sem ástandið sé enn viðvarandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×