Innlent

Mengun í íslenska haferninum

Mikil mengun í íslenska haferninum dregur úr frjósemi hans og stendur stofninum fyrir þrifum. Þetta sýnir ný íslensk rannsókn. Rannsóknin var unnin á vegum Háskóla Íslands og náttúrufræðistofnanna af sex íslenskum vísindamönnum. Íslenski haförnin hefur verið alfriðaður í rúm 90 ár. Þrátt fyrir það er stofninn aðeins þriðjungur þess sem hann var á 19.öld og er það aðallega vegna ofsóknar manna. Stofninn er nú að ná sér á strik, en afar hægt. Kristinn H. Skarphéðinsson fuglafræðingur segir mikla mengun í íslenska haferninum draga úr frjósemi hans og stendur það stofninum fyrir þrifum. Þetta kom vísindamönnum mjög á óvart.  Þetta er ein ástæða þess að íslenski stofninn vex mun hægar en aðrir evrópskir arnarstofnar. Kristinn segir mengunina berast með ýmsum hætti. Það efni sem hafi einna mest áhrif sé DDT . Það hefur ekki verið notað hér á landi í um 30 ár en er svo þrávirkt að það er enn í lífkeðjunni. Þó að DDT hafi ekki verið notað lengi í okkar heimshluta er það enn notað í þróunarlöndum. Þaðan berst það með loft- og hafstraumum í fæðukeðjuna hér við land.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×