Skoðun

Skóladagvist í Öskjuhlíðarskóla

Skóli fyrir alla - Gerður Aagot Árnadóttir Skólasetning verður í grunnskólum Reykjavíkur eftir nokkra daga. Fyrir flestar fjölskyldur er það tilhlökkunarefni. Þær tilfinningar sem foreldrar nemenda í 5.-10.bekk Öskjuhlíðarskóla finna til eru blendnar. Þeir gleðjast með börnum sínum við skólabyrjun en á sama tíma kvíða þeir vetrinum. Ástæðan er sú að fræðsluráð Reykjavíkur virðist hafa ákveðið að starfrækja ekki skóladagvist fyrir þennan hóp nemenda en slík þjónusta hefur verið til staðar frá árinu 1993. Þessi ákvörðun fræðsluráðs Reykjavíkur felur í sér algera stefnubreytingu í þjónustu Reykjavíkurborgar við þennan hóp nemenda. Nemendur Öskjuhlíðarskóla eru þroskaheft börn. Mörg þeirra eru með flókna fötlun og atferlistruflanir. Þau búa flest við verulega félagslega einangrun og eiga mörg hver einu vini sína í skólanum. Skóladagvistin er þeim því mjög mikilvæg og þau njóta samvistanna hvert með öðru. Skóladagvist var sett á laggirnar til að tryggja foreldrum (ekki síst mæðrum) 6-9 ára barna í Reykjavík jafnrétti á vinnumarkaði. Foreldrum er þannig tryggð gæsla barna sinna sem ekki eru fær um að vera ein heima. Nemendur í 5.-10. bekk Öskjuhlíðarskóla eru ekki færir um að vera einir heima. Sömu rök gilda því fyrir því að tryggja þessum foreldrum jafnrétti á vinnumarkaði á við foreldra barna í 1.-4. bekk. Haustið 2003 var skóladagvist ekki starfrækt á haustönn fyrir nemendur 7.-10. bekkjar Öskjuhlíðarskóla vegna manneklu. Það ástand hafði í för með sér mjög alvarlegar afleiðingar fyrir fjölskyldur nemenda. Foreldrar urðu fyrir vinnutapi sem hafði veruleg áhrif á fjárhagsafkomu fjölskyldnanna. Dæmi eru um að einstæðu foreldri með einhverft barn hafi verið sagt upp störfum vegna fjarveru frá vinnu sem skortur á skóladagvist hafði í för með sér. Ástandið hafði einnig veruleg áhrif á líðan barnanna, sem upplifðu enn meiri félagslega einangrun en fyrir var. Mörg þeirra þoldu illa það óöryggi sem fylgdi skorti á skóladagvist. Afleiðingar þessa voru hegðunarerfiðleikar og geðræn einkenni sem m.a. þurfti að meðhöndla með lyfjameðferð sem annars hefði verið óþörf. Þær afleiðingar sem skortur á skóladagvist hafði á líf umræddra fjölskyldna haustið 2003 eru ráðamönnum Reykjavíkurborgar og félagsmálaráðuneytis fullkunnar og hefðu átt að verða hvati til að tryggja að slíkt ástand skapaðist aldrei aftur. En raunin er ekki sú. Reykjavíkurborg hefur nú valið að leggja þessa þjónustu niður. Það er leikur í því stríði sem Reykjavíkurborg og félagsmálaráðuneytið hafa valið sér að há nú á haustdögum. Engin lausn virðist í sjónmáli í því stríði og þeir sem munu þjást eru fötluð börn og fjölskyldur þeirra. Slík átök eru hvorki Reykjavíkurborg né félagsmálaráðuneytinu til sóma og í litlu samræmi við þá félagshyggju sem báðir aðilar vilja kenna sig við. Báðir aðilar hljóta að þurfa að íhuga hvort tilgangurinn helgi í raun meðalið. Fjölskyldur fatlaðra barna búa við nægt álag fyrir þó stjórnvöld skapi þeim ekki enn frekari erfiðleika og vanlíðan vegna pólitískra deilna. Foreldra- og styrktarfélag Öskjuhlíðarskóla skorar á Reykjavíkurborg að tryggja nú þegar starfrækslu skóladagvistar fyrir nemendur 5.-10. bekkjar Öskjuhlíðarskóla með því að fela ÍTR það verkefni og afstýra þannig þeim alvarlegu og óþörfu afleiðingum sem annars blasa við nemendum og fjölskyldum þeirra. Foreldra- og styrktarfélag Öskjuhlíðarskóla skorar á félagsmálaráðherra að beita sér af alvöru í þessu máli í samræmi við tilmæli Umboðsmanns barna og tryggja starfrækslu skóladagvistar í Öskjuhlíðarskóla.



Skoðun

Sjá meira


×