Erlent

Sprengja á markaði

Að minnsta kost 15 létust og 58 slösuðust þegar sprengja sprakk á fjölmennum markaði í suðurhluta Filippseyja í gær. Heimagerð sprengja, eða handsprengja, falin í kassa sprakk á markaðnum í General Santosborg. Öryggisgæslan var þegar hert, því óttast var að árásirnar yrðu fleiri. Richard Gordon, yfirmaður Rauða krossins á Filippseyjum, sagði ABS-CBM sjónvarpsstöðinni að þetta væri klárlega hryðjuverkaárás. Hann gagnrýndi herinn og lögregluna fyrir að hafa ekki komið í veg fyrir árásina, þrátt fyrir að til væru njósnaskýrslur sem bentu til þess að verið væri að skipuleggja árás í borginni. Í gærkvöld hafði enginn lýst ábyrgð á sprengingunni og ekki var enn ljóst hvort tengsl væru við hryðjuverkahópa. Á undanförnum árum hefur verið nokkuð um árásir og mannrán í borginni. Herskáum múslimum hefur verið kennt um flest ódæðin. Einnig hafa kommúnistar ráðist á öryggissveitir og embættismenn á undanförnum árum. Einnig hafa þeir skemmt síma og rafmagnsstaura.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×