Erlent

Hillir undir samstarf

Forsætisráðherra Ísrael, Ariel Sharon, hóf í gær viðræður við stjórnmálaflokka strangtrúaðra gyðinga um myndun nýrrar stjórnar. Þær viðræður munu fara fram á sama tíma og Sharon ræðir við Verkamannaflokkinn, sem er helsti stjórnarandstöðuflokkurinn í Ísrael. Sharon hefur leitt ríkisstjórn Ísraels, fyrir hönd Likud-bandalagsins, sem minnihlutastjórn í rúmt hálft ár. Á fimmtudag fékk hann samþykki bandalagsins til að mynda nýja samsteypustjórn með Verkamannaflokknum, sem myndi tryggja umdeilda áætlun hans um að draga hermenn og landtökumenn frá Gaza-svæðinu á næsta ári. Á laugardagskvöld samþykkti Verkamannaflokkurinn að leyfa viðræður við Sharon. Fyrsti fundurinn var haldinn skömmu síðar í Tel Aviv. Einn helsti þingmaður Verkamannaflokksins, Benjamin Ben-Eliezer, spáði því að samkomulag næðist á næstu dögum, og ný stjórn yrði mynduð fyrir helgi. Þrátt fyrir að slík stjórn fengi stuðning meirihluta þingsins er talið líklegt að Sharon vilji trúarflokk í stjórnina til að verjast gagnrýni þegar um átta þúsund landnemar verða fluttir frá Gaza á næsta ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×