Erlent

Olíuauðlindir landsins þjóðnýttar

Pútín Rússlandsforseti telur sanngjarnt að þjóðnýta olíuauðlindir landsins. Þannig megi verja hagsmuni ríkisins gegn áhrifum ósanngjarnrar og ólöglegrar einkavæðingar undanfarinn áratug. Þetta sagði hann nú þegar ríkið hefur náð tökum á helstu eignum olíufyrirtækisins Yukos. Á sunnudaginn var keypti áður óþekkt fyrirtæki, Baikal Finance Group, meirihluta eigna Yukos á uppboði. Sérfræðingar töldu þegar í stað að stjórnvöld í Kreml ættu hlut að máli og ættu eftir að láta til sín taka. Fréttamenn þýska fréttatímaritsins Spiegel komust einnig fljótlega að því að Baikal, sem skráð er í farsímaverslun úti í sveit, var hvorki með skrifstofu, vefsíðu né símanúmar - aðeins þáttur í dularfullum feluleik. Atburðir næturinnar eru ekki síður dularfullir en þó ekki óviðbúnir. Rússneska ríkisolíufyrirtækið Rosneft hefur keypt Baikal Finance Group fyrir ótilgreinda upphæð. Rosneft, og þar með ríkið, ræður þannig yfir því sem áður voru eigur Yukos. Það sýnir hversu bein aðkoma hæstráðenda í Kreml er að stjórnarformaður Rosneft er aðstoðarstarfsmannastjóri í Kreml, Igor Setschin. Skammt er síðan Vladímír Pútín, forseti Rússlands, ákvað að annað fyrirtæki í ríkiseigu, Gazprom, stærsta náttúrugasfyrirtæki Rússlands, myndi kaupa Rosneft og sameina fyrirtækin. Þar með ætti rússneska ríkið stærsta orkuframleiðanda Rússlands sem gæti látið til sín taka á alþjóðavettvangi. Stjórnmálaskýrendur segja þetta eitt útspil Pútíns, ætlað til þess að auka vigt Rússlands á alþjóðavettvangi. Það er ekkert leyndarmál að Pútín gremst að Rússland skuli vera eins og skugginn af Sovétríkjunum, ríki sem er áhrifalítið bæði efnahagslega, hernaðarlega og pólitískt séð. Talið er að hann sjái sér leik á borði þegar olía og gas eru annars vegar og telji sig með þessu móti getað látið frekar til sín taka á alþjóðavettvangi. Sjálfur sagði hann í morgun að kaupin væru eðlileg og samkvæmt markaðslögmálum. Þjóðnýting olíuauðlinda Rússlands væri nauðsynleg til að vega á móti neikvæðum áhrifum ólöglegrar og ósanngjarnrar einkavæðingar undanfarinn áratug. Olíusérfræðingar hafa áhyggjur af þessari þróun á öðrum forsendum: starfsemi Yukos og vinnsluaðferðir þóttu til fyrirmyndar og sambærilegar því sem þekktist á Vesturlöndum en starfsaðferðir Rosneft eru heldur óskilvirkar og úreltar. Sérfræðingarnir óttast að þetta leiði til þess að olíuiðnaðurinn í Rússlandi verði jafn afkastalítill og óskilvirkur og forðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×