Skoðun

Vandamálasmiðir við stjórnvölinn

Heilbrigðismál - Albert Jensen Vandamálasmiðirnir sem enn stjórna heimahjúkrun, upplýstu þjóðina um nýja og alveg sérlega áhrifaríka stjórnvisku. Úr tilkynningu sem framkvæmdastjóri heimahjúkrunar sendi frá sér, mátti lesa að besta aðferðin við að slökkva eld væri að hella olíu á hann. Tildrög skrifa minna, eru fádæma heimskuleg vinnubrögð stjórnar heimahjúkrunar. Það er eins og framkvæmda- og hjúkrunarforstjóri þessarar mikilvægu starfssemi, skilji ekki mun á réttu og röngu. Þau tvö komu með úlfúð og illindi inn í samskiptin við starfskonur stofnunarinnar og ætla greinilega að halda þeim áfram. Fyrst þau komust upp með að vera með hótanir og ósannaðar aðdróttanir um vinnusvik starfskvenna sinna, finnst þeim öllu óhætt. Þau hafa frá komu sinni í stjórnina, haft allt á hornum sér gagnvart starfsliðinu. Án nokkurs samráðs eða samvinnu við starfslið eða stéttarfélög þeirra og allra síst skjólstæðingana og aðstandendur þeirra, breyta þau sitt og hvað að eigin geðþótta. Í vinnudeilu tókst þeim að reka fleyg í milli starfskvennanna og rýra árangur erfiðrar baráttu. Þeim tókst að kúga nokkrar konur sem ekki máttu við að missa vinnuna, til að láta að vilja sínum. Það gerðu þau með hótunum um minni vinnu, verri laun og uppsagnir. Þjóðin sá þau og heyrði í sjónvarpi bera lygi og vinnusvik á starfskonur sínar. Allt varð kyrrt og hljótt um aðför hrokafullrar stjórnar heimahjúkrunar að varnarlausum starfskonunum, en það gæti tengst því að heilbrigðisráðherra Framsóknarflokksins og yfirtryggingalæknir eru verndarar hennar. Eftir samtöl við ráðherrann og forstjóra tryggingastofnunar ríkisins, veit ég þetta. Ráðherrann virðist annar í orði en á borði og því sumt líkt með honum og stjórn heimahjúkrunar. Það hefði verið gott fyrir starfslið og skjólstæðinga að hafa hann í það minnsta ekki á móti sér. Stjórn heimahjúkrunar hefur sannað að hún hefur engan skilning á einu eða neinu sem varðar starfslið og skjólstæðinga þeirra. Í hennar augum eru tölur ofar öllu, en tillits- og hugulsemi kostnaðarsamur óþarfi. Það stýrir ekki góðri lukku fyrir hjálparvana fólk í heimahúsum að eiga velferð sína undir svo heimskri og kaldranalegri stjórn. Stjórn heimahjúkrunar tekur undir orð mín þegar hún verðlaunar þær konur sérstaklega sem af ýmsum ástæðum treystu sér ekki til að standa á sínu. Hinar eiga nú undir högg að sækja, því stjórnin ætlar að sína hver ræður og að það borgar sig ekki að mótmæla. Það er heilbrigðisráðherra til skammar að svo veruleikafirrt stjórn skuli gína yfir hjálparvana fólki og starfsliði þess.



Skoðun

Sjá meira


×