Erlent

Þjálfun vegna leikanna skilar sér

Átján klukkustunda umsátri um mannræningja sem héldu sex manns í gíslingu í rútu í Aþenu lauk í nótt, þegar ræningarnir gáfust upp. Mennirnir, sem eru Albanar, hótuðu að sprengja upp rútuna fengju þeir ekki sem svarar 85 milljónum íslenskra króna, og kæmust með flugi til Rússlands. Þegar þeir höfðu sleppt meirihluta gíslanna og í ljós kom að þeir höfðu ekkert sprengiefni heldur aðeins tvær haglabyssur, gáfust þeir upp, fleygðu byssunum út og komu svo sjálfir með hendur á höfði. Fagnaðarfundir urðu hjá þeim sex gíslum sem eftir voru og ættingjun þeirra. Mennirnir voru leiddir fyrir saksóknara í dag. Grísk yfirvöld eru ánægð með frammistöðu sinna manna. Þau segja þarna þjálfun vegna Ólympíuleikanna í sumar hafa komið að góðum notum. Fyrir fimm árum síðan var tveimur rútum rænt á Grikklandi á tveggja mánaða tímabili. Í báðum tilfellum var um Albana að ræða sem kröfðust þess að komast til Albaníu, og í báðum tilfellum var ræninginn skotinn til bana af lögreglu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×