Körfubolti

Má ekki dæma hjá ÍR vegna Instagram-færslu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Davíð Tómas að störfum.
Davíð Tómas að störfum. vísir/vilhelm
Davíð Tómas Tómasson, einn fremsti körfuboltadómari landsins, hefur ekkert dæmt í úrslitakeppni Domino's deildar karla síðan hann dæmdi oddaleik Tindastóls og Þór Þ. í 8-liða úrslitum 1. apríl síðastliðinn.

Davíð Tómas dæmir fyrir KR og getur því eðli málsins samkvæmt ekki dæmt leiki í einvígi KR og Þórs Þ. Hann hefur ekki heldur dæmt leik í einvígi Stjörnunnar og ÍR. Raunar hefur Davíð Tómas ekki dæmt leik hjá ÍR á þessu ári.

Í samtali við Vísi staðfesti Jón Bender, formaður dómaranefndar KKÍ, að Davíð Tómas dæmdi ekki leiki hjá ÍR eins og staðan væri núna.

Samkvæmt heimildum íþróttadeildar Sýnar er ástæða þess færsla sem Davíð Tómas setti inn á Instagram 22. janúar síðastliðinn. Þar sést hann við hlið Matthíasar Orra Sigurðssonar, leikstjórnanda ÍR.

Við myndina stendur „@ the office“. Það ku þó ekki vera upprunalegi textinn en þar vísaði hann í tengsl sín og Matthíasar Orra við Vesturbæ Reykjavíkur. Textinn þótti þess eðlis að ekki væri hægt að láta Davíð Tómas dæma fleiri leiki hjá ÍR.

Færsla Davíð Tómasar á Instagram.skjáskot/instagram
Þrátt fyrir að hafa ekki dæmt neitt í undanúrslitunum í úrslitakeppni Domino's deildar karla hefur Davíð Tómas ekki setið auðum höndum að undanförnu.

Hann hefur dæmt tvo af fjórum leikjum í einvígi Keflavíkur og Stjörnunnar í undanúrslitum Domino's deildar kvenna, auk þess sem hann hefur dæmt í úrslitakeppni 1. deildar karla.

ÍR getur tryggt sér sæti í úrslitum um Íslandsmeistaratitil karla með sigri á Stjörnunni í Seljaskóla í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 20:15 og verður í beinni textalýsingu á Vísi og sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×