Tiger Woods lék fyrsta hringinn á Hero World Challenge mótinu á 73 höggum, eða einu höggi yfir pari. Mótið fer fram á Albany-vellinum á Bahamaeyjum.
Þetta er fyrsta mót Woods í næstum 16 mánuði en hann hefur verið frá keppni vegna erfiðra bakmeiðsla.
Woods fór virkilega vel af stað og var með fjóra fugla á fyrstu átta holunum. En svo fór að halla undan fæti og Woods lék fyrsta hringinn á alls 73 höggum. Hann er níu höggum á eftir forystusauðnum JB Holmes frá Bandaríkjunum.
„Ég byrjaði vel en gerði svo nokkur mistök. Það voru nokkur slæm högg,“ sagði hinn fertugi Woods sem kvaðst hlakka til næstu daga.
Holmes er efstur á mótinu á átta höggum undir pari en Japaninn Hideki Matsuyama kemur næstur á sjö höggum undir pari.

