Innlent

Kvíga í heitum potti á Flúðum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Kvígan að koma upp úr heita pottinum, sem var vel volgur, henni gekk brösuglega að komast upp úr honum en það gekk þó allt að lokum.
Kvígan að koma upp úr heita pottinum, sem var vel volgur, henni gekk brösuglega að komast upp úr honum en það gekk þó allt að lokum. Mynd/Guðjón Birgisson
„Þetta var stórkostlegt, ég hef aldrei séð annað eins, það var mikill buslugangur í pottinum, ekki síst þegar hún fór upp úr honum“, segir Guðjón Birgisson, garðyrkjubóndi á Melum á Flúðum sem fékk tvær kvígur í heimsókn til sín í morgun. Önnur skellti sér í heita pottinn á veröndinni.

„Við vorum í morgunkaffinu þegar við sáum tvær kvígur koma upp á pall og líta inn um eldhúsgluggann, við héldum að við hefðum séð ofsjónir en þegar betur var að gáð sáum við að þetta voru í alvöru kvígur. Þær spókuðu sig um smástund á pallinum, áður en önnur þeirra skellti sér í pottinn og hin skoðaði sig um í garðinum, þetta var ferlega fyndið og skondin uppákoma“, bætir Guðjón við.

Eftir ævintýri morgunsins náði hann með aðstoð heimilisfólksins að reka kvígurnar heim en þær eru frá bænum Hrafnkelsstöðum rétt við Mela.

„Þetta fór allt vel og var mjög skemmtilegt, það urðu engar skemmdir hjá okkur og kvígunum varð ekki meint af, mér sýndist þær skemmta sér eins vel og við“, segir Guðjón hlæjandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×