Frá­bær sigur Börsunga í París

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kylian Mbappé komst hvorki lönd né strönd í kvöld þegar Börsungar unnu frábæran sigur i París.
Kylian Mbappé komst hvorki lönd né strönd í kvöld þegar Börsungar unnu frábæran sigur i París. Alex Pantling/Getty Images

Barcelona vann frábæran 3-2 útisigur á París Saint-Germain í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Leikurinn var sveiflukenndur en bæði lið voru með forystuna á einhverjum tímapunkti.

Viðureign París Saint-Germain og Barcelona vorið 2017 lifir í manna minnum sem ein ótrúlegasta endurkoma í sögu Meistaradeild Evrópu. Parísarliðið vann 4-0 heimasigur en Börsungar unnu 6-1 sigur á Nývangi þar sem þrjú markanna komu í blálokin.

Barcelona þarf ekki á slíkri endurkomu að halda eftir frábæran sigur í París. Eftir frekar jafnan fyrri hálfleik kom Raphinha gestunum yfir á 37. mínútu þegar boltinn féll fyrir hann í teignum eftir að Gianluigi Donnarumma óð út úr marki sínu til að stöðva fyrirgjöf meðfram grasinu.

Það tókst ekki og Raphinha nýtti sér mistök ítalska markvarðarins. Reyndist það  eina mark fyrri hálfleiks og gestirnir leiddu með einu marki þegar gengið var til búningsherbergja.

Eitthvað hefur Luis Enrique, þjálfari PSG og fyrrverandi þjálfari Barcelona, sagt í hálfleik því það var allt annað að sjá heimamenn í upphafi síðari hálfleiks.

Ousmane Dembélé jafnaði metin strax á 48. mínútu með frábæru skoti úr þröngu færi. Aðeins þremur mínútum síðar var staðan orðin 2-1. Vitinha með hnitmiðað skot úr þröngu færi eftir sendingu Fabián Ruiz.

Staðan var svo næstum orðin 3-1 skömmu síðar en Marc-André ter Stegen bjargaði meistaralega í marki gestanna. Segja má að sú markvarsla hafi verið vendipunkturinn í leiknum.

Börsungar fengu trúnna á nýjan leik og Raphinha jafnaði metin eftir rúma klukkustund með skoti í fyrsta eftir magnaða sendingu Pedri inn fyrir vörn PSG.

Á 77. mínútu tók Ilkay Gundogan hornspyrnu sem rataði beint á kollinn á varamanninum Andreas Christensen sem skoraði með föstum skalla af stuttu færi. 

Staðan orðin 2-3 og reyndust það lokatölur leiksins. Börsungar leiða því fyrir síðari leik liðanna sem fram fer á Nývangi í Katalóníu þann 16. apríl næstkomandi.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira