
Innlent

Moody's lækkar lánshæfiseinkunn íslensku bankanna
Lánshæfiseinkunn allra íslensku viðskiptabankana hefur verið lækkuð hjá alþjóðlega matsfyrirtækinu Moody's. Þetta var tilkynnt í gærkvöldi. Einkunnin er lækkuð um þrjá flokka. Þetta er gert í kjölfar þess að Moody's breytti nýverið aðferðafræði sinni við einkunnagjöf og metur aðrar forsendur en áður.

Innan við eitt prósent unglinga sér fyrir sér starf í álveri
Innan við eitt prósent unglinga í tíunda bekk sjá fyrir sér störf í álverum eða í annars konar ósérhæfðum frumvinnslustörfum. Þetta kemur fram í könnun sem Námsmatsstofnun gerði fyrir Samtök atvinnulífsins og var kynnt í gær. Langflestir, eða um 58 prósent segjast stefna á að starfa sem sérfræðingar en um 14 prósent Íslendinga starfa við það í dag.

Framsókn nær ekki inn manni í Reykjavík-suður
Framsóknarflokkurinn nær ekki inn kjördæmakjörnum þingmanni í Reykjavík-suður samkvæmt nýrri könnun sem Gallup gerði á fylgi flokkana fyrir RÚV og Morgunblaðið. Þá ná hvorki Frjálslyndir né Íslandshreyfingin inn manni. Allir þessir þrír flokkar mælast í um fjórum prósentum sem er fjarri því að duga fyrir kjördæmakjörnum manni.

Einar slapp ómeiddur
Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra slapp ómeiddur er hann velti bíl sínum í Öxnadal skömmu eftir hádegi í gær. Einar var að keyra frá Akureyri til Sauðárkróks á fund um þjóðlendumál. Hann fékk lögregluna á Akureyri til þess að keyra sig beint á fundinn en fór svo á heilsugæslu til aðhlynningar að honum loknum. Hann var einn í bílnum þegar óhappið átti sér stað. Bíll Einars er talinn gjörónýtur.

Tekinn á 116 kílómetra hraða
Lögreglan á Akureyri stöðvaði í nótt ökumann sem mældist á 116 kílómetra hraða innanbæjar, þar sem hámarkshraði er 50 kílómetrar. Maðurinn má eiga von á því að verða sviptur ökuréttindum og þarf að greiða tugi þúsunda í sekt fyrir athæfið.

Hjólhýsin tókust á loft
Tvö hjólhýsi tókust á loft í miklu hvassviðri sem gekk yfir Seyðisfjörð í morgun. Hjólhýsin voru í geymslu innan tollgirðingarinnar við Strandabakka þegar sterk vindhviða varð til þess að þau fuku á aðra hliðina. Hjólhýsin voru mannlaus og því sakaði engan við óhappið. Þá hefur ferjan Norræna ekki geta lagt að bryggju vegna veðurofsans.

Gripin með kíló af kókaíni
Hollenskt par var gripið glóðvolgt með rúmlega kíló af meintu kókaíni á Keflavíkurflugvelli á föstudaginn var. Fólkið var að koma með flugi frá Amsterdam. Efnin földu þau bæði innan klæða og innvortis. Talið er að götuvirði efnisins myndi vera á bilinu 10 til 15 milljónir króna.

Olíufélagið leggur vörumerkinu Esso
Olíufélagið er að hætta notkun vörumerkisins Esso eftir 60 ára notkun. Þetta er gert í kjölfar sameiningar á rekstri Olíufélagsins, Bílanausts og fleiri fyrirtækja í eigu eignarhaldsfélagsins BNT. Ekki er gefið upp í fréttatilkynningu hvert nýtt vörumerki verður en á næstu dögum verður unnið við að fjarlægja merkingar af þjónustustöðvum og verslunum um allt land.
Konurnar fundnar
Konurnar sem lögreglan í Reykjavík lýsti eftir í gær eru báðar komnar í leitirnar. Þeirra hafði verið saknað síðan á miðvikudag en fyrst var lýst eftir þeim í gær.

Á sjötta þúsund á Björk og Hot Chip
Húsfyllir varð í Laugardalshöll í gærkvöldi þegar Björk hélt tónleika þar. Miðar á tónleikanna seldust upp við innganginn eftir að þeir voru hafnir og því hafa verið á sjötta þúsund í Höllinni þegar mest lét.
Lögreglan kallar 50 bíla í skoðun
Lögregla í Reykjavík límdi svokallaða boðunarmiða á númeraplötur um 50 bifreiða í gærkvöldi og í nótt. Þeir sem fá slíkan miða á bílinn hjá sér þurfa þar með að fara tafarlaust með bíl sinn í skoðun og hafa til þess viku frest. Ef boðun lögreglu er ekki sinnt eiga bíleigendur á hættu að númerin verði klippt af bílum þeirra.
Mikil mildi að ekki fór illa
Mildi þótti að ekki fór illa þegar dragnótabáturinn Hafborg varð vélarvana utan við innsiglinguna að Sandgerðishöfn í gær. Báturinn var nær rekinn upp í grjótið í innsiglingunni. Báturinn varð vélarvana um hálfa mílu frá höfn og fyrsta skip á vettvang, Maggi Jóns frá Sandgerði náði að koma spotta í Hafborgina og halda henni þar til björgunarskip kom á vettvang og dróg Hafborgina til hafnar.

Jarðskjálftahrina nærri Eldey
Vel á annað hundrað nokkuð snarpra jarðskjálfta mældust nærri Eldey á Reykjaneshrygg í nótt og í morgun. Skjálftahrinunni er lokið en hún stóð óvenju lengi.
Flughált í morgunsárið
Það er flughált á götum Reykjavíkur nú í morgunsárið og ástæða til að brýna fyrir ökumönnum að fara varlega af þeim sökum. Eins er mjög hált víðast hvar á norður- og vesturlandi þar sem var frost í nótt. Það er helst á sunnanverðu landinu sem hiti hefur haldist yfir frostmarki.

Sprenging í notkun á skíðahjálmum
Framkvæmdastjóri Skíðasambandsins segir sprenginu hafa orðið í notkun á skíðahjálmum. En betur má ef duga skal. Börn eiga lögum samkvæmt að nota hjálma á reiðhjóli en hvergi er kveðið á um að þau noti hjálm á skíðum.

Mega svipta prest kjól og kalli
Stjórn Prestafélags Íslands er heimilt að svipta prest kjól og kalli brjóti hann alvarlega gegn siðareglum félagsins. Mánuðir munu líða áður en siðnefnd félagsins kveður upp úrskurð í kærumáli átta presta Þjóðkirkjunnar á hendur Hirti Magna Jóhannssyni fríkirkjupresti.

Útilokar ekki samstarf með Sjálfstæðisflokki
Ómar Ragnarsson formaður Íslandshreyfingarinnar útilokar ekki að Íslandshreyfingin starfi með Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki eða Frjálslyndum í ríkisstjórn. Hann segir að fyrsti kosturinn sé þó að sjálfsögðu þeir flokkar sem vilji skrúfa fyrir stóriðjuvæðinguna en ýmislegt væri unnið með því að koma í veg fyrir hreina stóriðjustjórn. Þetta kemur fram í þætti fréttastofunnar, Nærmynd af formanni sem er á dagskrá strax að loknum fréttum í kvöld.

Heimilin fjármagna 20% fræðslumála
Um tuttugu prósent útjalda til fræðslumála eru fjármögnuð af heimilunum og hefur sá hlutur farið vaxandi síðustu ár. Þá eru um sautján prósent heilbrigðisútgjalda fjármögnuð beint af heimilum landsins. Þrátt fyrir að þetta sé svipuð útgjaldaskipting á milli hins opinbera og heimilanna og gerist í nágrannaríkjunum, er þetta breyting á því fyrirkomulagi sem verið hefur í íslensku samfélagi í heilbrigðis- og menntamálum.

Á leið í land
Báturinn sem rak stjórnlaust fyrir utan Sandgerði heitir Háborg og er nú á leið í land. Björgunarbáturinn Vörður er nú með hana í togi. Tveir menn voru um borð og eru þeir báðir heilir á húfi. Mikill viðbúnaður var vegna atviksins en báturinn stefndi upp í fjöru.

Vilja lækka skatta, hægja á virkjunarmálum og stórauka vegaframkvæmdir
Samkvæmt drögum að ályktunum á landsfundi Sjálfstæðisflokksins vill flokkurinn lækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki, athuga með lækkun áfengisgjalds, leggja áherslu á að auka tekjur af ferðaþjónustu, gera stórátak í að jafna launamun kynjanna og hægja á ferðinni í virkjunarmálum. Á sama tíma vill flokkurinn stórauka vegaframkvæmdir og koma þjóðvegakerfi landsins í sómasamlegt horf.

Lögregla lýsir eftir ungri konu
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsir eftir 21 árs gamalli konu, Rakel Ómarsdóttur. Rakel sást síðast laust eftir hádegi 06. apríl sl. við Freyjugötu í Reykjavík. Rakel er grannvaxin, um 1.70 sm. á hæð, með sítt dökkthár sem er tekið í tagl og stór brún augu. Hún er íklædd brúnleitum jakka með loðkraga, stuttar ljósbláar gallabuxur og hvíta strigaskó með röndum á.

Náði öðrum áfanga að alþjóðlegum meistaratitli
Ingvar Þór Jóhannesson náði öðrum áfanga sínum að alþjóðlegum meistaratitli eftir stutt jafntefli við Hjörvar Stein Grétarsson í níundu og síðustu umferð Kaupþingsmóts Hellis og TR, sem nú er í gangi. Fyrri áfanganum náði Ingvar Þór á Ístaksmóti Hróksins sem fram fór árið 2004.
Skortur á hjúkrunarfræðingum alvarlegt vandamál
Skortur á hjúkrunarfræðingum er mjög alvarlegt vandamál hér á landi og fer versnandi samkvæmt nýútkominni skýrslu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um manneklu í hjúkrun. Þetta kemur fram á vef Landlæknisembættisins en þar segir að í skýrslunni komi fram að alls vanti nú 582 hjúkrunarfræðinga til að leysa úr skorti á hjúkrunarfræðingum.

Ráðist á Ísland, ekki Íran
Bandarískur háskólaprófessor birti í dag grein á vefsíðu Princeton háskóla. Í henni leggur hann til að ráðist verði á Ísland í stað Íran og að slík árás geti hagnast öllum, jafnvel Íslendingum.

Líðan mæðginanna eftir atvikum
Líðan mæðginanna sem lentu í vélsleðaslysinu í Grenjaárdal ofan Grenivíkur í gær er eftir atvikum. Bæði beinbrotnuðu en meiðsl þeirra eru þó ekki alvarleg. Mæðginin misstu stjórn á sleðanum sem valt yfir þau.

Allt að verða klárt fyrir kvöldið
Það styttist í lævi blandið loftið í Laugardalshöllinni en þar er allt að verða klárt fyrir tónleika stórsöngkonunnar Bjarkar í kvöld. Þetta verða fyrstu tónleikar listakonunnar á Íslandi í sex ár en þeir marka upphaf tónleikaraðar hennar um heiminn vegna útkomu nýrrar breiðskífu, Volta.

Búast við mikilli umferð úr bænum
Lögreglan á Akureyri býst við mikilli umferð í kringum bæinn í dag enda lagði mikill fjöldi fólks leið sína á Akureyri um páskana. Margir komu til að skella sér á skíði en fjölmennt hefur verið í Hlíðarfjalli síðustu daga.

Reyndist ekki alvarlega slasaður
Ökumaður fjórhjóls, sem fluttur var með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann í Fossvogi í gær, reyndist ekki eins alvarlega slasaður og talið var í fyrstu. Hann var undir eftirliti lækna í nótt en verður útskrifaður af spítalanum í dag.
Stúlkan fundin
Sextán ára stúlka sem lögreglan á höfuðborgarssvæðinu hóf leit að í gær, er komin í leitirnar. Ekkert hafði spurst til stúlkunnar frá því á föstudaginn langa.
Hálka sunnanlands
Hálkublettir eru á Hellisheiði, Þrengslum og uppsveitum Árnessýslu og sömuleiðis er rétt að hafa gát á vegunum á norðanverðu Snæfellsnesi, svo sem á Vatnaleið og á Fróðárheiði. Þá er hálka á Holtavörðuheiði. Á Vestfjörðum gætir hálku á hálsum og heiðum og sömu sögu er að segja af Langadal og Öxnadalsheiði á Norðurlandi.