Innlent

Ögmundur: Lausnarorðið er kjarajöfnun

„Ég hef hinsvegar sagt að mér finnist almenn frysting launa ekki koma til greina," segir Ögmundur.
„Ég hef hinsvegar sagt að mér finnist almenn frysting launa ekki koma til greina," segir Ögmundur. Mynd/Arnþór

Ögmundur Jónasson þingmaður VG segir almennar launafrystingar ekki koma til greina. Lausnarorðið að hans mati er kjarajöfnun. Fréttablaðið segir frá því í dag að á meðal tillagna ráðuneytanna að fjárlögum næsta árs sé að frysta laun opinberra starfsmanna í eitt ár. Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, hafði áður viðrað þá hugmynd að frysta laun þessara starfsmanna fram til árisins 2013.

„Það verður að skoða þetta í því samhengi að það er gríðarlegur niðurskurður hjá hinu opinbera og félagsmálaráðherra er ábyrgur fyrir þeim málaflokkum sem að mörgu leiti eru viðkvæmastir," segir Ögmundur. „Tekjur þeirra sem þurfa að reiða sig á almannatryggingar ráðast af ákvörðunum fjárveitingavaldsins. Síðan er verið að horfa til þess að ef ráðist verður í mikinn niðurskurð þá missir fjöldi fólks vinnuna innan velferðarþjónustunnar. Það er í þessu samhengi sem verið er að tala um hve mikla fjármuni eigi að láta renna í launakostnað."

„Ég hef hinsvegar sagt að mér finnist almenn frysting launa ekki koma til greina," segir Ögmundur. „Sumir, þeir sem hafa mikið handa á milli kunna að þola frostið en aðra þarf að afþíða."

Lausnarorðið er að dómi Ögmunds kjarajöfnun. „Ég er einfaldlega að vekja athygli á því að við erum í umræðu sem er í samhengi niðurskurðar og hið pólitíska verkefni er að standa rétt að forgangsröðun og verja velferðarkerfið. Um það snýst þessi umræða og það þarf að skoða hana í því ljósi."










Tengdar fréttir

Stéttarfélög leggjast gegn launafrystingu

Forsvarsmenn Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna og BSRB leggjast allir gegn hugmyndum Árna Páls Árnasonar félagsmálaráðherra um að frysta laun opinberra starfsmanna næstu þrjú ár. Í grein í Fréttablaðinu í gær reifaði Árni Páll þá hugmynd að gerð yrði þjóðarsátt um að frysta laun og lífeyrisgreiðslur hins opinbera, þangað til fjárlagagatinu hefði verið lokað.

Ríkið frysti öll laun til 2013

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, segir enga innistæðu vera fyrir kauphækkunum hjá hinu opinbera til ársloka 2013. Hann telur nauðsynlegt að gerð verði þjóðarsátt um að frysta laun. Það sama á við um verðbætur á lífeyrisgreiðslur til lífeyrisþega og aðrar afkomutengdar greiðslur sem ríkið greiðir, svo sem innan búvörusamninga.

Frysting launa atlaga að háskólamenntuðu starfsfólki

Formaður Bandalags háskólamanna segir að tillaga félagsmálaráðherra um frystingu á launum starfsmanna ríkisins til ársins 2013 sé atlaga að háskólamenntuðu starfsfólki á opinberum vinnumarkaði.

Árni spyr hvort Árni ætli í stríð

Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, spyr hvort að Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra ætli í stríð við opinbera starfsmenn í tilkynningu sem hann sendi fjölmiðlum nú síðdegis. Árni Páll sagði í viðtali við Fréttablaðið í morgun að ein aðferðin til sparnaðar fyrir ríkið sé að frysta laun opinberra starfsmanna í þrjú ár.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×