Fleiri fréttir

Alonso á ráspól í Kína

Heimsmeistarinn Fernando Alonso verður á ráspól í Kínakappakstrinum á morgun eftir að hafa náð besta tímanum í tímatökum í morgun. Michael Schumacher varð að láta sér lynda sjötta sætið, en hann átti erfitt uppdráttar í rigningunni í Shanghai í dag. Giancarlo Fisichella náði öðrum besta tímanum og Honda mennirnir Jenson Button og Rubens Barrichello náðu þriðja og fjórða besta tímanum.

Domenech framlengir til 2010

Knattspyrnuþjálfarinn Raymond Domenech hefur framlengt samning sinn við franska knattspyrnusambandið til þriggja ára og mun því að öllu óbreyttu stýra franska landsliðinu fram yfir HM í Suður-Afríku árið 2010.

Tveir Cech-ar í landsliðshópnum

Karel Brueckner, landsliðsþjálfari Tékka í knattspyrnu, hefur nú valið landsliðshóp sinn sem mætir San Marino og Írum í D-riðli undankeppni EM í næsta mánuði. Einn nýliði verður í hópnum, en það er markvörðurinn Marek Cech frá Slovan Leberec og verður honum ætlað að vera varamaður fyrir nafna sinn Peter Cech hjá Chelsea.

Krefst sönnunargagna í árásum á ensku knattspyrnuna

Brian Barwick vill að það sé á tæru að ef menn ætli sér að leggja fram gögn sem sýna eigi fram á spillingu í ensku knattspyrnunni, verði þeir að leggja fram gögn til að sanna mál sitt svo hægt sé að greina staðreyndir frá áróðri.

Van Bommel í hópinn á ný

Miðjumaðurinn Mark Van Bommel hjá Bayern Munchen hefur nokkuð óvænt verið kallaður aftur inn í landsliðshóp Hollendinga sem mætir Búlgaríu og Armeníu í undankeppni EM í næsta mánuði.

Krísufundur vegna máls Larry Brown kvöld

Í dag verður haldinn krísufundur hjá New York Knicks þar sem fulltrúar félagsins munu ræða við fyrrum þjálfara félagsins Larry Brown og hans fylgdarlið, þar sem umræðuefnið verður óuppgerður samningur þjálfarans frá því hann var rekinn í júní í sumar.

Woods í algjörum sérflokki

Besti kylfingur heims, Bandaríkjamaðurinn Tiger Woods, er í algjörum sérflokki á heimsmótinu í golfi sem fram fer á Englandi og hefur nú fimm högga forystu á þrjá næstu menn á mótinu eftir að leiknir hafa verið tveir hringir.

ÍR mætir Haukum í kvöld

Í kvöld klukkan 19:15 kemur í ljós hvort það verða ÍR-ingar eða Haukar sem verða síðasta liðið til að tryggja sér sæti 8-liða úrslitunum í Powerade bikarnum í körfubolta, en keppnin hófst í gær með þremur leikjum. Keppt var með breyttu sniði í ár og aðeins tólf lið tóku þátt. Átta liða úrslitin í keppninni hefjast svo með látum á morgun þegar Njarðvíkingar taka á móti Hamri/Selfoss í Njarðvík klukkan 19:15.

Þrjár breytingar á landsliðshóp Eyjólfs

Eyjólfur Sverrisson hefur gert þrjár breytingar á landsliðshópnum sem mætir Lettum og Svíum í undankeppni EM í næsta mánuði. Pétur Hafliði Marteinsson, Marel Jóhann Baldvinsson og Emil Hallfreðsson koma inn í hópinn fyrir Heiðar Helguson, Gunnar Heiðar Þorvaldsson og Ólaf Örn Bjarnason.

Srnicek kominn aftur til Newcastle

Hinn gamalreyndi tékkneski markvörður Pavel Srnicek hefur gert samning við enska úrvalsdeildarfélagið Newcastle og verður varamarkvörður liðsins fram í janúar. Srnicek er öllum hnútum kunnugur á St James Park, en hann varði mark liðsins í sjö ár í upphafi síðasta áratugar. Hann er 38 ára gamall og spilaði síðast með liði í Portúgal.

Scott Parker kominn aftur í hóp Englendinga

Steve McClaren hefur nú tilkynnt 24 manna hóp sinn sem mætir Makedónum og Króötum í eundankeppni EM í næsta mánuði og þar ber hæst að miðjumaðurinn Scott Parker fær aftur tækifæri með liðinu eftir meira en tveggja ára fjarveru. Þrátt fyrir að mikil meiðsli séu á meðal miðjumanna í landsliðshópnum, er þar ekkert pláss fyrir fyrrum fyrirliða enska liðsins David Beckham.

Frábær hringur hjá Heiðari

Heiðar Davíð Bragason fór á kostum á öðrum hringnum á úrtökumóti fyrir Evrópumótaröðina í golfi sem haldið er á Ítalíu. Heiðar spilaði á 7 höggum undir pari á lokadeginum í dag, samtals 65 höggum. Heiðar er á meðal efstu manna á mótinu og fær því tækifæri til að spila á öðru stigi úrtökumótsins.

Birgir Leifur úr leik í Kasakstan

Kylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG er úr leik á áskorendamótinu í golfi sem fram fer í Kasakstan eftir að hann lauk keppni á öðrum hringnum á samtals tveimur höggum yfir pari í dag. Birgir lék reyndar á pari í dag, en það nægði honum ekki til að komast í gegn um niðurskurðinn eftir slaka spilamennsku í gær.

Þrír nýliðar í landsliðshópi Loew

Joachim Loew hefur kallað þrjá nýliða inn í landsliðshóp sinn fyrir leiki Þjóðverja gegn Georgíu og Slóvakíu í næsta mánuði. Þetta eru miðjumaðurinn Piotr Trochowski frá HSV, Jan Schlaudraff frá Aachen og varnarmaðurinn Clemens Fritz. Þá verður markvörðurinn Robert Enke frá Hannover einnig í hópnum, en sá hefur áður verið kallaður inn í þýska hópinn án þess þó að spila leik.

Allt í járnum í Kína

Það er ekki laust við að spennan sé að verða óbærileg í Shanghai í Kína þar sem æfingar standa nú yfir fyrir Kínakappaksturinn í Formúlu 1 um helgina. Keppinautarnir um heimsmeistaratitil ökumanna, Fernando Alonso og Michael Schumacher, komu í mark á nánast nákvæmlega sama tíma í dag.

Hendrie lánaður til Stoke

Miðjumaðurinn Lee Hendrie hjá Aston Villa hefur nú verið lánaður til 1. deildarliðs Stoke City. Hendrie var á árum áður fastamaður í liði Villa, en hefur aðeins einu sinni komið inn sem varamaður á þessari leiktíð. Honum verður nú ætlað að hressa upp á miðjuspilið hjá Tony Pulis og félögum í Stoke, sem hafa aðeins unnið einn af fyrstu níu leikjum sínum í deildinni.

Raul úti í kuldanum í fyrsta skipti í áratug

Gulldrengurinn Raul frá Real Madrid náði í dag þeim vafasama áfanga að vera ekki valinn í landsliðshóp Spánverja af ástæðum öðrum en meiðslum í fyrsta sinn í áratug. Raul verður ekki í leikmannahópi Spánverja sem mæta Svíum í undankeppni EM í næstu viku.

Silvestre nýjasta nafnið á meiðslalistanum

Franski landsliðsmaðurinn Mikael Silvestre hjá Manchester United verður frá keppni í allt að sex vikur eftir að í ljós kom að hann er með brákað bein í ristinni. Hann varð fyrir þessum meiðslum í leiknum gegn Arsenal á dögunum, en þessi 29 ára gamli varnarmaður hefur verið fastamaður í liði United í fjölda ára. Meiðsli hans eru af sömu tegund og þau sem hrjáð hafa menn á borð við Michael Owen og Wayne Rooney svo einhverjir séu nefndir.

Sleppur við lögregluákæru

Varnarmaðurinn Ben Thatcher hjá Manchester City sleppur með skrekkinn við lögregluákæru eftir líkamsárás sína á Pedro Mendes, leikmann Portsmout, í leik liðanna fyrir nokkrum vikum. Mendes óskaði eftir því á sínum tíma að farið yrði með málið innan knattspyrnuhreyfingarinnar og það er talið hafa orðið til þess að lögregluyfirvöld hafa nú ákveðið að blanda sér ekki í málið.

Ráðstefna Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands og KSÍ

Ráðstefna í tengslum við úrslitaleik VISA-bikars karla Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands (KÞÍ) í samvinnu við Knattspyrnusamband Íslands heldur sína árlegu ráðstefnu í tengslum við VISA-bikarúrslitaleik karla þann 30. september næstkomandi.

Shevchenko og Bellamy eru enn ekki farnir að skora

Glenn Roeder, stjóri Newcastle, var skiljanlega sáttur við frammistöðu framherjans Obafemi Martins í kvöld þegar hann skoraði bæði mörk liðsins í sigrinum á eistneska liðinu Levadia Tallin á St James Park.

Úrslitin gefa ekki rétta mynd af leiknum

Alan Pardew var að vonum vonsvikinn með niðustöðuna í kvöld þegar hans menn í West Ham steinlágu 3-0 fyrir ítalska liðinu Palermo frá Sikiley í Evrópukeppni félagsliða og eru því úr leik samtals 4-0. Pardew sagði úrslitin gefa óraunhæfa mynd af leiknum.

Woods í stuði á heimsmótinu

Bandaríski stjörnukylfingurinn Tiger Woods hristi heldur betur af sér vonbrigðin í Ryder keppninni í kvöld þegar hann lék fyrsta hringinn á heimsmótinu sem fram fer á Englandi á 63 höggum eða 8 undir pari. Woods hefur eins höggs forystu á Ian Poulter og Padraig Harrington. Woods hefur fjórum sinnum unnið sigur á mótinu.

Jay Williams snýr aftur

Leikstjórnandinn Jay Williams hefur skrifað undir samning við New Jersey Nets í NBA deildinni en hann hefur ekki spilað leik í þrjú ár eftir að hafa lent í mjög alvarlegu bifhjólaslysi í júní árið 2003.

Tim Borowski meiddur

Þýski landsliðsmaðurinn Tim Borowski hjá Werder Bremen verður frá keppni í tvær til þrjár vikur að sögn lækna félagsins eftir að hann meiddist á fæti í leiknum gegn Barcelona í gærkvöldi. Þetta þýðir að Borowski mun missa af leik Þjóðverja og Georgíu í byrjun næsta mánaðar - sem og næsta leik Bremen í Evrópukeppninni.

Góður sigur hjá Flensburg

Viggó Sigurðsson og lærisveinar hans í þýska liðinu Flensburg unnu í kvöld mikilvægan 35-28 sigur á króatísku meisturunum RK Zagreb á heimavelli sínum í kvöld í leik sem sýndur var beint á Eurosport 2 á Digital Ísland. Joachim Boldsen skoraði 8 mörk fyrir Flensburg og Lars Christiansen skoraði 7 mörk.

Öruggur sigur hjá Blackburn

Enska úrvalsdeildarliðið Blackburn vann í kvöld sannfærandi 2-0 sigur á Salzburg í Evrópukeppni félagsliða og tryggði sér sæti í riðlakeppninni með 4-2 sigri í einvíginu. Benni McCarthy og David Bentley skoruðu mörk Blackburn í leiknum og réðu heimamenn ferðinni frá upphafi til enda.

West Ham úr leik

Ítalska liðið Palermo var ekki í teljandi vandræðum með að slá enska liðið West Ham úr leik í forkeppni Evrópukeppni félagsliða í kvöld og vann síðari leik liðanna 3-0 á heimavelli sínum á Sikiley eftir að hafa sigrað 1-0 í fyrri leiknum á Englandi á dögunum.

Tottenham áfram

Tottenham komst í kvöld áfram í riðlana í Evrópukeppni félagsliða eftir tilþrifalítinn 1-0 sigur á tékkneska liðinu Slavia Prag og vann því samanlagt 2-0. Það var fyrirliðinn Robbie Keane sem skoraði sigurmarkið þegar skammt var eftir af leiknum, en bæði lið fengu reyndar dauðafæri á lokasprettinum.

Newcastle í riðlakeppnina

Newcastle vann nokkuð þægilegan 2-1 sigur á Levadia Tallin í forkeppni Evrópukeppni félagsliða í kvöld og er því komið í riðlakeppnina með samtals 3-1 sigri í einvíginu. Það var Obafemi Martins sem gerði út um leikinn með tveimur mörkum með skömmu millibili í upphafi síðari hálfleiks. Kristinn Jakobsson dæmdi leikinn ásamt þremur íslenskum aðstoðarmönnum og komst ágætlega frá verkefninu.

Viggó og félagar í beinni á Eurosport

Viggó Sigurðsson og lærisveinar hans í þýska handknattleiksliðinu Flensburg etja nú kappi við Króatíumeistara RK Zagreb í meistaradeildinni og er leikurinn sýndur beint á Eurosport 2 sem er að finna Fjölvarpi Digital Ísland.

Kominn með HM húðflúr

Varnarmaðurinn umdeildi Marco Materazzi hjá Inter Milan er búinn að fá sér enn eitt húðflúrið og er það minnisvarði um sigur Ítala á HM í sumar. Materazzi komst þar eins og allir vita í heimsfréttirnar með því að verða fyrir reiðum skalla Zinedine Zidane, en ítalski varnarmaðurinn skoraði líka mark Ítala í leiknum dramatíska.

Inter, eruð þið geðveikir?

Ítölsku blöðin vönduðu stjörnum prýddu liði Inter Milan ekki kveðjurnar á síðum sínum í dag eftir að liðið tapaði 2-0 fyrir Bayern Munchen á heimavelli í Meistaradeildinni. Þeim Zlatan Ibrahimovic og Fabio Grosso var báðum vikið af leikvelli í gærkvöldi og það nýtti þýska liðið sér vel, en Inter hefur ekki fengið eitt einasta stig úr fyrstu tveimur leikjum sínum í B-riðli.

Margrét Lára með fjögur mörk í stórsigri á Portúgal

Íslenska kvennalandsliðið lauk keppni með stæl í undankeppni HM 2007 í kvöld þegar liðið rótburstaði Portúgala 6-0 ytra, þar sem Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði fjögur mörk fyrir íslenska liðið og Katrín Jónsdóttir tvö. Íslenska liðið hafnaði í þriðja sæti í riðli sínum á eftir Svíum og Tékkum en þegar var ljóst að liðið kæmist ekki á HM.

Mæta liði frá Litla-Hrauni í kvöld

Knattspyrnuliðið KF Nörd fær sitt erfiðasta verkefni til þessa í kvöld þegar liðið mætir knattspyrnuúrvali fanga á Litla-Hrauni í vikulegum raunveruleikaþætti á Sýn. Þátturinn hefst klukkan 21:15 og forvitnilegt verður að sjá hvernig Njörðunum vegnar gegn glæpamönnunum innan girðingar.

Ísland hefur yfir í hálfleik

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu hefur 2-0 forystu þegar flautað hefur verið til hálfleiks í viðureign sinni við Portúgala ytra í lokaleik sínum í riðlinum í undankeppni HM 2007. Katrín Jónsdóttir kom íslenska liðinu í 1-0 eftir aðeins 9 mínútur og Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði annað markið eftir 22 mínútur.

Newcastle - Levadia Tallin í beinni

Sjónvarpsstöðin Sýn mun sýna beint frá leik Newcastle og eistneska liðsins Levadia frá Tallin klukkan 18:35 í kvöld, en leikurinn er ekki síst merkilegur fyrir þær sakir að þar verður íslenskur dómarakvartett að störfum.

Kraftaverkin gerast enn í Óðinsvéum

Einum leik er nú lokið í Evrópukeppni félagsliða í knattspyrnu, en þar gerði danska liðið Odense BK sér lítið fyrir og sló út þýska liðið Hertha frá Berlín með 1-0 sigri á heimavelli sínum. Fyrri leiknum í Þýskalandi lauk með 2-2 jafntefli og því er danska liðið komið áfram í riðlakeppnina.

Kona tekur við forsetaembætti hjá Bilbao

Spænska knattspyrnufélagið Athletic Club Bilbao hefur nú í fyrsta sinn ráðið konu sem forseta. Sú heitir Ana Urkijo og tekur hún við embættinu tímabundið eftir að Fernando Lamikiz sagði af sér. Urkijo er 51 árs gömul og gegndi áður embætti varaforseta félagsins, en hún tók formelga við starfinu eftir stjórnarfund í dag.

Bonzi Wells semur við Houston Rockets

Framherjinn Bonzi Wells sem lék með Sacramento Kings í NBA deildinni á síðustu leiktíð hefur gengið frá samningi við Houston Rockets. Wells var síðasta "stóra nafnið" á lista leikmanna sem voru með lausa samninga fyrir næsta tímabil, en samningur hans við Texas liðið er aðeins til tveggja ára og getur hann orðið laus allra mála eftir næsta tímabil.

Spearmon með þriðja besta tíma sögunnar í 200

Bandaríkjamaðurinn Wallace Spearmon náði í gærkvöldi þriðja besta tíma sem náðst hefur í sögunni í 200 metra hlaupi þegar hann kom í mark á 19,65 sekúndum á alþjóðlegu frjálsíþróttamóti í Daegu í Suður-Kóreu. Aðeins landar hans Xavier Carter á 19,63 og heimsmethafinn Michael Johnson á 19,32 hafa náð betri tíma í greininni.

ÍA vill halda Arnari og Bjarka

Stjórn meistaraflokks ÍA hefur farið þess á leit við þá Arnar og Bjarka Gunnlaugssyni að þeir verði áfram í röðum félagsins eftir að ljóst varð að Guðjón Þórðarson tæki við starfi þeirra sem þjálfari félagsins í Landsbankadeildinni. Þetta kemur fram á vefnum Skessuhorni í dag.

Allt vitlaust á Sikiley

Til átaka kom milli stuðningsmanna ítalska liðsins Palermo og enska liðsins West Ham á Sikiley í dag, en liðin mætast í Evrópukeppni félagsliða í kvöld. Tuttugu stuðningsmenn West Ham voru handteknir og sex aðrir fluttir á sjúkrahús eftir að til átakanna kom - þar sem stólum og flöskum var grýtt í allar áttir í miðbæ Palermo og kalla þurfti til óeirðalögreglu til að skakka leikinn.

Dein vill halda Wenger í 10 ár til viðbótar

Í dag eru liðin tíu ár síðan franski knattspyrnustjórinn Arsene Wenger tók við enska úrvalsdeildarliðinu Arsenal og hefur stjórnarformaður félagsins gefið það út í tilefni dagsins að Wenger sé æviráðinn hjá félaginu ef hann óskar þess og vonast til að halda honum í að minnsta kosti áratug í viðbót.

Eto´o verður frá í allt að þrjá mánuði

Illur grunur lækna Evrópumeistara Barcelona frá í gærkvöldi hefur nú verið staðfestur eftir að framherjinn Samuel Eto´o fór í myndatöku í dag og í ljós kom að hann verður frá í allt að þrjá mánuði vegna hnémeiðsla. Eto´o meiddist í leik Werder Bremen og Barcelona í gær, en meiðsli hans gætu þó þýtt að tækifærum Eiðs Smára Guðjohnsen hjá Katalóníuliðinu ætti eftir að fjölga til muna.

Sjá næstu 50 fréttir