Fleiri fréttir

Luke Young framlengir hjá Charlton

Enski landsliðsmaðurinn Luke Young hefur framlengt samning sinn við enska úrvalsdeildarliðið Charlton til fjögurra ára. Young er 26 ára gamall og er fyrirliði liðsins. Hann fór fram á að verða seldur frá félaginu í vor, en eftir fund með nýráðnum knattspyrnustjóra félagsins, Ian Dowie, ákvað Young að feta í fótspor Darren Bent og vera áfram í herbúðum Lundúnaliðsins.

Parreira segir af sér

Carlos Alberto Parreira hefur sagt af sér sem landsliðsþjálfari Brasilíu eftir að liðinu mistókst að verja heimsmeistaratitil sinn í knattspyrnu. Parreira er 63 ára gamall og hafði stýrt brasilíska liðinu í fjögur ár. Hann segist ætla að verja meiri tíma með fjölskyldu sinni í framtíðinni líkt og svo margir þjálfarar sem láta af störfum í nútímaknattspyrnu. Parreira stýrði Brössum til sigurs á HM í Bandaríkjunum árið 1994 og er nú að láta af störfum hjá landsliðinu í þriðja sinn á ferlinum.

Gaydamak kaupir Portsmouth

Rússneski milljónamæringurinn Alexandre Gaydamak hefur gengið frá kaupum á enska úrvalsdeildarfélaginu Portsmouth. Gaydamak eignaðist helmingshlut í félaginu fyrir nokkrum mánuðum, en hefur nú keypt Milan Mandaric að fullu út úr félaginu og er orðinn aðaleigandi þess. Mandaric hefur verið stjórnarformaður félagsins til þessa, en lætur af þeirri stöðu nú, þó hann verði áfram í stjórn félagsins.

Í sjö mánaða bann fyrir neyslu kókaíns

Shaun Newton, leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins West Ham, hefur verið dæmdur í sjö mánaða keppnisbann eftir að hafa neitt kókaíns. Upp komst um eiturlyfjaneyslu leikmannsins þegar hann var tekinn í lyfjapróf eftir leik West Ham og Middlesbrough í vor.

Portsmouth gerir tilboð í Nicolas Anelka

Franski framherjinn Nicolas Anelka segir að enska úrvalsdeildarfélagið Portsmouth hafi gert liði sínu Fenerbahce kauptilboð í sig upp á rúmar 8 milljónir punda. Hann segir ennfremur að Bolton og Blackburn hafi sýnt sér áhuga, en enn sem komið er sé Portsmouth eina liðið sem gert hafi formlegt tilboð.

Mikilvægur sigur Blika í botnslagnum

Breiðablik lyfti sér í kvöld úr fallsæti í Landsbankadeild karla þegar liðið vann gríðarlega mikillvægan 1-0 sigur á ÍBV í Eyjum. Það var Marel Baldvinsson sem skoraði sigurmark Blika strax aftir fjórar mínútur. Víkingur og Keflavík skildu jöfn 1-1 í Fossvogi. Guðmundur Steinarsson skoraði mark Keflvíkinga en Viktor Bjarki Arnarsson jafnaði metin fyrir heimamenn. Þá gerðu Grindavík og Fylkir 1-1 jafntefli í Grindavík þar sem Ray Anthony Jónsson og Páll Einarsson voru á skotskónum.

Tilboði Real Madrid í Nistelrooy hafnað

Sir Alex Ferguson staðfesti í kvöld að Manchester United hefði neitað kauptilboði spænska stórliðsins Real Madrid í framherjann Ruud Van Nistelrooy. Fyrr í kvöld gengu þær fréttir fjöllum hærra að framherjinn gengi í raðir Real Madrid á morgun, en nú er útlit fyrir að ekkert verði af því.

Tottenham lagði Celta Vigo

Tottenham lagði spænska liðið Celta Vigo 2-0 í æfingaleik liðanna í kvöld. Framherjinn knái Jermain Defoe kom inn í lið Tottenham sem varamaður í hálfleik og skoraði bæði mörk liðsins. Þetta var þriðji sigur Tottenham í jafn mörgum leikjum á undirbúningstímabilinu.

Manchester United lagði Kaizer Chiefs

Manchester United lagði í kvöld lið Kaizer Chiefs 1-0 í æfingaleik í Höfðaborg í Suður-Afríku þar sem enska liðið er í æfingabúðum um þessar mundir. United gekk illa að brjóta sterka vörn heimamanna á bak aftur, en það var að lokum Kínverjinn Dong Fangzhou sem braut ísinn á 83. mínútu og tryggði United sigur.

Blikar yfir í Eyjum

Þrír leikir eru á dagskrá í Landsbankadeild karla í knattspyrnu í kvöld. Breiðablik hefur yfir gegn ÍBV í Eyjum þegar flautað hefur verið til hálfleiks og það var Marel Baldvinsson sem skoraði mark Blika í upphafi leiks. Keflvíkingar hafa yfir 1-0 á Víkingsvelli með marki Guðmundar Steinarssonar og þá er jafnt 1-1 hjá Grindvíkingum og Fylki suður með sjó þar sem Páll Einarsson og Ray Anthony Jónsson skoruðu mörkin.

Jafnt gegn Bandaríkjamönnum

Íslenska kvennalandsliðið skipað leikmönnum 21 árs og yngri, gerði 1-1 jafntefli við það bandaríska á Opna Norðurlandamótinu í knattspyrnu í dag. Áður hafði íslenska liðið unnið sigur á heimamönnum Norðmönnum 3-2. Það var Margrét Lára Viðarsdóttir sem skoraði mark íslenska liðsins í dag og mætir það Dönum á fimmtudag.

Mourning áfram hjá Miami

Miðherjinn Alonzo Mourning hefur undirritað eins árs framlengingu á samningi sínum við NBA-meistara Miami Heat. Samningurinn verður upp á algjöra lágmarksupphæð og sagðist Mourning byggja ákvörðun sína á því hversu vænt honum þætti um stuðningsmenn liðsins.

Áfrýjun hefst 22. júlí

Juventus, Lazio, Fiorentina og AC Milan munu hefja áfrýjunarmál sitt fyrir dómstóli frá og með laugardeginum 22. júlí að sögn breska sjónvarpsins. Milan mun áfrýja ákvörðun dóms um stigafrádrátt sinn í A-deild á næsta ári, en hin liðin þrjú áfrýja stigafrádrætti og því að vera felld niður um deild. Ólíklegt er talið að Milan hafi nægan tíma til að áfrýja banninu á þáttöku í meistaradeildinni og verði því að sætta sig við að taka ekki þátt á næstu leiktíð.

Engin útsala fyrirhuguð

Forráðamenn ítalska stórliðsins AC Milan hafa gefið það út að engar af stórstjörnum félagsins verði settar á sölulista þó ljóst þyki að liðið eigi litla möguleika á að vinna meistaratitilinn á næstu leiktíð eftir að hafa fengið stigarefsinguna á dögunum. Liðið fær ekki heldur að taka þátt í meistaradeildinni, en það þýðir ekki að árar verði lagðar í bát í Mílanó.

Javier Clemente ráðinn landsliðsþjálfari

Serbneska knattspyrnusambandið hefur gengið frá tveggja ára ráðningarsamningi við þjálfarann Javier Clemente, sem áður stýrði meðal annars spænska landsliðinu. Clemente er fyrsti útlendingurinn sem ráðinn er til starfa í sögu serbneska landsliðsins og mun nú stýra því fram yfir EM árið 2008.

Magath framlengir samning sinn

Þýskalandsmeistarar Bayern Munchen hafa framlengt samning þjálfarans Felix Magath um eitt ár og mun hann því stýra liðinu út árið 2008. Magath hefur náð frábærum árangri með liðið síðan hann tók við því árið 2004 og hefur stýrt því til sigurs í bæði deild og bikar bæði tímabilin sem hann hefur verið við stjórn.

Hættur að leika með landsliðinu

Króatíski framherjinn Dado Prso hjá Glasgow Rangers hefur tilkynnt að hann sé hættur að leika með landsliðinu, 32 ára að aldri. Umboðsmaður leikmannsins sagði skjólstæðing sinn ætla að einbeita sér að félagsliði sínu á næstunni, því álagið sem fylgi því að spila á öllum vígstöðvum sé orðið of mikið.

Hefur ekki áhyggjur af álaginu

Nýráðinn landsliðsþjálfari Ítala, hinn 43 ára gamli Roberto Donadoni, segist ekki hafa áhyggjur af þeirri pressu sem fylgi því að taka við nýkrýndum heimsmeistununum.

Darren Bent framlengir við Charlton

Framherjinn ungi Darren Bent hjá Charlton hefur nú bundið enda á vangaveltur um framtíð sína með því að undirrita nýjan fjögurra ára samning við félagið. Bent var einn heitasti framherjinn í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og var um tíma í enska landsliðshópnum.

Skjálfti í stuðningsmönnum

Samtök stuðningsmanna Manchester United hafa miklar áhyggjur af rekstri félagsins um þessar mundir, en skuldir eigenda þess vegna yfirtökunnar á sínum tíma nema um 660 milljónum punda. Eigendur United segja áhyggjur þessar óþarfar.

Denny Landzaat kominn til Wigan

Wigan gekk í dag frá kaupum á hollenska landsliðsmanninum Denny Landzaat frá AZ Alkmaar í Hollandi. Landzaat hefur skrifað undir þriggja ára samning við Wigan og er kaupverðið sagt vera um 2,5 milljónir punda. Landzaat er þrítugur miðjumaður og var í liði Hollendinga á HM.

Engin tilboð komin í Torres

Forseti spænska félagsins Atletico Madrid segir að sér hafi engin tilboð borist í framherjann sterka Fernando Torres, þrátt fyrir þrálátan orðróm um að félög á borð við Manchester United séu á höttunum eftir honum. Hinn 22 ára gamli Torres hefur verið talinn einn besti og efnilegasti framherji í Evrópu um árabil og er reglulega orðaður hvert stórliðið á fætur öðru.

Quedrue í viðræðum við Fulham

Franski bakvörðurinn Franck Quedrue hjá Middlesbrough á nú í viðræðum við Chris Coleman og félaga í Fulham, en hann hefur gefið það upp að hann vilji fara frá Boro. Nokkur lið í Frakklandi hafa einnig sett sig í samband við leikmanninn, en sem stendur er Fulham hvað líklegast til að landa honum. Quedrue hefur leikið með Boro í fjögur ár og var áður hjá franska liðinu Lens.

Við höfum ekki efni á leikmönnum Juventus

Arsene Wenger gefur lítið út á þann orðróm að Arsenal sé á höttunum eftir einhverjum af stórstjörnum Juventus sem væntanlega munu yfirgefa ítalska félagið á næstu mánuðum, því hann segir að Arsenal hafi einfaldlega ekki efni á að borga þeim laun.

Nistelrooy fer ekki á útsöluverði

Sir Alex Ferguson segir að Manchester United hafi enn ekki fengið formlegt tilboð í sóknarmanninn Ruud Van Nistelrooy, en bendir á að hann muni ekki fara á neinu útsöluverði þó hann hafi farið fram á að verða seldur frá félaginu.

Ribery verður ekki seldur

Forseti franska knattspyrnufélagsins Marseille segir að vængmaðurinn Franck Ribery verði alls ekki seldur í sumar, sama hve hátt verði boðið. Ribery er samningsbundinn félaginu næstu fjögur ár og vill forsetinn byggja upp sterkt lið í kring um landsliðsmennina Ribery og Djibril Cisse, sem nýverið kom til heimalandsins sem lánsmaður frá Liverpool. Lið eins og Arsenal, Manchester United og Lyon höfðu sýnt leikmanninum áhuga að undanförnu.

AC Milan þykir líklegast til að hreppa Zambrotta

Eins og búast mátti við í kjölfar ófara Juventus á síðustu dögum, hafa stórlið Evrópu nú rennt hýru auga til bestu leikmanna félagsins. Hinn fjölhæfi Gianluca Zambrotta er þar engin undantekning, en Sky-sjónvarpsstöðin heldur því fram að AC Milan sé líklegasta félagið til að landa honum.

Kobe Bryant líklega út úr myndinni

Nokkur skörð hafa verið höggvin í bandaríska landsliðshópinn í körfubolta sem undirbýr sig nú fyrir heimsmeistaramótið í Japan sem hefst í lok næsta mánaðar. Kobe Bryant mun að öllum líkindum missa af keppninni eftir að hafa þurft að gangast undir minniháttar aðgerð á hné, en áður höfðu þeir JJ Redick (bakmeiðsli), Lamar Odom (persónulegar ástæður) og Paul Pierce (uppskurður á öxl) dregið sig úr hópnum.

Íhugar tilboð í leikmenn Juventus

Alex Ferguson, stjóri Manchester United, segir ekki ólíklegt að félagið muni gera tilboð í einn eða tvo af leikmönnum Juventus í kjölfar þess að liðið var dæmt til að leika í annari deild á næstu leiktíð.

WBA hafnar öðru tilboði í Kuszczak

Enska 1. deildarliðið West Brom hafnaði í dag öðru tilboði Manchester United í pólska landsliðsmarkvörðinn Tomasz Kuszczak. Talið er að West Brom vilji fá tvo leikmenn í staðinn fyrir markvörðinn unga, auk peninga, en viðræður félaganna virðast nú vera komnar í strand í bili.

Scolari framlengir hjá Portúgal

Luiz Felipe Scolari hefur framlengt samning sinn og verður hann áfram sem landsliðsþjálfari Portúgals næstu tvö árin. Þessi Brasilíski þjálfari hefur náð góðum árangri með lið Portúgal. Hann hafnaði því að taka aftur við liði Brasilíu en hann gerði þá að heimsmeisturum árið 2002.

Kaninn ætlar að ræða við Klinsmann

Bandaríkjamenn ætla að ræða við Jurgen Klinsmann um að taka að sér að þjálfa landslið þeirra. Bruce Arena er hættur með liðið og er hafin leit af nýjum þjálfara. Klinsmann er án efa stærsta nafnið sem kemur til greina sem býr í Bandaríkjunum, en hann er búsettur í Kaliforníu.

Juventus dæmt niður og svipt tveimur titlum

Ítalska stórliðið Juventus hefur verið dæmt niður í B-deildina þar í landi og verður svipt meistaratitlunum tveimur sem liðið vann í ár og í fyrra. Þá hafa lið Lazio og Fiorentina einnig verið dæmd niður um deild. Fjórða liðið sem lá undir grun í málinu, AC Milan, heldur sæti sínu í A-deildinni en dregin verða 15 stig af liðinu í byrjun tímabils.

Leikmenn Aston Villa óhressir með Ellis

Leikmenn ensks úrvalsdeildarliðsins Aston Villa hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir gagnrýna metnaðarleysi stjórnarformannsins Doug Ellis, en hann tilkynnti ráðandi hlut sinn í félaginu til sölu síðasta haust.

Bruce Arena hættur

Bandaríska knattspyrnusambandið hefur tilkynnt að það muni ekki framlengja samning landsliðsþjálfarans Bruce Arena sem stýrt hefur liðinu í átta ár. Arena er lang sigursælasti þjálfarinn í sögu landsliðsins og stýrði því til sigurs í 71 af 130 leikjum. Leitin að eftirmanni hans er þegar hafin, en frétta er að vænta af því fljótlega.

Hefur engar áhyggjur af Bellamy

Rafa Benitez er í skýjunum yfir því að vera búinn að landa framherjanum Craig Bellamy á Anfield og segist ekki hafa áhyggjur af vafasamri fortíð leikmannsins, sem hefur verið duglegur við að koma sér í vandræði á ferlinum.

Ruud Van Nistelrooy hefur farið fram á að verða seldur

Hollenski framherjinn Ruud Van Nistelrooy hefur farið fram á að verða seldur frá Manchester United. Þetta staðfesti Sir Alex Ferguson nú fyrir stundu. Ferguson segist vita af áhuga Bayern Munchen og Real Madrid á að kaupa leikmanninn, en segist ekki vita neitt um stöðu mála annað en það að sá hollenski hafi farið þess á leit við stjórnarformann United í dag að fá að fara frá félaginu.

Tilboð Wigan í Landzaat samþykkt

Enska úrvalsdeildarfélagið Wigan hefur fengið kauptilboð sitt í hollenska landsliðsmanninn Denny Landzaat hjá AZ Alkmaar samþykkt, en á eftir að fá mikla samkeppni frá spænsku bikarmeisturunum Espanyol við að landa honum. Wigan er að leita sér að miðjumanni til að fylla skarð Jimmy Bullard og telur stjóri Wigan að hinn þrítugi Landzaat sé einmitt maðurinn til þess. Landzaat á að baki 21 landsleik fyrir Hollendinga.

Íslenska liðið fékk skell

Íslenska körfuboltalandsliðið skipað leikmönnum 20 ára og yngri fékk þungan skell gegn Hollendingum á Evrópumótinu í Portúgal í dag 99-58. Jóhann Árni Ólafsson átti ágætan leik í íslenska liðinu og skoraði 18 stig og hirti 12 fráköst og félagi hans Kristján Sigurðsson úr Njarðvík skoraði 16 stig.

Valencia hefur áhuga á Ronaldo

Spænska stórliðið Valencia hefur nú bæst í hóp þeirra liða sem renna hýru auga til portúgalska miðjumannsins Cristiano Ronaldo hjá Manchester United. Pilturinn er ekki talinn eiga von á fallegri heimkomu þegar hann snýr aftur til Manchester eftir HM og framtíð hans er stórt spurningamerki þessa dagana.

Mætir Spánverjum þann 15. ágúst

Vináttulandsleik Íslendinga og Spánverja í knattspyrnu hefur verið flýtt um einn dag vegna leiks Barcelona og Espanyol í meistarakeppninni þar í landi. Leikurinn var upphaflega settur á 16. ágúst en verður háður þann 15. ágúst vegna meistarakeppninnar á Spáni, þar sem Eiður Smári og félagar í Barcelona mæta Espanyol þann 17. ágúst. Frá þessu var greint á Vísi í gær.

Fabregas vill vera áfram hjá Arsenal

Umboðsmaður spænska miðjumannsins Cesc Fabregas hjá Arsenal segir að Real Madrid hafi gert eitt gott tilboð í leikmanninn unga, en segir hann hafa gert upp hug sinn - hann ætli að vera áfram í herbúðum Arsenal. Þá hefur Arsenal gefið það út að táningurinn Theo Walcott verði ekki lánaður frá félaginu á næstu misserum til að fá reynslu af að spila með aðalliði.

Meite til Bolton

Abdoulaye Meite, landsliðsmaður Fílabeinsstrandarinnar, hefur samþykkt að ganga í raðir Bolton og mun skrifa undir fjögurra ára samning fljótlega eftir að gengið hefur verið frá lausum endum og læknisskoðun. Meite er 25 ára gamall varnarmaður og hefur lengi verið undir smásjánni hjá Sam Allardyce, stjóra Bolton.

Nálægt samningi við Kuszczak

Enska úrvaldeildarfélagið Manchester United hefur staðfest að það sé nálægt því að ganga frá kaupum á pólska varamarkverðinum Tomasz Kuszczak frá West Brom. Kuszczak er 26 ára gamall og fór til West Brom á frjálsri sölu frá Hertha Berlín á sínum tíma.

Íslenska liðið spilar í Magdeburg

Búið er að tilkynna hvar riðlarnir á HM í Þýskalandi á næsta ári verða spilaðir og í ljós kom að íslenska landsliðið mun spila fyrstu þrjá leiki sína í Magdeburg. Það verður að teljast íslenska liðinu til tekna, því eins og flestir vita eru nokkrir af landsliðsmönnunum öllum hnútum kunnugir þar á bæ. Alfreð Gíslason stýrði liði Magdeburg við frábæran orðstír í mörg ár og þá hafa leikmenn eins og Ólafur Stefánsson, Sigfús Sigurðsson og Arnór Atlason gert fína hluti með liðinu.

Sjá næstu 50 fréttir