Fleiri fréttir

Fjölskylduhátíð í Hrísey

Fjölskylduhátíð fullveldisins verður haldin í Hrísey um næstu helgi og er gert ráð fyrir að um 4000 manns verði í eyjunni.

Afbrotatölur þessa árs

Afbrotatölur fyrstu sex mánaða þessa árs í lögregluumdæmum, Álftanesar, Garðabæjar og Hafnarfjarðar sýna að frá árunum 2000-2005 hefur brotum eins og innbrotum, þjófnuðum, eingaspjöllum og líkmsárásum farið fækkandi og eru nú 9% færri í ár en þau voru árið 2000, þrátt fyrir mikla fölgun íbúa.

Nýr ritstjóri á Nýju Lífi

Heiðdís Lilja Magnúsdóttir hefur verið ráðin sem ritstjóri á tímaritinu Nýju Lífi. Heiðdís Lilja er píanókennari að mennt en hefur starfað hjá Nýju Lífi síðastliðin fimm ár.

Ungur maður kærður fyrir nauðgun

Sextán ára stúlka hefur kært ungan mann fyrir að hafa nauðgað sér í bíl í Reykjavík í nótt og þrjá vini hans fyrir að hafa ekki komið sér til hjálpar, en þeir voru í bílnum.

Esso hækkar bensínverð

Olíufélagið Essó hækkaði verð á bensínlítra um 3,80 krónur í morgun og kostar lítrinn nú í sjálfsafgreiðslu tæpar 133 krónur.

Farsæl lending Discovery geimskutlunnar

Discovery-geimskutlan lenti heilu og höldnu í Kennedy-geimferðamiðstöðinni í Flórída klukkan rétt eftir klukkan eitt, eftir þrettán daga ferðalag til alþjóðlegu geimstöðvarinnar.

Reglur við Þingvallavatn hertar

Umhverfisráðherra hefur með reglugerð hert til muna reglur um umgengni við Þingvallavatn. Gerðar eru strangari kröfur en almennt er, hvað varðar frárennsli frá byggingum og lagningu og viðhald vega. Þá eru gerðar ýtarlegar kröfur til ræktunarframkvæmda og notkunar áburðar í landbúnaði við vatnið og hvers kyns fiskeldi í eða við vatnið verður bannað.

Hlaup byrjað úr Grænalóni

Hlaup er byrjað úr Grænalóni, vestanvert á Skeiðarársandi og verður þess væntanlega vart undir Núpsvatnabrú. Hlaup úr Grænalóni eru tíð, gerast jafnvel jafnvel tvisvar á ári.

Flóðbylgja á Jövu

Í það minnsta áttatíu eru látnir eftir að flóðbylgja reið yfir Jövu eftir jarðskjálfta upp á 7,2 stig sem varð í Indlandshafi í morgun. Stjórnvöld á Indlandi hafa gefið út flóðbylgjuviðvörun á Andaman- og Níkóbareyjum, sem eru austur af Súmötru, en þar fórust tugþúsundir í flóðbylgjunni miklu á annan í jólum 2004.

Leiðtogar G8 skella skuldinni á öfgasinnuð samtök

Leiðtogar átta helstu iðnríkja heims kenna öfgasinnuðum samtökum um átökin fyrir botni Miðjarðarhafs. Þeir funda í dag með leiðtogum fimm þróunarríkja um afnám viðskiptahindrana og viðskiptahætti Vesturveldanna við þróunarríkin á síðasta degi leiðtogafundarins.

Vilja senda friðargæslulið til Líbanons

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, og Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hafa lagt til að Sameinuðu þjóðirnar sendi friðargæslulið til Líbanons til að stöðva árásir Hezbollah á ísraelsk skotmörk. Loftárásir Ísraela í Líbanon hafa heimt í það minnsta sautján líf í nótt og í morgun.

Kjararáð skipað

Skipaður hefur verið nýr úrskurðaraðili, kjararáð, sem ætlað er að ákveða laun og starfskjör alþingismanna, ráðherra og dómara og annarra ríkisstarfsmanna sem ekki eru ráðnir til starfa með hefðbundnum hætti vegna eðli starfanna eða samningsstöðu.

MP banki aðili að kauphöllum í Eystrasaltsríkjum

Stjórnir kauphallanna í Tallin í Eistlandi, Riga í Lettlandi og Vilníus í Litháen hafa samþykkt aðild MP banka að kauphöllunum. Bankinn er fyrsta íslenska fjármálafyrirtækið með aðild að þessum kauphöllum.

Umhverfisráðherra hvetur til afnáms á skaðlegum niðurgreiðslum

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra hvatti til afnáms á niðurgreiðslum sem geta haft skaðleg áhrif á umhverfið og til aukinnar þátttöku atvinnulífsins í baráttu gegn loftslagsbreytingum á fundi evrópskra umhverfisráðherra í Turku í Finnlandi.

Alþjóðlegt friðargæslulið til Líbanon

Kofi Annan, aðalritari Sameinuðu þjóðanna og Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hvetja nú til að alþjóðlegt friðargæslulið verði sent til Líbanons til að freista þess að stöðva sprengingar Hezbollah í Ísrael. Segja þeir að þetta sé árangursríkast til friðar, því ef næst að binda endi á sprengingar í Ísrael, hafi Ísraelar ekki lengur ástæðu til að ráðast á Líbanon

Fjórir handteknir vegna nauðgunarkæru

Lögreglan í Reykjavík hefur handtekið fjóra unga karlmenn vegna nauðgunarkæru. Ung kona kærði nauðgun upp úr miðnætti og var flutt í neyðarmóttöku fyrir fórnarlömb nauðgana á Landsspítalanum. Jafnframt hófst rannsókn, sem leiddi til handtakanna. Lífsýni hafa verið tekin úr mönnunum og verða þeir svo yfirheyrðir í dag. Verknaðurinn átti sér stað í heimahúsi. Á þessari stundu eru frekari málsatvik óljós, að sögn lögreglu.

Íslenskt götuheiti í Svartfjallalandi

Stjórnmálaflokkur í Svartfjallalandi hefur lagt fram tillögu um að breyta götuheiti þar í landi. Ætlunin er að gatan beri heiti eftir Íslandi en með því á að heiðra Íslendinga fyrir að hafa fyrstir orðið til þess að viðurkenna Svartfjallaland sem sjálfstætt ríki í maí á þessu ári.

Íslenskar kartöflur

Fyrstu nýju kartöflurnar úr sunnlenskum görðum koma á markað á höfuðborgarsvæðinu í dag. Það verða Premier kartöflur , sem Birkir Ármannsson í Vestur Holti í Þykkvabæ, byrjaði að taka upp í morgun.

Engar rútuferðir á morgun

Íslensk kona ásamt fjögurra mánaða ungabarni og eiginmanni sínum er ein þeirra sex Íslendinga sem enn eru strandaglópar í Beirút. Íslendingarnir voru komnir upp í rútu í hádeginu í dag þegar þeim var vísað út og sagt að Norðmenn gengju fyrir. Enn er óvíst um að Íslendingarnir komist áleiðis heim á morgun.

Stjórnsýsluúttekt gerð á Strætó

Gerð verður rekstrar- og stjórnsýsluúttekt á Strætó að beiðni borgaryfirvalda. Borgarfulltrúi í stjórn fyrirtækisins segir meirihlutann í borgarstjórn hafa verið upplýstan um þjónustuskerðingu fyrirtækisins.

Öryggisráðið dragi fæturna

Forseti Líbanon sakar Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna um að draga fæturna í stað þess að grípa til aðgerða til að stöðva loftárásir Ísraela í Líbanon. Hann segir þetta með vilja gert til að gefa Ísrael meiri tíma til að knésetja Líbanon.

Segir borgaryfirvöld velja einkabílinn.

Formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands segir þjónustuskerðingu Strætó bitna illilega á námsmönnum. Ráðamenn í borginni velji einkabílinn fyrir borgarbúa.

Einn leiðtoga Rauðu kmeranna liggur fyrir dauðanum

Einn af herforingjum Rauðu kmeranna í Kambódíu liggur nú í dauðadái og eiga læknar ekki von á bata. Ta Mok hlaut viðurnefnið slátrarinn í þjóðernishreinsunum khmeranna i Kambódíu á áttunda áratugnum, sem eru með þeim verstu sem áttu sér stað í heiminum á síðustu öld. Óttast er að flestir ábyrgðarmanna þjóðarmorðanna verði látnir áður en næst að dæma þá fyrir glæpina sem þeir frömdu, en réttarhöld yfir þeim hafa enn ekki hafist. Málin hafa þó mjakast í rétta átt í mánuðinum þegar embættismenn voru kosnir til að skipuleggja réttarhöldin yfir þeim.

Fundur ríkja sunnan Sahara

Nokkur hundruð manns eru nú saman komin í Goa í Malí til að kljást við ýmis vandamál sem hrjá Afríkuríki sunnan Sahara-eyðimerkurinnar. Fundurinn er settur á sama tíma og fundur átta helstu iðnríkja heims til þess að vekja athygli á ýmsum umræðuefnum sem forsvarsmenn ráðstefnunnar segja ekki hljóta neina umfjöllun á G8-fundinum, svo sem vopnuð átök sunnan Sahara, eyðni, skuldastaða Afríkuríkja og viðskiptahættir vestrænna fyrirtækja í Afríku.

Mótmælendur krefjast þess að Aristide fái að koma til Haíti

Þúsundir krefjast þess að Aristide fyrrverandi forseti Haiti fái að snúa aftur til heimalands síns eftir að hafa flúið Haíti þegar honum var steypt af stóli fyrir tveimur árum síðan. Núverandi forseti Haíti, Rene Préval, hefur sagt að það sé ekki útilokað að Aristide fái að snúa aftur til eyrikisins en ráðamenn í Bandaríkjunum segja þetta óráðlegt þar sem það myndi kynda undir óróleika í landinu.

Leiðtogi Hezbollah sagður slasaður

Ísraelsk sjónvarpsstöð heldur því nú fram að Nasrallah, leiðtogi Hezbollah-samtakanna, hafi slasast í loftárásum Ísraelsmanna. Þetta hefur hins vegar ekki enn fengist staðfest frá yfirvöldum en vitað er að sprengjuárásir Ísraela hafa meðal annars beinst gegn höfuðstöðvum Hezbollah.

Fluttur frá Borgarnesi til Reykjavíkur eftir líkamsárás

Maður var fluttur á slysadeild Landspítala-Háskólasjúkrahúss í Fossvogi í nótt eftir líkamsárás. Atvikið átti sér stað á Mótel Venus fyrir utan Borgarnes. Áverkar mannsins virtust miklir í fyrstu en við skoðun í Fossvogi reyndist hann ekki mikið skaddaður heldur einungis með glóðarauga og bólgið andlit. Búið er að útskrifa manninn.

Smáskífa Nylon selst vel í Bretlandi

Fyrsta smáskífa hljómsveitarinnar Nylon í Bretlandi endaði í 29. sæti sölulistans eftir vikuna. Smáskífan "Losing a Friend" kom í verslanir á mánudag og var uppseld í stórum hluta verslana í miðborg London sama dag. Meðal þeirra sem þurftu að láta í minni pokann fyrir Nylon flokknum eru meðlimir hljómsveitarinnar Red Hot Chili Peppers sem einnig gáfu út smáskífu í vikunni.

Fjölmenn mótmæli í Indónesíu gegn árásum Ísraela

Þúsundir manna komu saman á götum Jakarta, höfuðborgar Indónesíu í dag til að mótmæla árásum Ísraela á Líbanon og palestínsku sjálfstjórnarsvæðin. Margir báru spjöld sem sögðu Ísrael stunda hryðjuverk en aðrir báru palestínska fána. Ísraelski fáninn var fótum troðinn til að sýna fyrirlitningu mótmælendanna á ríkinu. Mótmælin eru þau stærstu í Indónesíu síðan árásir Ísraela á Líbanon hófust á miðvikudaginn. Indónesía hefur lengi stutt Palestínu að málum og neitar að viðurkenna Ísraelsríki.

Einn látinn í skógareldum í Kaliforníu

Enn er ekki búið að ná tökum á skógareldum í Kalirforníu í Bandaríkjunum. Um fjögur þúsund slökkviliðsmenn unnu að því að slökkva eldana í gær. Lögreglumenn fundu í gær lík manns sem saknað hefur verið síðan á þriðjudag þegar hann bjóst til að yfirgefa heimili sitt á flótta undan eldunum. Slökkviliðsmenn hafa náð einhverjum tökum á eldunum sem geisa við Sawtooth en ekki eldum við Millard.

Norður-Kóreumenn ætla ekki að hætta tilraunum sínum

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti samhljóða í nótt að setja takmarkað viðskiptabann á Norður-Kóreu vegna tilraunaskota þeirra á langdrægum eldflaugum. Norður-Kóreumenn svöruðu umsvifalaust að ekki kæmi til greina að falla frá frekari eldflaugaprófunum.

Öryggisráðið kallar ekki til vopnahlés í Líbanon

Ekki náðist samkomulag í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um að kalla til vopnahlés milli Ísraela og Hezbollah, eins og forsætisráðherra Líbanons bað um í gær. Líbanskir diplómatar kenna Bandaríkjamönnum um að hafa stöðvað tillöguna í ráðinu.

Íslendingar skildir eftir í Beirút

Íslendingunum í Beirút, höfuðborg Líbanons, var meinað að yfirgefa borgina í rútum þar sem Norðmenn voru látnir ganga fyrir. Utanríkisráðherra segist vonsvikinn vegna málsins, en brýnt þótti að fólkið kæmist heim hið fyrsta vegna þess stríðsástands sem ríkir í landinu.

Rændi úr peningakassanum og sló afgreiðslukonu

Maður á þrítugsaldri, með klút fyrir andlitinu, rændi verslun í vesturbæ Reykjavíkur klukkan fjögur í gærdag. Hann var kominn í peningakassann þegar afgreiðslukona kom að honum og reyndi að stöðva hann. Hann sló hana þannig að hún féll í gólfið og hvarf á brott á bíl. Konan sem hann réðst á náði númeri bílsins og gat því veitt lögreglu gagnlegar upplýsingar. Tæplega þremur tímum síðar var hann handtekinn og gistir nú fangageymslur lögreglu en verður yfirheyrður síðar í dag.

Beltin björguðu

Talið er að bílbelti hafi bjargað því að ekki fór verr þegar bíll valt út af veginum í Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi um kvöldmatarleytið í gær. Að sögn lögreglu var fernt í bílnum og sluppu þau öll ómeidd enda öll með bílbelti.

400 e-töflur fundust við húsleit í Keflavík

Lögreglan í Keflavík handtók á föstudagskvöld sex manns vegna fíkniefnaviðskipta. Við húsleit fundust um 400 e-töflur, 15 grömm af amfetamíni og lítilræði af kókaíni. Fólkinu hefur öllu verið sleppt. Markaðsvirði e-taflnanna gæti numið um einni og hálfri milljón. Þrír gistu svo fangageymslur lögreglunnar í Keflavík í nótt vegna ölvunar, þar á meðal ökumaður sem tekinn var snemma í morgun fyrir ölvunarakstur en brást illa við og beit lögregluþjón.

Vopnað rán í Krónunni í Mosfellsbæ

Maður vopnaður hnífi ógnaði starfsfólki Krónunnar í Mosfellsbæ seint í gærkvöldi, heimtaði peninga og hafði á brott með sér talsvert fé. Fimm aðrir eru taldir tengjast ráninu. Tólf mínútur í ellefu var lögreglu tilkynnt um ránið og sautján mínútum síðar náðist sá grunaði vopnaður hnífi. Um miðnætti voru meintir vitorðsmenn hans handteknir í heimahúsi. Allir sex gistu fangageymslur lögreglunnar í Reykjavík í nótt og verða þeir yfirheyrðir í dag.

Níu Ísraelar féllu í árás Hezbollah á Haifa

Sprengjuárásir Ísraela og skæruliðasamtakanna Hezbollah halda áfram á báða bóga. Bæir í norðurhluta Ísraels, við landamærin að Líbanon, hafa nú flestir verið yfirgefnir vegna sprengjuárása Hezbollah undanfarna daga. Hezbollah-skæruliðasamtökin gerðu árás á ísraelsku hafnarborgina Haifa í morgun, þar sem í það minnsta níu manns létu lífið.

Takmarkað viðskiptabann sett á Norður-Kóreu

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti samhljóða að setja takmarkað viðskiptabann á Norður-Kóreu vegna prófana á langdrægum eldflaugum. Einnig var þess krafist að látið verði tafarlaust af öllum slíkum tilraunum. Það taka stjórnvöld í Norður-Kóreu hins vegar ekki í mál. Viðskiptabannið sem samþykkt var í gær á að hindra öll viðskipti með þau efni og hluti sem notuð eru til að smíða eldflaugar.

Sjá næstu 50 fréttir