Handbolti

„Próf­steinninn verður þegar vesenið byrjar“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Einar Jónsson og Rúnar Kárason gerðu upp leik Íslands og Ítalíu í Besta sætinu með Aroni Guðmundssyni.
Einar Jónsson og Rúnar Kárason gerðu upp leik Íslands og Ítalíu í Besta sætinu með Aroni Guðmundssyni.

Einar Jónsson og Rúnar Kárason ræddu stórsigur Íslands gegn Ítalíu í hlaðvarpinu Besta sætið. Sérfræðingarnir voru ánægðir að sjá Gísla Þorgeir Kristjánsson og Ómar Inga Magnússon stimpla sig vel inn í mótið, en bíða og vona eftir því að sjá svipaða frammistöðu gegn stærri liðum.

Einar og Rúnar sögðu lítið hægt að dæma íslenska liðið út frá þessum leik, enda var Ísland margfalt sterkari aðilinn og andstæðingurinn, Ítalía, spilaði mjög óhefðbundinn handbolta.

„Við getum ekkert lesið í einhvern strúktúr eða eitthvað svoleiðis. Við sáum í raun og veru ekkert. Ungverjar eru ekki að fara að spila svona, Pólland er ekki að fara að spila svona, eða Króatía eða Svíþjóð. Það er enginn annar að spila svona handbolta“ sagði Einar Jónsson en ítrekaði mikilvægi þess að hafa unnið leikinn sannfærandi og sagði Ísland hafa gefið frá sér góða orku.

Þeim þótti þó sérstaklega ánægjulegt og mikilvægt að sjá tvo bestu leikmenn liðsins, Ómar Inga Magnússon (6 mörk og 5 stoðsendingar) og Gísla Þorgeir Kristjánsson (7 mörk og 3 stoðsendingar), stimpla sig inn af krafti.

„Fengu samt ekki allir smá hland fyrir hjartað þarna í byrjun leiks?“ sagði Rúnar Kárason þá og talaði um atvikið þegar Gísli Þorgeir féll harkalega til jarðar og hélt um öxlina.

„Þetta gerist í hverjum einasta leik með Magdeburg“ svaraði Einar en Gísli er einmitt þekktur fyrir að hnoðast mikið.

„Já og þeir eru báðir bara on. Maður sér það“ sagði Rúnar þá um liðsfélagana hjá Magdeburg.

„Tengingin milli þeirra var alveg frábær, manni hefur fundist það aðeins vanta en tilfinningin er að þetta sé alveg upp á 10,5 núna. Það er það sem okkur langar að sjá, því þetta eru kóngarnir okkar tveir. Við erum bara mjög heppin að eiga tvo bestu sóknarhandboltamenn í heimi.“

Þáttastjórnandinn Aron Guðmundsson vakti þá upp spurningu um hvort þeir tveir gætu tekið við leiðtogahlutverkinu sem Aron Pálmarsson skilur eftir sig.

„Þessir gaurar leiða þetta bara með sinni frammistöðu en þetta var enginn prófsteinn á það hvort þeir geti leitt liðið. Prófsteinninn verður þegar vesenið byrjar, þegar við förum að spila á móti betri andstæðingum. Þó það sé gott að geta þetta á móti lakari andstæðingum, þá hefur það ekki verið vandamálið hingað til. Við höfum alltaf farið létt í gegnum lakari andstæðinga.“

Rúnar benti á að Ómar Ingi hefði verið manna háværastur í einu leikhléinu, þrátt fyrir að vera á bekknum á þeim tíma.

„Já, ég er sammála því. Og það er kannski eitthvað, en ég segi það aftur: Ég verð að sjá þetta á móti Ungverjum eða Króötum eða einhvern tímann þegar við verðum í veseni.“

Besta sætið mun gera upp alla leiki Íslands á EM í hlaðvarpsformi með vel völdum sérfræðingum hverju sinni. Fyrsta þáttinn má finna í spilurunum hér að ofan en Besta sætið er aðgengilegt á Tal, Spotify og öllum helstu streymisveitum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×