Viðskipti innlent

Breytingar muni auka verð­bólgu hressi­lega

Árni Sæberg skrifar
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra hækkaði vörugjöld hressilega milli ára.
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra hækkaði vörugjöld hressilega milli ára. Vísir/Anton Brink

Greiningardeild Landsbankans telur að breytingar á gjaldtöku hins opinbera af rekstri og kaupum ökutækja gætu aukið verðbólgu um 0,7 prósentustig. Óvíst sé hvort áhrifin komi fram að öllu leyti í janúar eða dreifist yfir næstu mánuði, en telja megi að það velti ekki síst á eftirspurn eftir bílum í byrjun árs.

Frá og með áramótum er öllum eigendum ökutækja óháð orkugjafa skylt að greiða kílómetragjald. Gjaldið fer eftir þyngd ökutækisins en öll ökutæki undir 3500 kílóum, sem er viðmiðið fyrir hefðbundin ökuréttindi, borga sama gjald eða 6,95 krónur á hvern ekinn kílómetra. Samhliða lækkar gjald á eldsneyti líkt og komið hefur fram.

Í nýrri hagsjá greiningardeildar Landsbankans segir að kílómetragjaldið komi nn í mælingar Hagstofunnar á verðbólgu nú í janúar.

Meðalkostnaður hækkar um 6,5 prósent 

Breytingin muni hafa misjöfn áhrif á ólíkar tegundir bíla. Rekstrarkostnaður rafmagnsbíla hækki um 9,5 prósent, að hleðslukostnaði óbreyttum. Rekstrarkostnaður eyðsluminni bíla hækki einnig en hann minnki á eyðslumiklum bílum.

„Að teknu tilliti til samsetningar bílaflotans ætti meðalkostnaður fyrir eldsneyti og kílómetragjald að hækka um 6,5 prósent á milli ára, á hvern bíl, sem myndi auka verðbólgu í janúar um 0,2 prósentustig, að öðru óbreyttu. Hagstofan mun setja kílómetragjald undir liðinn „veggjöld“ í vísitölu neysluverðs og erfitt er að segja til um það hvernig vogin fyrir veggjöld verður útfærð.“

Verð hækki um allt að átta prósent

Þá segir að um áramótin hafi einnig verið gerð breyting á vörugjöldum á ökutæki. Sérstakt fimm prósenta vörugjald hafi verið fellt niður af rafmagnsbílum en hækkað í tíu prósent á bensín- og díselbíla. Útreikningi á vörugjöldum sem fara eftir CO2 útblæstri bíla hafi einnig verið breytt, sem leiði til töluverðrar hækkunar á verði lítilla og meðalstórra bensín- og díselbíla og hlutfallslega meiri hækkunar en á stórum jeppum með mikinn útblástur.

„Fyrir flesta bíla sem ganga fyrir bensíni eða dísil gætu vörugjöldin hækkað verð um í kringum 20 prósent. Fyrir stóra jeppa er hækkunin minni, nær sjö til átta prósentum, þar sem þeir greiddu töluverð gjöld fyrir og voru nær hámarksvörugjöldum en minni bílar. Breytingar á vörugjöldum hafa áhrif til lækkunar á verði á rafmagnsbílum, en á móti var styrkur til rafmagnsbílakaupa lækkaður úr 900 þúsund í 500 þúsund og verð á rafbílum gæti því hækkað um tvö til þrjú prósent.“

Hagstofan mæli aðeins verð á nýjum bílum í vísitölu neysluverðs og taki ekki tillit til kaupa bílaleiga í verðbólgumælingum. Heimili kaupi í auknum mæli rafmagnsbíla umfram aðra bíla. Hlutfall þeirra nemi nú um 50 til 60 prósentum af bílakaupum heimila og haldi áfram að hækka. Breytingar á verði rafmagnsbíla hafi því sífellt meiri áhrif á verðmælingar Hagstofunnar en breytingar á verði á bensín- og díselbílum. 

„Að teknu tilliti til hlutdeildar ólíkra bílategunda í neyslukörfu heimilanna teljum við að breyting vörugjalda geti haft í för með sér allt að 8 prósenta hækkun á verðmati Hagstofunnar á kaupum á nýjum bílum. Við það má ætla að verðbólga aukist um 0,5 prósentustig, að öðru óbreyttu. Áhrifin af þessari hækkun þurfa ekki endilega að koma fram strax í janúar en þó á allra næstu mánuðum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×