Uppgjörið:Njarðvík - Þór Þor­láks­höfn 92-93| Stigin til Þor­láks­hafnar eftir há­spennu

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Ármann Þór Þorlákshöfn
Ármann Þór Þorlákshöfn Vísir/Hulda Margrét

Njarðvík tók á móti Þór Þ. í tíundu umferðar bónus deild karla í kvöld. Leikurinn fór fram í IceMar höllinni í Njarðvík og var hin mesta skemmtun og réðist á loka andartökum leiksins. Það voru gestirnir frá Þorlákshöfn sem fóru með sigur 92-93.

Leikurinn fór fjörlega af stað og voru það heimamenn sem tóku fyrst völdin og áttu fyrstu stig leiksins. Njarðvíkingar voru skrefinu framar á nær öllu sviðum í fyrsta leikhluta.

Þetta virkaði allt svo rosalega auðvelt fyrir heimamenn á meðan þetta var á sama tíma oft á tíðum full erfitt fyrir gestina. Njarðvík náði mest 10 stiga forskot en Þórsarar náðu að vinna það niður. Njarðvík leiddi með sex stigum eftir fyrsta leikhluta 33-26.

Þór Þ. opnaði annan leikhluta með þrist úr horninu frá Lazar Lugic og var það ákveðin fyrirboði yfir það hvað var í vændum.

Bæði lið voru að hitta virkilega vel fyrir aftan þriggja stiga línuna og sáum við nítján slík detta í fyrri hálfleik. Þór Þ. náði að tengja saman góða vörn með flottri sókn og náði að snúa leiknum sér í hag fyrir hálfleik. Þegar liðin gengu til búningsklefa í hálfleik var staðan 51-53 gestunum í vil.

Þór Þ. byrjaði seinni hálfleikinn með viðeigandi þrist sem steinlá frá Rafail Lanaras. Það var mikill kraftur í gestunum sem voru með að því virtist öll völd á vellinum og öll stóru skotin voru að detta fyrir þá.

Njarðvík fékk fjölmörg tækifæri til þess að koma sér í betri stöður en voru sjálfum sér verstir. Heimamenn voru að tapa boltanum full auðveldlega og gera klaufaleg mistök á ögurstundu. Flottur endasprettur hjá Njarðvík skilaði þeim þó bara þrem stigum frá gestunum fyrir fjórða leikhluta 70-73.

Heimamenn mættu með krafti út í fjórða leikhluta og voru mun líkari liðinu sem maður sá í fyrsta leikhlutanum. Voru grimmir og áræðnir á körfuna snéru leiknum fljótlega sér í hag. Njarðvíkingar komust í tíu stiga forskot en þá tóku gestirnir við sér og leikurinn var orðin hnífjafn þegar rétt um mínúta var eftir.

Jacoby Ross átti svakalegan þrist fyrir Þór Þ. alveg í blálokin sem kom gestunum yfir þegar það voru rétt um 15 sekúndur eftir. Njarðvík tók leikhlé og færðu boltann yfir á vallarhelming Þórs. Heimamenn fundu Dwayne Lautier-Ogunleye sem keyrði undir körfuna en klikkaði.

Þór Þ. tók leikhlé og teiknaði upp lokasókn. Njarðvíkingar byrjuðu á því að brjóta og stálu svo boltanum þegar sekúndurnar voru að telja niður. Dwayne Lautier-Ogunleye fann þá Veigar Pál Alexandersson sem stökk upp í sniðskot sem geygaði og gestirnir frá Þorlákshöfn gátu fagnað sigri 92-93 í ótrúlegum endi.

Atvik leiksins

Auðvelt að nefna klikkið hjá Njarðvíkingum í lok leiks. Fengu tvö dauðafæri sem klikkuðu bæði.

Þristurinn frá Jacoby Ross sem tryggði sigurinn var engu síðri. Hann var með mann í sér langt úti á velli en negldi skotið.

Stjörnur og skúrkar

Djordje Dzeletovic reyndist Njarðvíkingum erfiður í kvöld. Var að hitta hrikalega vel fyrir aftan þriggja stiga línuna og var stigahæstur í liði Þórs með 23 stig.

Jacoby Ross fær líka sæti hérna fyrir að stíga upp í lokin og setja stóru skotin. Hann endaði með 17 stig og Rafail Lanaras var með 19.

Hjá Njarðvík var það Dwayne Lautier-Ogunleye sem endaði stigahæstur á vellinum með 31 stig.

Dómararnir

Dómararnir heilt yfir voru bara nokkuð fínir. Ekki frábærir en ekkert hræðilegir heldur.

Stemingin og umgjörð

Það verður seint tekið af Njarðvíkingum að þeir leggja svo sannarlega metnaðinn í starfið. Hefði viljað sjá fleiri andlit í stúkunni en fullt hrós á þau sem lögðu leið sína í IceMar-höllina í kvöld.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira