Körfubolti

„Ég myndi bróka hann inn í klefa“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristinn Óskarsson dómari reynir að silla til friðar á milli Grindvíkingsins Jordan Semple og Stjörnumannsins Giannis Agravanis.
Kristinn Óskarsson dómari reynir að silla til friðar á milli Grindvíkingsins Jordan Semple og Stjörnumannsins Giannis Agravanis.

Grindvíkingurinn Jordan Semple var sendur snemma í sturtu í stórleik Stjörnunnar og Grindavíkur í Bónusdeild karla í körfubolta í gær. Bónus Körfuboltakvöld fór yfir ástæðuna fyrir því að Semple var rekinn út úr húsi af dómurum leiksins.

Semple var búinn að spila vel í upphafi leiks enda kominn með fjórtán stig á fyrstu þrettán mínútum leiksins.

„Semple var frábær í þessum körfuboltaleik þegar hann var inni á vellinum og hann var að stefna í að eiga einhvern algjöran tröllaleik,“ sagði Stefán Árni Pálsson. Svo sprakk allt í andlitið á honum í öðrum leikhluta.

Voru einstaklega vanstilltir fyrir þennan leik

„Þetta er óvanalegt. Ég hef ekki séð hann svona mikið missa marks tilfinningalega séð. Þeir voru nokkrir þarna í Grindavík sem voru bara alveg einstaklega vanstilltir fyrir þennan leik,“ sagði Ómar Sævarsson, sérfræðingur Körfuboltakvölds.

Klippa: Körfuboltakvöld um brottrekstur Jordan Semple út úr húsi

Semple fékk fyrst tæknivillu fyrir tuð eftir að Stjörnumaðurinn Giannis Agravanis lét hann finna fyrir því. Það liðu síðan aðeins átján sekúndur af leiktímanum þar til að Semple krækti sér í aðra tæknivillu og var í beinu framhaldinu rekinn út úr húsi. „Hann biður um að láta reka sig út,“ sagði Stefán Árni.

Óheyrilega heimskulegt

„Þetta er alveg óheyrilega heimskulegt. Í hinni tæknivillunni þá hefði dómarinn mögulega getað sagt honum bara aðeins að róa sig. Hann er leikreyndur leikmaður en bara biður um að láta fleygja sér út. Dómarinn getur ekkert annað gert en að dæma á þetta. Hann gefur dómurunum ekki tækifæri á að gera neitt annað,“ sagði Ómar.

„Ég myndi bróka hann inn í klefa,“ sagði Stefán.

Mikið í því að láta vorkenna sér

„Þetta er bara mikil vanstilling, en þeir eiga það til að missa hausinn. Kane missir mjög oft hausinn og það er svo sem ekkert óeðlilegt að einhverjir aðrir svona eigi það til að missa hausinn líka,“ sagði Sævar Sævarsson, sérfræðingur Körfuboltakvölds.

„Þeir voru aðeins of mikið í því að láta vorkenna sér,“ sagði Sævar. Það má horfa á umfjöllunina um tæknivilluna og brottreksturinn hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×