Körfubolti

Tryggvi reif til sín flest frá­köst

Sindri Sverrisson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason var að vanda í lykilhlutverki með íslenska landsliðinu í nýafstöðnum landsleikjum en er mættur aftur  til Spánar.
Tryggvi Snær Hlinason var að vanda í lykilhlutverki með íslenska landsliðinu í nýafstöðnum landsleikjum en er mættur aftur til Spánar. Getty/Massimo Ceretti

Tryggvi Snær Hlinason var á meðal bestu manna hjá Bilbao þegar liðið vann 79-72 sigur gegn Gran Canaria í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í dag.

Tryggvi, mættur aftur til Spánar eftir landsleikina gegn Ítalíu og Bretlandi, tók flest fráköst allra á vellinum eða átta talsins og skoraði auk þess fimm stig og gaf tvær stoðsendingar.

Staðan í hálfleik var jöfn, 34-34, og enn var jafnt þegar fjórði leikhluti hófst, 55-55. Þar náðu heimamenn í Bilbao fljótt yfirhöndinni, þó að munurinn væri aldrei mikill, og lönduðu að lokum sjö stiga sigri.

Bilbao er núna í 9. sæti af 18 liðum eftir að hafa unnið fjóra af níu leikjum sínum. Gran Canaria er í 13. sæti með einum sigri minna.

Martin Hermannsson var hins vegar ekki með Alba Berlín í dag, eftir hnémeiðslin sem hann varð fyrir í Laugardalshöllinni fyrir viku, og ólíklegt virðist að hann spili meira fyrir áramót. Án Martins náði Alba þó að knýja fram sex stiga sigur á Frankfurt, 89-83, og koma sér í 3. sæti þýsku deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×