Formúla 1

Ver­stappen á rá­spól og allt opið í loka­keppninni

Sindri Sverrisson skrifar
Max Verstappen gerði sitt í dag og verður á ráspól á morgun.
Max Verstappen gerði sitt í dag og verður á ráspól á morgun. Getty/Mark Thompson

Max Verstappen ætlar að gera allt sem í hans veldi stendur til þess að verða heimsmeistari í fimmta sinn á morgun og hann náði tveimur bestu tímunum í tímatökunni í dag.

Verstappen verður því á ráspól í Abu Dhabi á morgun en keppinautar hans um titilinn á morgun koma hins vegar í næstu tveimur sætum og allt útlit fyrir gríðarlega spennandi lokakeppni á morgun.

Lando Norris hjá McLaren er efstur í keppni ökuþóra með 408 stig, tólf stigum á undan Verstappen og sextán stigum á undan liðsfélaga sínum Oscar Piastri. Þetta þýðir að Norris getur tryggt sér heimsmeistaratitilinn í fyrsta sinn á morgun með því að ná einu af þremur efstu sætunum því þá skiptir röð annarra ekki máli.

Ef Norris nær ekki á pall þá er hins vegar möguleiki fyrir Verstappen sem orðið hefur heimsmeistari síðustu fjögur ár í röð.

Verstappen náði afgerandi forystu í tímatökunni í dag þegar hann fór á 1:22,295 mínútu í næstsíðustu tilraun en tókst svo jafnframt að bæta sig í lokahringnum sínum.

Norris kom næstur á eftir honum, 0,201 sekúndu á eftir Verstappen, og Piastri varð svo þriðji rétt á eftir liðsfélaga sínum, eða 0,230 sekúndu frá Verstappen.

George Russell var funheitur á æfingu í morgun en endaði í 4. sæti í tímatökunni, alls 0,438 úr sekúndu á eftir Verstappen. Ljóst er að Verstappen þarf að reiða sig á hjálp frá að minnsta kosti tveimur keppendum til að geta orðið meistari á morgun, eða á slæm mistök Norris.

Bein útsending frá lokakeppninni á morgun hefst klukkan 12:30 á Sýn Sport Viaplay.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×