Viðskipti innlent

Verð­bólga hjaðnar hressi­lega

Árni Sæberg skrifar
Útsölur í nóvember höfðu meiri áhrif á vísitölu neysluverðs en oftast áður.
Útsölur í nóvember höfðu meiri áhrif á vísitölu neysluverðs en oftast áður. Vísir/Vilhelm

Verðbólga mælist nú 3,7 prósent eftir að hafa mælst 4,3 prósent í síðasta mánuði. Verðbólga hefur ekki verið minni síðan í desember árið 2020. Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í nóvember 2025, er 658,2 stig og lækkar um 0,48 prósent frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 523,4 stig og lækkar um 0,81 prósent frá október 2025.

Þetta segir í tilkynningu á vef Hagstofunnar. Þar segir að flugfargjöld til útlanda hafi lækkað um 14,3 prósent og haft 0,31 prósenta áhrif á vísitöluna til lækkunar, húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. hafi lækkað um 2,2 prósent, -0,11 prósenta áhrif, og föt og skór hafi lækkað um 2,7 prósent, -0,10 prósenta áhrif. 

Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði, reiknuð húsaleiga, hafi hins vegar hækkað um 0,5 prósent og haft 0,10 prósenta áhrif á vísitöluna til hækkunar.

„Vakin er athygli á því að áhrifa afsláttardaga í nóvember gætir meira að þessu sinni þar sem ekki er einungis um að ræða 2-3 daga eins og áður heldur tilboð sem teygja sig yfir marga daga og jafnvel vikur í mánuðinum.“

Síðastliðna tólf mánuði hafi vísitala neysluverðs hækkað um 3,7 prósent og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 2,7 prósent.

Vísitala neysluverðs er mæling á verðlagi einkaneyslu og byggir á lögum nr. 12/1995 með síðari tíma breytingum. Vísitala neysluverðs er fastgrunnsvísitala en það þýðir að búin er til ákveðin karfa sem inniheldur vörur og þjónustu og verð hennar er mælt mánaðarlega. Breytingar á verði körfunnar eru svo notaðar til að uppfæra vísitöluna. Innihald körfunnar er uppfært einu sinni á ári og þá er stuðst við rannsókn Hagstofunnar á útgjöldum heimilanna ásamt öðrum heimildum. Endurnýjun körfunnar veldur sem slík ekki breytingum á vísitölunni á milli mánaða.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Hjöðnun verðbólgu í sjónmáli

Seðlabankastjóri segist telja að hægja fari á efnahagslífinu en hagvaxtarspár Seðlabankans hafa versnað fyrir seinni hluta ársins og næsta ár sömuleiðis. Miklum uppgangi í hagvexti og útflutningi hafi verið fylgt eftir af röð áfalla sem valdi því að verðbólga hjaðni en efnahagsskilyrði versni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×