Skoðun

Sam­starf og sam­hæfing á breiðum grunni þjóðaröryggis

Víðir Reynisson skrifar

Í meðförum Alþingis eru, eða eru væntanleg, mörg þingmál sem tengjast þjóðaröryggi, almannavörnum og öryggis- og varnarmálum.

Utanríkismálanefnd hefur til meðferðar þingsályktun Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra um stefnu í varnar- og öryggismálum sem byggð er á vinnu þingmannahóps frá því fyrr á árinu. Einnig er í vinnslu hjá nefndinni þingsályktun Ingibjargar Davíðsdóttur ofl. um að stefnan í varnar- og öryggismálum verði felld þjóðaröryggisstefnuna.

Í gær var mælt fyrir frumvarpi Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra sem felur í sér heildarendurskoðun almannavarna og Hanna Katrín Friðriksson atvinnuráðherra leggur fljótlega fram frumvarp um rýni erlendra fjárfestinga í tengslum við þjóðaröryggi.

Einnig er nú unnið að mati á áfallaþoli samfélagsins byggt á sjö grunnviðmiðum Atlantshafsbandalagsins (NATO) um áfallaþol sem snúa að því að;

1. Tryggja samfellu í stjórnsýslu og opinberri lykilþjónustu.

2. Áfallaþol orkuaðgengis.

3. Geta til að takast á við ófyrirséða fólksflutninga.

4. Aukið áfallaþol matar- og vatnsaðfanga.

5. Geta til að meðhöndla fjölda slasaðra og heilbrigðisvá.

6. Áfallaþolið borgaralegt fjarskiptakerfi.

7. Áfallaþolið borgaralegt samgöngukerfi.

Þetta mat er unnið í breiðu samráði um alla stjórnsýsluna undir stjórn dómsmálaráðherra, utanríkisráðherra og ríkislögreglustjóra og í nánu samstarfi við forsætisráðuneytið.

Horfa þarf einnig til löggæsluáætlana, landhelgisgæsluáætlana, áætlana um styrkingu á landamærum, netöryggisstefnu, matvælastefnu og skýrslu um neyðarbirgðir.

Því gefst á Alþingi sjaldgæft tækifæri til að ræða þjóðaröryggi, almannavarnir og varnar- og öryggismál á breiðum grunni.

Það er mikilvægt að þingmenn nýti þetta tækifæri vel og í öllum nefndum þar sem þessi mál koma til skoðunar verði horft á þessa tengingu og nefndirnar ræði jafnvel saman um einstaka þætti. Fæstir þættir sem hér eru undir eru pólitísk deilumál og gott tækifæri að vinna þvert á alla flokka.

Heildstæð sýn á þjóðaröryggi, almannavarnir, varnar- og öryggismál með skýrri stefnu og góðu lagaumhverfi hefur sjaldan verið jafn mikilvæg og núna.

Horfa þarf til allra þátta bæði er snýr að lagaumgjörðinni og stjórnsýslunni og rýnt hvar og hvernig málefnin tengjast og hvort þörf sé á endurskipulagningu og tilfærslu verkefna til að sem mestur slagkraftur náist þvert á stofnanir, samtök, skóla og ráðuneyti.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.




Skoðun

Sjá meira


×