Handbolti

„Þá geta menn al­veg eins verið heima í stofu í Playstation“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Einar Jónsson er þjálfari Íslands og bikarmeistara Fram.
Einar Jónsson er þjálfari Íslands og bikarmeistara Fram. Vísir/Anton Brink

„Þetta er bara hrikalega spennandi. Flest allir eru að gera þetta í fyrsta skipti. Þetta er svona draumaleikurinn í þessum riðli, bara hrikalega spennandi dæmi,“ segir Einar Jónsson, þjálfari Fram, sem leikur í kvöld fyrsta leik í riðlakeppni 32-liða úrslita Evrópudeildarinnar í handbolta.

Í liði Porto er landsliðsmaðurinn Þorsteinn Leó Gunnarsson. En hvernig móttökur fær hann í kvöld?

„Hann verður laminn niður frá fyrstu mínútu. Það er nú bara svoleiðis. Við þolum ekki Mosfellinga,“ segir Einar og hlær og er augljóslega að grínast.

„Það er eini leikmaðurinn sem við höfum spilað á móti og við þekkjum hann ágætlega en við vitum líka á sama tíma að hann er bara hrikalega góður og með mikil gæði þannig að það verður mjög erfitt verkefni að mæta honum og svo sem bara öllum þarna í þessu liði. Þetta er hörkulið og verður mjög verðugt verkefni fyrir okkur.“

Telur Einar að Fram eigi möguleika í leiknum í kvöld?

„Ég ætla nú bara að vera strangheiðarlegur með það, ég held að það yrðu mjög óvænt úrslit. Þeir eru bara, eins og ég sagði áðan, bara hrikalega góðir og við erum kannski ekki alveg á þeim stað sem við hefðum viljað vera á í dag. Aðalatriðið er að fá bara jákvæða upplifun út úr þessu. Við höfum verið að ströggla í deildinni hérna heima,“ segir Einar en Framarar eru í níunda sæti Olís-deildarinnar.

„Við þurfum að fara að fá betri frammistöðu heldur en við höfum verið að sýna undanfarið og það er kannski aðalatriðið þannig að við séum að spila betri leik og ná betri frammistöðu í 60 mínútur. Það er kannski svona okkar helsta markmið og vonandi kveikir svona leikur í mönnum. Við höfum verið frekar daufir í okkar leikjum í deildinni og ef þetta kveikir ekki í mönnum, þá bara geta menn alveg eins verið heima í stofu í Playstation.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×