Körfubolti

Hand­tekinn eftir að hann fannst sofandi í bíl í miðri um­ferð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pierce er fyrrum NBA meistari með Boston Celtics og meðlimur í frægðarhöll körfuboltans.
Paul Pierce er fyrrum NBA meistari með Boston Celtics og meðlimur í frægðarhöll körfuboltans. EPA/CJ GUNTHER

Fyrrverandi NBA-stjarnan Paul Pierce var handtekinn á þriðjudagskvöldið grunaður um ölvunarakstur.

Lögreglan handtók Pierce fyrir ölvunarakstur á hraðbraut í Los Angeles eftir að hann fannst sofandi undir stýri en þetta kemur fram í upplýsingum frá ríkislögreglunni.

Umferðarlögreglan í Kaliforníu hafði verið að sinna ótengdum árekstri nokkurra ökutækja á norðurakreinum þjóðvegar 101 og lokuðu því fjórum af sex akreinum.

Þegar þeir opnuðu akreinarnar aftur um klukkustund síðar sáu þeir Range Rover-jeppa stöðvaðan á veginum, sunnan við slysstaðinn. Lögreglumenn sáu Pierce sofandi við stýrið og „tóku eftir merkjum um ölvun,“ svo þeir hófu rannsókn vegna gruns um ölvunarakstur, segir í fréttatilkynningunni.

Hann var handtekinn fyrir minni háttar brot, ölvunarakstur, sem verður tekið fyrir af borgarlögmanni Los Angeles.

Pierce svaraði ekki strax beiðni um umsögn og ekki tókst að finna frekari samskiptaupplýsingar um hann að svo stöddu.

Hann kom seinna á samfélagsmiðla og sagðist aldrei hafa þurft að bíða svo lengi í umferðateppu. Hann hafi því orðið þreyttur á að bíða og sofnað.

Pierce lék með Boston Celtics í fimmtán keppnistímabil og síðast með LA Clippers áður en hann lagði skóna á hilluna árið 2017. Hann lék einnig með Brooklyn Nets og Washington Wizards.

Pierce var tíu sinnum valinn í stjörnuliðið og var valinn verðmætasti leikmaður úrslitakeppni NBA árið 2008. Hann var tekinn inn í frægðarhöll körfuboltans árið 2021.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×