Viðskipti innlent

Sömu miðarnir kosti nú 370 þúsund

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Unnur segir fjölskylduna ekki á leið til Tene í bráð.
Unnur segir fjölskylduna ekki á leið til Tene í bráð.

Einn farþega Play sem átti flug til Tenerife í morgun segist efast um að hún og fjölskyldan muni fara til Tene í bráð. Flugmiðar sem hún hafi skoðað í morgun hafi síðan þá hækkað um tugi þúsunda. 

„Við vorum komin hálfa leiðina til Tene í hausnum ég og strákarnir,“ segir Unnur Kristín Ólafsdóttir sem var á Keflavíkurflugvelli í morgun á leið til Tenerife ásamt tveimur sonum sínum. Þá bárust fréttir af falli félagsins og fluginu aflýst.

„Ég skoðaði miða uppi á velli í morgun með Heimsferðum til Tene á morgun. Þá hefði ég getað fengið flugið fyrir 230 þúsund fyrir okkur þrjú en ég var í svo mikilli geðshræringu að ég gat ekki pantað þá. Núna eru þessir sömu miðar komnir upp í 370, þannig ég hugsa að við séum ekki að fara neitt í vikunni, við þurfum líklega að bíða þar til síðar.“

Ferðalagið hafi auk þess verið frekar súrt framan af. Þannig hafi taskan verið og þung og hún rukkuð um yfirvigt vegna töskunnar, fyrir flug sem hún mun aldrei fara í.

„Þetta var ógeðslega ömurlegt. Ég var mjög vonsvikin og sár, við höfum séð þetta frí fyrir okkur í hyllingum og búin að vera svo spennt. Auðvitað er þetta ömurlegt fyrir alla, þarna er fullt af fólki að missa vinnuna og ótal margir sem sitja fastir eftir ferðalögin sín,“ segir Unnur.

Hún segir það huggun harmi gegn að hótelið á Tenerife hafi verið boðið og búið til að endurgreiða þeim dvölina. „Svo þarf ég að skoða þetta með flugmiðana og að fá endurgreitt frá Play. Ég hef verið að skoð aðra miða en það var allt uppselt hjá Icelandair, fyrir utan að það hefði kostað 500 til 600 þúsund fyrir okkur þrjú að fara út á morgun. Ég held við förum ekkert fyrr en seinna, maður er bara að reyna að lenda eftir þessa lífsreynslu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×