Viðskipti innlent

Tekur við starfi for­stjóra Samkaupa

Atli Ísleifsson skrifar
Auður Daníelsdóttir.
Auður Daníelsdóttir.

Auður Daníelsdóttir, forstjóri Dranga og Orkunnar, hefur jafnframt tekið við starfi forstjóra Samkaupa.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkunni. Þar segir að Heiður Björk Friðbjörnsdóttir, sem gegnt hafi hlutverki staðgengils forstjóra síðustu mánuði, muni nú einblína á fyrra starf sem framkvæmdastjóri fjármála og upplýsingatækni Samkaupa.

„Auður tók við starfi forstjóra Dranga í sumar, en Drangar er nýstofnað móðurfélag Samkaupa, Orkunnar og Lyfjavals. Hún hefur verið forstjóri Orkunnar síðustu þrjú ár og mun áfram sinna því starfi. Þar með leiðir hún umbreytingar í rekstri félaganna og skipan eigna hjá Dröngum,“ segir í tilkynningunni. 

„Samruni Samkaupa og félaga á neytendamarkaði í eigu Dranga hefur gengið vel. Samkaup á öflugan og tryggan viðskiptavinahóp og markmið okkar er að styrkja stöðu fyrirtækisins enn frekar og efla þjónustu við viðskiptavini. Neytendamarkaðurinn er í stöðugri þróun, bæði hvað varðar stafrænar lausnir og aðra þjónustu til viðskiptavina. Við í Samkaupum hlökkum til að takast á við þær áskoranir, en stefna okkar er að veita einfalda og góða þjónustu þar sem upplifun viðskiptavina er í fyrirrúmi,“ er haft eftir Auði Daníelsdóttur, forstjóra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×