Viðskipti innlent

Helga nýr fjár­mála­stjóri Ísorku

Atli Ísleifsson skrifar
Helga Elíasdóttir.
Helga Elíasdóttir. Ísorka

Helga Elíasdóttir hefur tekið við starfi fjármálastjóra hjá Ísorku. Hún tekur við keflinu af Reyni Valbergssyni sem hverfur til annarra verkefna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ísorku. Þar segir að Helga hafi víðtæka reynslu af fjármálum og rekstri, meðal annars fyrir Ölgerðina, þar sem hún starfaði sem deildarstjóri reikningshalds, og tengd félög. 

„Hún hefur jafnframt starfað sem sérfræðingur í fjármálum hjá Iceland Spring og CCP og sem Rekstrarstjóri Iceland Go Tours.

Helga er með MSc próf í fjármálum fyrirtækja og BSc í fjármálum og reikningshaldi,“ segir í tilkynningunni. 

Um Ísorku segir að félagið sé leiðandi afl í orkuskiptum á Íslandi með um 55.000 virka notendur hleðslustöðva fyrir rafbíla vítt og breitt um landið. „Fyrirtækið sérhæfir sig í heildstæðum hleðslulausnum fyrir einstaklinga og fyrirtæki, býður viðskiptavinum sínum ráðgjöf og annast uppsetningu og umsjón með rekstri og þjónustu hleðslustöðva.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×