Viðskipti innlent

Al­manna­tenglar stofna fjöl­miðil

Kjartan Kjartansson skrifar
Björgvin Guðmundsson (t.v.) og Óli Kristján Ármannsson (t.h.) ganga þessa dagana bæði með hatta almannatengla og fjölmiðlamanna.
Björgvin Guðmundsson (t.v.) og Óli Kristján Ármannsson (t.h.) ganga þessa dagana bæði með hatta almannatengla og fjölmiðlamanna. Vísir

Eigandi og ráðgjafi eins helsta almannatengslafyrirtæki landsins hafa hleypt af stokkunum nýjum fjölmiðli sem birtir fréttir og tilkynningar. Ritstjóri miðilsins telur það ekki bjóða upp á hagsmunaárekstra að vinna við almannatengsl og skrifa fréttir á sama tíma.

Fréttir byrjuðu að birtast á vefsíðunni 24 stundum fyrr í sumar. Síðunni er lýst sem „upplýsingaveitu þar sem fjallað sé um valin málefni líðandi stundar, birtar tilkynningar fyrirtækja og annað fréttnæmt efni“.

Ritstjóri vefsins er Óli Kristján Ármannsson og ábyrgðamaður Björgvin Guðmundsson. Félag í eigu Björgvins er sagt útgefandi 24 stunda. 

Björgvin er jafnframt eigandi KOM ráðgjafar, eins helsta almannatengslafyrirtæki landsins, og Óli Kristján er ráðgjafi þar. Í samtali við Vísi segir Óli Kristján að vefurinn sé enn sem komið er hliðarverkefni sem þeir Björgvin vinni að í hjáverkum meðfram almannatengslastarfi þeirra. Hann telur þau störf ekki skarast.

„Fólk getur verið með alls konar hatta á höfði og unnið sín störf af fagmennnsku eftir því að hverju það einbeitir sér hverju sinni. Blaðamenn eru vanir því sjálfir,“ segir Óli Kristján spurður að því hvort að það sé ekki hagsmunaárekstur að stunda almannatengsl samhliða fréttaskrifum.

„Það er nú allur gangur á því, er það ekki? En ég þekki það svo sem ekki,“ svaraði ritstjórinn þegar hann var spurður hvort að það væri vanalegt að blaðamenn stunduðu önnur störf af þessu tagi samhliða fréttamennsku. 

Óli Kristján var blaðamaður Fréttablaðsins í tólf ár og var meðal annars varaformaður Blaðamannafélags Íslands á öðrum áratug aldarinnar. Björgvin starfaði einnig sem viðskiptablaðamaður á Morgunblaðinu á sínum og var ritstjóri Viðskiptablaðsins.

Ekki skráður hjá Fjölmiðlanefnd

Miðillinn er ekki á lista Fjölmiðlanefndar yfir skráða fjölmiðla. Lög um fjölmiðla kveða á um skyldu til að skrá þá. Óli Kristján segir að 24 stundir verði mögulega skráðar þar en hann eigi eftir að hugsa það. 

„Þetta er svona upplýsingaveita, fjölmiðill,“ segir ritstjórinn um eðli miðilsins.

Greinar á vefnum 24 stundum virðast allar byggjast á tilkynningum frá fyrirtækjum eða stofnunum eða fréttum úr erlendum miðlum.Skjáskot

„Þetta var bara hugdetta, tilraun, það væri alveg pláss fyrir meiri fjölbreytni í fjölmiðlaflórunni,“ segir hann um ástæður þess að þeir Björgvin ákváðu að stofna 24 stundir.

Það eigi eftir að koma í ljós hvernig 24 stundir verði frábrugðnar öðrum fjölmiðlum sem eru fyrir á markaði.

„Hann dæmist af verkum sínum eins og aðrir fjölmiðlar,“ segir Óli Kristján.

Kúnnar KOM fá ekki forgang

Spurður að því hvort að vefurinn verði rekinn fyrir auglýsingatekjur segir Óli Kristján að lífvænleiki hans komi til með að ráðast af viðtökunum. Ekki verði boðið upp á að greiða fyrir birtingu fréttatilkynninga á 24 stundum.

„Ef það væri þá myndi það verða tilgreint alveg sérstaklega ef við kysum að feta þá slóð eins og reyndar margir aðrir fjölmiðlar á Íslandi hafa gert, Vísir og Morgunblaðið þar á meðal,“ segir Óli Kristján.

Viðskiptavinir KOM muni ekki eiga greiðari aðgang að því að fá tilkynningar sínar birtar en aðrir.

„Við erum ekkert með mjög háan þröskuld á tilkynningum. Það væri gaman ef fleiri færu að senda okkur tilkynningar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×