Handbolti

Holland fór illa með stelpurnar okkar í seinni hálf­leik

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Stelpurnar okkar byrjuðu mótið vel gegn Færeyjum í gær en náðu ekki að halda því áfram gegn Hollandi í dag.
Stelpurnar okkar byrjuðu mótið vel gegn Færeyjum í gær en náðu ekki að halda því áfram gegn Hollandi í dag. HSÍ

Landslið Íslands í handbolta skipað leikmönnum sautján ára og yngri tapaði öðrum leik sínum á Evrópumótinu, 29-25 gegn Hollandi.

Fyrri hálfleikurinn var spennandi og staðan jöfn 16-16 að honum loknum en í seinni hálfleik fóru stelpurnar okkar illa með sínar sóknir og þær hollensku brunuðu fram úr.

Ísland barðist til baka undir lokin og náði að minnka muninn, en hann var orðinn of mikill til að gera leikinn spennandi.

Líkt og í sigri gærdagsins gegn Færeyjum var Laufey Helga Óskarsdóttir markahæst hjá Íslandi, með ellefu mörk.

Tapið þýðir að Ísland dettur niður í þriðja sæti riðilsins, með jafn mörg stig og Holland en tap í innbyrðis viðureigninni. Sviss er í efsta sæti riðilsins með fullt hús stiga eftir fyrstu tvo leikina.

Tvö efstu liðin í riðlinum komast áfram í milliriðil og um leið í hóp tólf efstu þjóða á mótinu. Tvö neðstu liðin halda samt áfram keppni og spila upp á Forsetabikarinn.

Ísland varð í fimmtánda sæti á þessu móti fyrir tveimur árum en komst ekki á Evrópumótin 2019 eða 2021.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×