Viðskipti innlent

Er­lendir far­þegar á bak við 81 prósent tekna Icelandair

Kristján Már Unnarsson skrifar
Yfir áttatíu prósent farþega Icelandair eru útlendingar, miðað við tölur um hvar farseðlarnir voru keyptir.
Yfir áttatíu prósent farþega Icelandair eru útlendingar, miðað við tölur um hvar farseðlarnir voru keyptir. Vilhelm

Íslendingar í flugvél til og frá heimalandinu hafa eflaust margir spurt sig hversu hátt hlutfall samlanda sinna sé um borð. Og kannski undrast að hafa þá tilfinningu að íslenskir farþegar séu í miklum minnihluta.

Icelandair gefur að vísu ekki upp skiptingu farþega sinna eftir þjóðerni í nýjasta árshlutauppgjöri sínu. Þar eru hins vegar birtar tölur um hvaðan farmiðatekjur félagsins fyrstu sex mánuði ársins voru upprunnar. Það gefur ákveðna vísbendingu um hvaðan farþegarnir komu.

Þar sést að aðeins 19 prósent farþegatekna komu af farseðlum sem keyptir voru á Íslandi. Því má draga þá ályktun að það sé vart nema fimmta hvert sæti um borð sem að jafnaði er setið Íslendingi, þótt kannski hafi einhverjir landar keypt farmiðann sinn í útlöndum, og jafnvel einhverjir útlendingar keypt miðann sinn á Íslandi.

Farþegar ganga um borð í Boeing 767-þotu Icelandair á Keflavíkurflugvelli.kmu

Stærsti farþegahópur Icelandair á fyrri helmingi ársins keypti farmiðann í Norður-Ameríku en þaðan komu 56 prósent farþegatekna. Það segir okkur að Bandaríkjamenn, og raunar einnig Kanadamenn, eru mikilvægustu viðskiptavinir Icelandair nú um stundir, en félagið flýgur núna til fimmtán áfangastaða í Bandaríkjunum og þriggja áfangastaða í Kanada.

Farmiðatekjur af Evrópubúum, utan Íslands, voru minna en helmingur tekna frá Norður-Ameríku. Um 23 prósent farþegatekna Icelandair komu af miðasölu í Evrópu. Um 2 prósent komu frá löndum utan Ameríku og Evrópu.

Stóra myndin er sú að 81 prósent farþegatekna Icelandair komu af farmiðasölu erlendis, aðeins 19 prósent á Íslandi, og má því hiklaust skilgreina félagið sem útflutningsfyrirtæki. Þetta er staðan þegar Icelandair minnist þess að áttatíu ár eru liðin frá því það fór í sitt fyrsta millilandaflug.


Tengdar fréttir

Fagna áttatíu ára afmæli millilandaflugs Íslendinga

Icelandair fagnar því um þessar mundir að áttatíu ár eru liðin frá fyrsta millilandaflugi Íslendinga. Afmælisins var sérstaklega minnst á flugvellinum í Glasgow í fyrradag en fyrsta flugið frá Íslandi var einmitt til Skotlands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×