Viðskipti innlent

Heimar mega kaupa Grósku

Árni Sæberg skrifar
Halldór Benjamín Þorbergsson er forstjóri Heima.
Halldór Benjamín Þorbergsson er forstjóri Heima. Heimar

Samkeppniseftirlitið hefur tilkynnt um að það telji hvorki forsendur til íhlutunar né frekari rannsóknar vegna kaupa fasteignafélagsins Heima á öllu hlutafé í Grósku ehf., sem á og rekur samnefnda fasteign í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Eigendur Grósku, Björgólfur Thor Björgólfsson og viðskiptafélagar hans, verða stærstu eigendur Heima að viðskiptunum loknum.

Fyrirvaranum um samþykki Samkeppniseftirlitsins hefur því verið aflétt. Unnið er að frágangi viðskiptanna og má gera ráð fyrir því að afhending 258 milljón nýrra hluta í Heimum fari fram á næstu vikum.

Tæplega fjórtán milljarða viðskipti

Heimar tilkynntu í febrúar að gengið hefði verið frá samkomulagi um helstu skilmála um kaup Heima á öllu hlutafé Grósku ehf. og Gróðurhússins ehf.. Gróska ehf. á fasteignina Grósku að Bjargargötu 1, 102 Reykjavík. Heildarvirði viðskiptanna væri metið á 13,85 milljarða króna. 

Birgir Már Ragnarsson, Björgólfur Thor Björgólfsson og Andri Sveinsson yrðu stærstu eigendur Heima eftir viðskiptin, en þeir eru uppbyggingaraðilar og eigendur Grósku.

Afhenda 258 milljónir hluta á næstu vikum

Tilkynnt var um kaupin með hefðbundnum fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Eftir tilkynningu Samkeppniseftirlitsins um að það telji ekki ástæðu til að aðhafast, segir í tilkynningu Heima að fyrirvaranum hafi nú verið aflétt.

Unnið sé að frágangi viðskiptanna og gera megi ráð fyrir því að afhending 258 milljón nýrra hluta í Heimum fari fram á næstu vikum.

Frekari grein verði gerð fyrir viðskiptunum á síðari stigum eftir því sem tilefni er til og samræmi við lögbundna upplýsingagjöf félagsins. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×