Uppgjörið: Haukar - Valur 22-29 (0-2) | Skellt í lás í seinni Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar 23. maí 2025 18:47 Hafdís Renötudóttir var mögnuð í kvöld. Vísir/Anton Brink Valur er með 2-0 forystu í úrslitaeinvígi Olís-deildar kvenna eftir öruggan sjö marka sigur gegn Haukum í kvöld, 22-29. Hafdís Renötudóttir skellti í lás í seinni hálfleik og gerði Haukum afar erfitt fyrir. Boðið var upp á mikla skemmtum í Hafnarfirðinum í kvöld og það var snemma ljóst að bæði lið ætluðu sér að sækja til sigurs. Stál í stál frá fyrstu mínútu og um tíma virtust markverðir beggja liða ætla að taka yfir. Liðin skiptust á að skora nánast allan fyrri hálfleikinn, en það voru Valskonur sem virtust hálfu skrefi framar framan af leik. Hafdís Renötudóttir skellti í lás um nokkurra mínútna skeið, en sóknarlega náði Valsliðið hins vegar ekki að nýta sér góða markvörslu Hafdísar. Þess í stað voru það Haukar sem urðu fyrri til að ná tveggja marka forystu í leiknum, en hún náðist ekki fyrr en að um þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum. Bæði lið misnotuðu hins vegar síðustu sókn hálfleiksins og munurinn aðeins eitt mark þegar liðin gengu til búningsherbergja, staðan 13-12, Haukum í vil. Í síðari hálfleik breyttist sviðsmyndin hins vegar heldur betur. Hafdís Renötudóttir tók stóra hengilásinn með sér úr klefanum og skellti í lás. Valskonur skoruðu fyrstu fimm mörk seinni hálfleiksins og náðu svo fljótlega fimm marka forystu. Valsliðið hafði í raun öll völd á vellinum í seinni hálfleik. Hafdís virtist vera búin að verja allt þor úr Haukaliðinu og heimakonur settu hvert skotið á fætur öðru í stöngina, slána eða yfir. Valskonur litu aldrei um öxl og juku forskot sitt jafnt og þétt. Mest náði liðið níu marka forskoti, en vann að lokum öruggan sjö marka sigur, 22-29. Valur leiðir einvígið því 2-0 og getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn á heimavelli næsta mánudag. Atvik leiksins Vörn og markvarsla Vals í upphafi seinni hálfleiks var það sem breytti leiknum. Valskonur beindu Haukum oft og tíðum í erfið skot, en þó Haukar kæmust í góð færi var Hafdís eins og mennskur veggur í markinu og varði nánast allt sem kom á hana. Stjörnur og skúrkar Það þarf ekkert að fara mörgum orðum um það að Hafdís Renötudóttir er stjarna leiksins. Átján varin skot, 50 prósent hlutfallsvarsla og presence - svo við leyfum okkur að sletta - sem varð til þess að flest skot Hauka sem hún varði ekki enduðu í stöng eða framhjá. Þá má alveg velja nokkra skúrka úr liði Hauka. Heimakonur brotnuðu allt of auðveldlega þegar illa fór að ganga í seinni hálfleik. Elín Klara Þorkelsdóttir hefur oft átt betri leik þó hún hafi endað með sex mörk. Einnig var hornamönnum Hauka enginn greiði gerður með því að vera að opna hornafæri, vitandi að Hafdís var með þau á lás. Dómararnir Nafnarnir Ómar Ingi Sverrisson og Ómar Örn Jónsson voru að mestu með hlutina í teskeið í kvöld. Undirrituðum fannst Valsliðið fá tvö heldur ódýr víti í fyrstu þremur sóknunum sínum og hafði þá áhyggjur af því að línan yrði ansi hörð, en Ómararnir stilltu sig af og skiluðu sínu hlutverki vel heilt yfir. Stemning og umgjörð Það vantaði ekkert upp á stemninguna á Ásvöllum í kvöld. Úrslitabragur yfir öllu og umgjörðin til fyrirmyndar. Olís-deild kvenna Haukar Valur
Valur er með 2-0 forystu í úrslitaeinvígi Olís-deildar kvenna eftir öruggan sjö marka sigur gegn Haukum í kvöld, 22-29. Hafdís Renötudóttir skellti í lás í seinni hálfleik og gerði Haukum afar erfitt fyrir. Boðið var upp á mikla skemmtum í Hafnarfirðinum í kvöld og það var snemma ljóst að bæði lið ætluðu sér að sækja til sigurs. Stál í stál frá fyrstu mínútu og um tíma virtust markverðir beggja liða ætla að taka yfir. Liðin skiptust á að skora nánast allan fyrri hálfleikinn, en það voru Valskonur sem virtust hálfu skrefi framar framan af leik. Hafdís Renötudóttir skellti í lás um nokkurra mínútna skeið, en sóknarlega náði Valsliðið hins vegar ekki að nýta sér góða markvörslu Hafdísar. Þess í stað voru það Haukar sem urðu fyrri til að ná tveggja marka forystu í leiknum, en hún náðist ekki fyrr en að um þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum. Bæði lið misnotuðu hins vegar síðustu sókn hálfleiksins og munurinn aðeins eitt mark þegar liðin gengu til búningsherbergja, staðan 13-12, Haukum í vil. Í síðari hálfleik breyttist sviðsmyndin hins vegar heldur betur. Hafdís Renötudóttir tók stóra hengilásinn með sér úr klefanum og skellti í lás. Valskonur skoruðu fyrstu fimm mörk seinni hálfleiksins og náðu svo fljótlega fimm marka forystu. Valsliðið hafði í raun öll völd á vellinum í seinni hálfleik. Hafdís virtist vera búin að verja allt þor úr Haukaliðinu og heimakonur settu hvert skotið á fætur öðru í stöngina, slána eða yfir. Valskonur litu aldrei um öxl og juku forskot sitt jafnt og þétt. Mest náði liðið níu marka forskoti, en vann að lokum öruggan sjö marka sigur, 22-29. Valur leiðir einvígið því 2-0 og getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn á heimavelli næsta mánudag. Atvik leiksins Vörn og markvarsla Vals í upphafi seinni hálfleiks var það sem breytti leiknum. Valskonur beindu Haukum oft og tíðum í erfið skot, en þó Haukar kæmust í góð færi var Hafdís eins og mennskur veggur í markinu og varði nánast allt sem kom á hana. Stjörnur og skúrkar Það þarf ekkert að fara mörgum orðum um það að Hafdís Renötudóttir er stjarna leiksins. Átján varin skot, 50 prósent hlutfallsvarsla og presence - svo við leyfum okkur að sletta - sem varð til þess að flest skot Hauka sem hún varði ekki enduðu í stöng eða framhjá. Þá má alveg velja nokkra skúrka úr liði Hauka. Heimakonur brotnuðu allt of auðveldlega þegar illa fór að ganga í seinni hálfleik. Elín Klara Þorkelsdóttir hefur oft átt betri leik þó hún hafi endað með sex mörk. Einnig var hornamönnum Hauka enginn greiði gerður með því að vera að opna hornafæri, vitandi að Hafdís var með þau á lás. Dómararnir Nafnarnir Ómar Ingi Sverrisson og Ómar Örn Jónsson voru að mestu með hlutina í teskeið í kvöld. Undirrituðum fannst Valsliðið fá tvö heldur ódýr víti í fyrstu þremur sóknunum sínum og hafði þá áhyggjur af því að línan yrði ansi hörð, en Ómararnir stilltu sig af og skiluðu sínu hlutverki vel heilt yfir. Stemning og umgjörð Það vantaði ekkert upp á stemninguna á Ásvöllum í kvöld. Úrslitabragur yfir öllu og umgjörðin til fyrirmyndar.